fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins um Pál Magnússon: „Þetta dæmir sig auðvitað sjálft“ – „Bara fyrirsláttur hjá honum“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 15. júní 2018 11:38

Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, sagði við Eyjuna í morgun, að yfirlýsing Páls Magnússonar í gær væri fyrirsláttur. Páli var vikið úr fulltrúaráðinu, vegna skorts á stuðningi við flokkinn í aðdraganda kosninga.

Sagði Páll í gær í yfirlýsingu sinni að hann hefði talið það best fyrir heildarhagsmuni flokksins að hann héldi sig til hlés í kosningabaráttunni, þar sem það væri markmið sitt að laða kjósendur H-listans aftur í Sjálfstæðisflokkinn í Eyjum, þann sama flokk og vill ekkert með Pál hafa.

Jarl segir að greinilega megi sjá á þessum viðbrögðum Páls, að landsmálin skipti hann meira máli en sveitastjórnarmálin:

„Fyrir það fyrsta held ég að þetta sé nú bara fyrirsláttur hjá honum. En ef maður greinir þetta svar hjá honum honum, þá sér maður að sveitastjórnarmálin skipta hann ekki jafn miklu máli og landsmálin enda snúa þau að honum og sveitastjórnarmálin að einhverjum öðrum. Eftir stendur að hann studdi ekki eigin flokk og það er fordæmalaust.“

Páll sagði í yfirlýsingu sinni í gær að hann vonaðist eftir því að ná að laða aftur kjósendur H-listans til Sjálfstæðisflokksins og talaði fyrir sáttum, þegar „sjatnað“ hefði í „örvæntingunni“ og „reiðinni“.

Jarl gefur lítið fyrir þessi orð Páls:

„Þetta dæmir sig auðvitað sjálft. Hvað sáttir varðar vil ég þó segja, að þó Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 100% atkvæða hefði samt þurft að gera eitthvað í þessu máli, enda fordæmalaust að þingmaður kjördæmisins styðji ekki sinn flokk. Hvað þá með þeim rökum að  klofningsframboðið sé í raun og veru bara annar Sjálfstæðisflokkur, líkt og hann hélt fram fyrir kosningar. Það er í raun með ólíkindum að oddviti flokksins skuli láta slíkt út úr sér opinberlega. Það væri kannski skiljanlegt kaffistofuhjal, en oddviti flokksins ætti einmitt að mæla gegn slíku tali út á við, hefði ég haldið.“

Jarl segist hafa óskað eftir fundi með forystu Sjálfstæðisflokksins vegna málsins. Hann vildi ekki tjá sig um hvaða ástæður lægju að baki þessari ákvörðun Páls um að styðja ekki eigin flokk, en ítrekaði að það þyrfti að hreinsa borðið, það væri ekki hægt að láta eins og ekkert hefði gerst.

Forysta Sjálfstæðisflokksins virðist milli steins og sleggju í málinu. Undir venjulegum kringumstæðum væri hægt að bola Páli Magnússyni hægt og rólega úr flokknum til dæmis með því að svipta hann formennsku í Allsherjar- og menntamálanefnd. Sem slíkur talaði Páll í alls 48 mínútur á yfirstöðnu þingi, minnst allra þingmanna, en það er sagt fordæmalaust hjá formanni í svo öflugri nefnd.

Hvort slíkir tilburðir séu þegar byrjaðir er erfitt að segja til um, en þeir Brynjar Níelsson og Vilhjálmur Árnason, þingmenn flokksins, hafa þegar sagt sína skoðun á ákvörðunum Páls.

Eins og sakir standa er ríkisstjórnin með 33 þingmenn gegn 30 þingmönnum stjórnarandstöðunnar, séu þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem styðja ekki ríkisstjórnarsamstarfið, talin til stjórnarandstöðu. Ef Páll hótaði því að bætast í þann hóp, eru hlutföllin 32-31, en það  þótti Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, vera of naumur meirihluti til samstarfs í meirihlutaviðræðum sínum við núverandi stjórnarandstöðu, strax eftir kosningar.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt