fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Fagna hertu eftirliti með heimagistingu

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 15. júní 2018 17:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar fagnar sérstöku átaksverkefni um hert eftirlit með heimagistingu sem ríkisstjórnin samþykkti nýverið, og þakkar ráðherra ferðamála fyrir frumkvæði í málinu, samkvæmt tilkynningu.  Samtök ferðaþjónustunnar segjast  lengi hafa bent á þörfina fyrir stóraukið eftirlit með leyfisskyldri gististarfsemi, enda er ljóst að umfang ólöglegrar gististarfsemi undir merkjum Airbnb og sambærilegra deilikerfa skekkir samkeppnisumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja.

Þá segir að það sé „ótækt“ að óábyrgir aðilar komist upp með að reka gistiþjónustu í samkeppni við ábyrgan atvinnurekstur án þess að skila sköttum og skyldum, en þannig fari forgörðum um 2 milljarðar króna sem annars gætu nýst til uppbyggingar innviða í ferðaþjónustu. Brýnt sé að fjármagnið sem lagt er í verkefnið skili sér einnig í eftirlit á ólöglegri gististarfsemi utan höfuðborgarsvæðisins. Átaksverkefni um hert eftirlit sé því mikilvægt fyrsta skref í því að koma ólöglegri gististarfsemi upp á yfirborðið.

 

Hin svokallað 90 daga regla tók gildi í ársbyrjun 2017 en í henni felst að einstaklingum er heimilt að leigja út lögheimili sín eða eina aðra fasteign sem er í þeirra eigu til allt að 90 daga á hverju almanaksári án þess að lúta sömu reglum um leyfi og gjöld og gilda um atvinnurekstur. Átaksverkefnið mun stórefla heimagistingarvakt sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en hann sér um eftirlit með heimagistingu á öllu landinu. Er þetta gert til að tryggja rétt skattskil einstaklinga og að lögaðilar sem stunda gististarfsemi afli sér rekstrarleyfis og starfsemin fari þar með að þeim lögum sem um hana gilda. Kostnaður við þessa styrkingu eftirlits er talinn nema 64 millj. kr. en gera má ráð fyrir því að bætt skattskil og sektargreiðslur vegi þann kostnað upp.

Lagt er upp með að átaksverkefnið verði til eins árs og gera má ráð fyrir því að um leið og eftirlit með heimagistingu verður sýnilegra og virkara muni það hafa hvetjandi áhrif á einstaklinga til að skrá skammtímaútleigu sína. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum í heimagistingarvakt verði fjölgað úr þremur í ellefu og koma þeir til með að framkvæma vettvangsrannsóknir í kjölfar ábendinga frá almenningi eða á grundvelli upplýsinga sem koma fram í frumkvæðiseftirliti. Þá verða í hópnum tveir lögfræðingar sem munu halda utan um stjórnsýslumeðferð og ákvarðanir um stjórnvaldssektir. Þess má geta að frá því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tók við málaflokki gististaða árið 2015 hefur umfang skammtímaleigu sjöfaldast.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt