fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Össur um Elliða: „Þeir sem ætla að halda áfram í stjórnmálum fara ekki í hefndarleiðangur“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 14. júní 2018 18:30

Össur Skarphéðinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra og fyrsti formaður Samfylkingarinnar, segir Elliða Vignisson, fráfarandi bæjarstjóra Vestmannaeyja, hafa gert „asnaspark“ með því að siga „heimavarnarliðinu“ á Pál Magnússon, en þar á Össur við fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Eyjum sem rak Pál úr ráðinu og lýsti yfir algeru vantrausti á fyrsta þingmann flokksins í kjördæminu, fyrir að styðja ekki Sjálfstæðisflokkinn í aðdraganda kosninga. Legið hefur lengi ljóst fyrir að Páll studdi klofningsframboðið Fyrir Heimaey, leitt af Írisi Róbertsdóttur.

Össur skrifar stuttan pistil um þessa farsakenndu atburðarrás sem hann nefnir „Asnaspark í Eyjum“:

„Í ósigri halda þeir stjórnmálamenn lífi sem sýna æðruleysi, gefast ekki upp, og láta nægja að gráta eina nótt. Svo rísa þeir upp með morgunsólinni og gera nýtt plan. Þeir sem ætla að halda áfram í stjórnmálum fara ekki í hefndarleiðangur, og þeir halda spælingunni fyrir sjálfan sig.

Elliði, vígamaður úr Eyjum sem féll í heimatilbúna pólitíska gröf, brýtur allar þessar reglur. Hann makar spælingunni yfir allt umhverfið, og dregur úr möguleikum á endurkomu með því að siga heimavarnarliðinu á Pál Magnússon. Um leið tryggir hann að Páll Magnússon mun gera allt sem hann getur, og fara eldi og brennisteini um allar Eyjar og miðin, til að tryggja að núverandi meirihluti haldi í kosningunum eftir fjögur ár.“

Það ber að nefna, að í orðsendingu Páls í dag, sagðist hann ætla að vinna að því að „laða þetta fólk aft­ur til fylg­is við Sjálf­stæðis­flokk­inn,“ og á við klofningsframboðið.

Össur skrifar einnig að Elliði gæti verið í klípu, með Pál upp á móti sér:

„Páll er ættstór, vinmargur, og á glæsta fjölskyldusögu í Eyjum. Hann er í uppeldi sem arftaki Davíðs á ritstjórastóli, og hefur passað upp á að vera sægreifamegin í lífinu. Sægreifarnir eiga náttúrlega Moggann með skagfirska efnahagssvæðinu. Elliði gæti lent í því að hafa bæði Pálsliðið dýrvitlaust á móti sér og Moggann í öðru liði þegar kemur í næsta slag.“

Um Írisi segir Össur, að ólíkt Elliða, hafi hann lifað af viðureignina við hana, á þingi:

„Sjálfur minnist ég þess að núverandi bæjarstjóri í Eyjum var varla búin að vera korter sem varaþingmaður á Alþingi þegar hún réðst á blíðlyndan og hrekklausan utanríkisráðherra fyrir það eitt að vilja vakna á morgnana innan ESB. Öfugt við Elliða lifði ég af viðureignina við Írisi bæjarstjóra.“

Upphaf klofningsframboðsins Fyrir Heimaey má rekja til þess að Elliði sagðist í byrjun árs jákvæður fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn héldi prófkjör, í fyrsta skipti í 28 ár. Þegar á hólminn var komið, kaus Elliði gegn tillögu fulltrúaráðsins um prófkjör sem kveikti glóðina að hinu mikla báli sem síðar varð. Össur segir að Elliði sé ekki fyrsti maðurinn sem verði óttanum við prófkjöri að bráð, en hafi gert mistök með því að fara í hart gegn Páli:

„Óttinn við prófkjör hefur margan manninn drepið í stjórnmálum. Elliði er ekki sá fyrsti. Sumir hafa þó náð því að rísa upp og ganga aftur. Elliði hefur torveldað sína eigin afturgöngu með því að láta reka Pál ræfilinn úr hópi hinna innmúruðu. Það var asnaspark.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins