fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Bílismi er ekki genetískur á Íslandi

Egill Helgason
Þriðjudaginn 12. júní 2018 22:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var í menntaskóla á áttunda áratugnum man ég eftir einum nemanda sem átti bíl. Hann var reyndar fallisti og því aðeins eldri en við hin. Hann kom ekki alltaf á bílnum í skólann, bara stundum.

Það er ekki partur af erfðamengi Íslendinga að vera bílaþjóð, hvað þá að eiga helst tvo bíla á hverja fjölskyldu.

Ég ætla ekki að halda því fram að þessi tími hafi verið ótrúlegt blómaskeið alls kyns starfsemi í Miðborginni. Það vantaði eiginlega alveg kaffistaði og veitingahús. En verslunin var þá enn í Miðbænum – og hverfisbúðir út um allt.

Þetta breyttist, en það var ekki vegna þess að við séum genetískir bílistar. Bílar eru margfalt fleiri nú en þá og hlutfall þeirra á hvern íbúa miklu hærra.

Nei, það var farið a skipuleggja Reykjavík í anda bandarískra bílaborga. Það var lögð áhersla á stórar bílagötur – nú kallaðar stofnbrautir – sem skyldu flytja fólkið til og frá vinnu og milli hverfa. Við erum ennþá að súpa seyðið af slíku borgarskipulagi – og menn láta eins og verið sé að ráðast á sjálft Íslendingseðlið ef einhverjar breytingar eru gerðar á.

Á sama tíma fóru að rísa verslunarkringlur og verslunarhús. Kringlan, Smáralind, Korputorg – meira að segja í Vestur- og Miðbænum var versluninni rutt í skemmur sem var hrúgað upp úti á Granda. Loks bætist svo Costco við. Á alla þessa staði er nánast útilokað að komast nema á bíl – allt annað þykir barasta fáránlegt.

Bílunum heldur enn áfram að fjölga. Við vitum flest að þetta gengur ekki svona lengur – það er ekkert vit í þessu. Í borgum alls staðar í kringum okkur eru gerðar ráðstafanir til að draga úr bílaumferð. En hérna er því mótmælt á forsendunum sem nefndar eru hér að ofan – að við séum bílafólk og engar refjar.

En samt vorum við það ekki fyrir fáum áratugum. Þá komumst við ágætlega af án bílamergðarinnar. Það er meira að segja sagt að veðrið hafi verið verra í þá tíð, að minnsta kosti á 7da og 8da  áratugnum.

Ég dvaldi í Amsterdam um daginn og er undir dálitlum áhrifum frá því. Í Amsterdam er nánast búið að útrýma bílum. Langalgengasta farartækið er reiðhjól. Fólk fer um allt hjólandi. Stundum getur það jafnvel virkað ógnandi fyrir gangandi vegfarendur þegar torfur af einbeittum hjólreiðamönnum virðast stefna á mann. Þetta eru heldur engin sporthjól með knapa í gulum sjálflýsandi göllum, heldur yfirleitt gamaldags sterkbyggð hjól. Myndin hér að ofan sýnir reiðhjólastæði í Amsterdam. Þar eru fleiri hjól en íbúar – eru ekki um það bil fleiri bílar en íbúar í Reykjavík.

Út um alla borgina dafna verslanir. Alls konar búðir. Úrvalið er ótrúlegt. Þéttleiki byggðarinnar og samgöngumáti íbúanna býður upp á þetta. Það hentar ekki að fara á hjóli í vöruskemmur í útjaðri byggðarinnar. Sjái maður bíla þá eru það leigubifreiðar – og stundum fínir og rándýrir bílar sem eigendurnir geta ekki stillt sig að sýna. En í þessu umhverfi virkar það kjánalegt.

Maður fer líka að velta því fyrir sér á svona stað hvílíkur kostnaður er við alla bifreiðaeignina, allt plássið sem þeir taka (það kostar jú líka), göturnar, stæðin, viðhaldið. Og svo kostnaður einstaklinganna af þessu – sem sumir þurfa að reka tvo bíla til að geta komist um með sig og sína í hinni dreifðu borg. Því má bæta við þetta að Amsterdam er einstaklega snyrtileg borg og öllu vel við haldið.

Nú er rifist um það hvort eigi að breyta Laugavegi í göngugötu. Við höfum tekið svo margar rangar ákvarðanir í borgarskipulagi að þetta þykir ógurleg goðgá. Fer þá ekki neinn á Laugaveginn framar að versla? En blómatími hans sem verslunargötu var áður en bílaeign varð almenn. Það er þversögnin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus