fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Framboðin sextán í Reykjavík

Egill Helgason
Laugardaginn 5. maí 2018 16:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er metfjöldi framboða í Reykjavík í kosningunum 26. maí. Sextán framboð hafa skilað inn listum, það er svosem ekki víst að þeir verði allir tekir gildir, en þetta eru tvöfalt fleiri en var í síðustu kosningum.

Það verður að segjast eins og er að fjölmiðlum er dálítill vandi á höndum að kynna sextán framboð í Reykjavík svo vel sé. Það má heldur ekki gleyma því að kosningar eru víðar en í Reykjavík. Fjölmiðlum ber náttúrlega skylda til að fjalla um þær líka.

Þegar svona stendur á er hætt við að framboð fái lítið svigrúm til að kynna sig. Stóru flokkanir hafa fé til að eyða í auglýsingar, þeir sem eru klárir á netinu geta notað samskiptamiðlana – enn sér maður varla nema Sósíalistaflokkinn og Miðflokkinn með einhver tilþrif þar.

Náttúrlega er það ákveðið verk að flokka þessi framboð og finna út hvar þau eru á hinum pólítíska ási. Stjórnmálfræðingurinn Eiríkur Bergmann bendir á að ekki sé mikið verið að lofa skattalækkunum:

Það ótrúlega er samt, að af öllum þessum fjölda framboða virðist enginn leggja mikla áherlslu á að lækka útsvarið. Allir virðast nokkurn vegin sammála um hlutfall samneyslunnar, að útsvarið í Reykjavík eigi að vera í toppi laganna. Það þrengir svo aftur umræðuna og takmarkar valmöguleika kjósenda í því sem við fyrstu sín virðist fjölbreytt flóra.

 En við getum prófað að raða framboðunum frá vinstri til hægri – kannski í dálitlu ábyrgðarleysi. Það er sjálfsagt hægt að raða þessu öðruvísi upp. Skipulagsmálin, sem eru eitt aðalefni kosninganna, lúta ekki hægri eða vinstri lögmálum.
Alþýðufylkingin
Sósíalistaflokkurinn
Vinstri græn
Samfylkingin
Kvennaframboð
Píratar
Framsókn
Flokkur fólksins
Viðreisn
Sjálfstæðisflokkurinn
Höfuðborgarlistinn
Karlalistinn
Miðflokkurinn
Borgin okkar, Reykjavík
Íslenska þjóðfylkingin
Frelsisflokkurinn
Svo er það spurning með framkvæmd kosninganna. Það er gríðarlegur fjöldi sem er í framboði. Andrés Magnússon veltir því fyrir sér hvernig kjörseðlarnir verði:
Sextán listar verða í framboði í Reykjavík undir lok mánaðarins. Það er tvöfalt fleira en síðast, en ennfremur hefur borgarfulltrúum verið fjölgað í 23 og listarnir þurfa því að bjóða fram 46 manns (samtals 736 manns, um 0,7% fólks á kjörskrá). Það verður nú lýðræðisveisla í lagi! — En ég velti fyrir mér praktísku hliðunum. Verði kjörseðillinn með svipuðu sniði og verið hefur, þarf hann að vera um 1,5 m á breidd, en 30 cm á hæð. Auðvitað mætti hugsa sér að hafa listana í tveimur röðum, en þá yrði kjörseðillin samt um 60×75 cm. Gaman að brjóta þá seðla saman. Þetta kann að kalla á breytta kjörklefa með stærri borðum en tíðkast hafa.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt