fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Eyjan

Ítalía siglir með evruna í kreppu, Macron leitar lausna en doði Þjóðverja er vandamálið

Egill Helgason
Fimmtudaginn 31. maí 2018 22:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ný evrukreppa er í uppsiglingu á Ítalíu. Ítalía er eitt skuldugasta ríki heims. Tveir pópúlistaflokkar eru að mynda þar ríkisstjórn, annars vegar Fimm stjörnu hreyfingin sem enginn veit í raun hvað stendur fyrir og er vinsælastur á Suður-Ítalíu og hins vegar Norðurbandalagið sem hefur meðal annars gert út á það að Norður-Ítalía hætti að borga fyrir Suður-Ítalíu.

Þetta viðhorf endurspeglast reyndar norðar í Evrópu; þar eru það Þjóðverjar sem segjast ekki vilja borga fyrir aðrar þjóðir í Evrópu. Breytir engu þótt Þýskaland hagnist stórlega á evrunni – sem þjóðirnar við Miðjarðarhafið gera alls ekki.

Kannski verður þetta ekki svo bráð kreppa. Ítölsk stjórnmál eru fræg fyrir hvað þau eru óskilvirk. Stjórnir lafa í stuttan tíma og koma engu í verk. Flokkarnir tveir hafa uppi stór loforð um að útdeila peningum – það er eitthvað til af þeim vegna þess að efnahagsástandið hefur batnað nokkuð síðustu árin. En svigrúmið er varla mikið.

Forseti Ítaliu, Sergio Mattarella, kom í veg fyrir skipun Paolo Savona sem fjármálaráðherra. Sá er beinlínis á móti evrunni, varaði við henni á sínum tíma. Það sem menn óttast er grískt vandamál en margfaldað vegna þess að Ítalía er eitt stærsta hagkerfið í Evrópu. Með ákvörðun sinni hellti Mattarella forseti olíu á eld og nú eru flokkarnir tveir enn staðráðnari í að vinna saman. Ef boðað verður til kosninga gætu þeir enn bætt við fylgi sitt – sem yrði mjög vandræðalegt fyrir Evrópusambandið.

Kannski reddast þetta. Það virðist líka vera mórallinn í ESB þessi árin. Timothy Garton-Ash skrifar í Guardian og segir að Emmanuel Macron sé eini leiðtoginn í Evrópu sem hafi áræði og einhverja sýn. Macron vill umbætur á evrusvæðinu. Hann vill að Evrópa finni sinn sameiginlega styrk gegn hægriöfgum, loftslagsbreytingum, andspænis Rússlandi, Kína og Trump – á tíma flóttamannastraums og tækni sem erfitt er að koma böndum á. Lykilhugtakið hjá Macron er „evrópskt fullveldi“. Ef Evrópa gái ekki að sér gætu hörmungar verið á næsta leiti – líkt og álfan gekk í gegnum á síðustu öld.

Garton-Ash segir að það sem er að gerast á Ítalíu styrki boðskapinn um breytingar á evrusvæðinu. En hann sé sá eini sem vilji taka af skarið. Í rauninni sé það Þýskaland sem er vandamálið. Þar ríki stjórnmálaleg stöðnun, ótti við að aðrar Evrópuþjóðir ætli að fara að taka peningana af Þjóðverjum – það sé afar ólíklegt að Angela Merkel rísi upp úr doðanum og geri eitthvað í málunum.

Á íslensku er til hugtakið að fljóta sofandi að feigðarósi. Kannski á það við hér?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Ólafur Ragnar tekur sér Eirík Fjalar til fyrirmyndar og telur sig vera höfund þjóðarsáttarinnar

Orðið á götunni: Ólafur Ragnar tekur sér Eirík Fjalar til fyrirmyndar og telur sig vera höfund þjóðarsáttarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Spáglaðir jarðfræðingar

Óttar Guðmundsson skrifar: Spáglaðir jarðfræðingar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir í hljóði og mynd

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir í hljóði og mynd
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Grenjað á gresjunni

Svarthöfði skrifar: Grenjað á gresjunni