fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Írland færist enn í frelsisátt, frá bókstafstrú og þjóðrembu

Egill Helgason
Mánudaginn 28. maí 2018 13:36

Löggjöf mótmælt Nú virðast mótmælin hafa haft sín áhrif.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég kom fyrst til Írlands 1977 var það enn fúndamentalískt kaþólskt ríki. Kirkjan réði öllu sem hún vildi, þjóðin var afar fátæk – það verður að segjast eins og er, hún var á valdi hindurvitna, fáfræði og fordóma. Enda hafði þá verið landflótti frá Írlandi samfellt í meira en 100 ár. Írar ímynduðu sér líka að upphaf og endir stjórnmálanna væri baráttan við Breta, þetta var frekar frumstæð þjóðrembupólitík sem var mögnuð upp baráttusöngvum, en hún skilaði litlu fyrir alþýðu manna og kjör almenings.

Í fyrstu heimsókn minni til Írlands kynntist ég manni sem var sósíaldemókrati. Tók ekki þátt í sjálfstæðisstjórnmálunum og beygði sig ekki undir ok kirkjunnar. Hann leiddi mér fyrir sjónir hvað þetta var allt mikið og skaðlegt rugl. Líka allt það sem var í textunum sem The Dubliners sungu.

Þegar ég var við nám í París um það bil áratug seinna kynntist ég mörgum Írum. Þetta var ungt fólk og mátti telja að það væri margt landflótta. (Joyce og Samuel Beckett flúðu líka írsku þjóðrembuna á sínum tíma.) Sumir piltanna höfðu farið burt vegna þess að þeir voru samkynhneigðir, en stúlkurnar höfðu margar lent í því að verða óléttar utan hjónabands, eignast börnin ellegar þá farið í fóstureyðingar, oftast til Englands. Ákveðin ferja sem gekk frá Dublin til Liverpool var fræg fyrir fjölda barnshafandi stúlkna sem ferðuðust með henni.

Síðar höfum við séð allan hryllinginn sem þreifst kringum írsku kirkjuna, barnaníðið, og svo heimilin þar sem stúkur sem höfðu eignast börn í lausum leik eða gerst sekar um einhvers konar lauslæti – sem þá var talið – voru lokaðar inni, sviptar frelsi og möguleikum á hamingju, og jafnvel lífinu sjálfu.

En Írland fór að breytast. Það gerðist eiginlega frekar óvænt. Nútiminn hélt innreið sína í þetta staðnaða fátæktarbæli. Í því eru tveir stórir áfangar, annars vegar innganga Íra í Evrópusambandið og hins vegar reglur um skattaívilnanir til bandarískra fyrirtækja sem settu upp starfstöðvar á Írlandi. Þetta tvennt leiddi til þess að efnahagur Íra stórbatnaði.

Og það er merkilegt hvað bætt lífskjör geta haft góð áhrif á þjóðmálin og stjórnmálin. Kirkjan fór að missa forréttindastöðu sína í samfélaginu. Írski lýðveldisherinn þótti allt í einu vera púkaleg tímaskekkja. Írland þróaðist hratt í frjálsræðisátt. Mér fannst það tímanna tákn þegar vinur minn frá París, Johnny, flutti aftur í heimabæ sinn Dingle á vesturströnd Írlands. Johnny var samkynhneigður; þetta var í lok síðustu aldar, það höfðu orðið slíkar breytingar að Írland var farið að umbera menn eins og Johnny.

Írland er enn að breytast. Um helgina var þar þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem var samþykkt að afnema bann við fóstureyðingum. Það var sagt að gæti verið spenna í kosningunni, en svo var ekki, yfirgnæfandi meirihluti, 67 prósent, samþykkti að taka skrefið í frjálsræðisátt. Þar með lýkur væntanlega ferðum ungra kvenna til Liverpool og fleiri borga til að fara í fóstureyðingar.

Írland náði á fáum áratugum að verða „venjulegt“ Evrópuríki. Það varð með því að kasta af sér oki trúarkredda og þjóðrembu. En þjóðernisstefna hefur verið í uppsveiflu víða í Evrópu. Sú hugmyndafræði  hafði sitt gildi á nítjándu öld, en á þeirri tuttugustu og fyrstu svarar hún varla einni einustu spurningu sem er aðkallandi fyrir mannkynið.

Og þess vegna veldur Brexit áhyggjum á Írlandi, ef allt í einu þarf að fara að reisa á ný girðingar milli Írska lýðveldisins og Norður-Írlands. Þarf varla að skýra fyrir neinum hvílík afturför það yrði og jafnvel ávísun á að ófriður hefjist að nýju á eyjunni grænu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins