fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Stórkostlegir þættir um afdrif Franklin-leiðangursins

Egill Helgason
Miðvikudaginn 23. maí 2018 20:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

The Terror eru mögnuðustu sjónvarpsþættir sem ég hef séð í langan tíma. Byggja á skáldsögu eftir  Dan Simmons sem aftur byggir á hinum hörmulega heimskautaleiðangri sem var kenndur við breska landkönnuðinn Sir John Franklin. Mér skilst að þættirnir séu mun betri en bókin, en hana hef ég ekki lesið.

Franklin fór á tveimur skipum, Erebus og Terror árið 1845  til að leita norðvesturleiðarinnar svokallaðrar, siglingaleiðar norður fyrir Kanada og Ameríku, frá Atlantshafinu út í Kyrrahafið. Leiðin fannst seinna, það var Roald Amundsen sem fyrstur stýrði skipi í gegnum hana, það var Gjöa árið 1906.

Í leiðangri Franklins voru 129 menn, allir týndust. Skipin fundust árin 2014 og 2016, en áður höfðu líkamsleifar einhverra leiðangursmanna fundist. Þeir dóu eftir hryllilega vosbúð og langvinnar þjáningar. Sumir úr lungnabólgu, aðrir úr næringarskorti, ein dánarorsökin kann að hafa verið blýeitrun sem gæti hafa komið úr menguðum niðursuðudósum sem þeir höfðu meðferðis.

Skurðir  á líkum skipverja bentu til þess að undir lokin hefðu þeir leiðst út í mannát.

Terror og Erebus festust í ís sem þiðnaði ekki þótt kæmi sumar og væri bjart allan sólarhringinn. Skipin voru föst í ísnum í meira en tvö ár. Leiðangursmenn urðu að reyna að bjarga sér fótgangandi, en leiðin var svo löng og torfær að möguleikar þeirra á að halda lífi voru engir. Þeir sem lengst þraukuðu virðast hafa lifað til 1848.

Sjónvarpsþættirnir byggja á þessu og nöfn margra leiðangursmanna eru rétt,  en þeir eru samt skáldskapur. Umhverfið, ísinn og svo grjótið þegar þeir komast á fast land, er skelfing eyðilegt. Það er alltaf ógn við sjónrönd – en hún birtist í raun ekki. Maður skilur varla hvernig hægt er að vera í slíku umhverfi án þess að missa vitið.

Þetta er algjört karlasamfélag og goggunarröðin er mjög skýr, milli yfirmanna, sjóliðsforingja, hermanna og óbreyttra háseta. Einn þráðurinn í þáttunum er hvernig þeir sem eru lægst settir gera uppreisn gegn yfirvaldinu. Hún er samt ekkert hetjuleg, ekki frekar en annað í þáttunum – atburðir leiða ósjálfrátt af öðrum atburðum, einatt af illri nauðsyn. Alveg frá fyrstu mínútu er dauðinn yfirvofandi og hver athöfn þvinguð af návist hans. Þetta er allt mjög óskýrt, foringi uppreisnarinnar er ekki einu sinni sá sem við höldum að hann sé, heldur í raun annar maður.

Þetta er ekki heimildafrásögn. Það er ófreskja í myndinni sem eltir skipverjana og grandar þeim. Sumt er á mörkum hryllingsmyndar. Eina kvenpersónan er ínúítakona sem er í andlegum tengslum við skrímslið – það er þá einhvers konar goðmagn norðurslóðanna. Englendingarnir með sína búninga sem henta ekki í þessu umhverfi og klunnalegu siðvenjur eru komnir svo langt að heiman, inn í svo framandi og eyðilegan heim, að þeir eiga í raun enga möguleika á að halda lífi. Eina von þeirra væri í raun láta undan, hætta að streitast á móti, samsamast – við sjáum ekki ófreskjuna tortíma ínúítunum sem þarna halda til í tjöldum sínum og snjóhúsum.

Endirinn er svo jafnóvæntur og hann er fyrirsjáanlegur – eins skrítið og það kann að hljóma. Það er ekki hægt að segja mikið  frá honum án þess að skemma fyrir. Maður situr yfir vök, algjörlega kyrr, og bíður eftir því að eitthvað birtist í henni, komi upp, eða kannski ekki, máski er hann bara að skoða sjálfan sig í þessari holu í ísnum. En þarna er samt einhver smá reisn og von, sátt við umhverfið, ólíkt hinu meiningarlausa brölti bresku heimsvaldasinnanna með sín afkáralegu formfestu, einkennisbúninga og háttstemmdu nafnbætur, herra þetta og herra hitt. Allt það er einskis virði í þessu stóra tómi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt