fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Ný heimildarmynd: Björn Jón vill byggð í Engey og brú yfir Skerjafjörð

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 22. maí 2018 20:00

Björn Jón Bragason og hugmyndateikning Guðjóns Erlendssonar arkitekts að nýrri „hringbraut“ á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og lögfræðingur, varpaði fram forvitnilegum hugmyndum í fyrra í stuttri heimildarmynd um brú yfir Skerjafjörð. Hann hefur nú bætt um betur og gert aðra mynd þar sem hann útfærir hugmyndir sínar enn frekar. Eyjan ræddi stuttlega við Björn Jón um nýju myndina, en myndina má sjá neðst.

„Ég hef verið mjög hlynntur svokallaðri þéttingu byggðar – að meira verði byggt miðsvæðis. Þeir reitir sem hefur verið boðið upp á undir nýbyggingar á þeim slóðum eru litlir og fermetraverð afar hátt. Með brú yfir Skerjafjörð gætu ný fjölmenn íbúðahverfi á Álftanesi orðið í næsta nágrenni við miðbæ Reykjavíkur og við gætum að sama skapi styrkt miðbæinn enn frekar með nýrri byggð í Örfirisey og Engey,“ segir Björn Jón.

Hann hefur verið áberandi fylgismaður Sjálfstæðisflokksins síðustu ár, hann þvertekur þó fyrir að heimildarmyndin sé flokkspólitísk, heimildarmyndin innihaldi pælingar þvert á flokka: „Ég er ekkert starfandi í stjórnmálum lengur og hef umfram allt áhuga á því hvernig gera Reykjavík betri borg. Í því skyni hef ég ráðfært mig við ýmsa sérfræðinga, skipulagsfræðinga, arkitekta, verkfræðinga og aðra fróða menn um skipulag og uppbyggingu borga.“

Hér eru mögulegar landfyllingar við Örfirisey og Engey sýndar með grænum lit.

Sérðu fyrir þér byggð á uppfyllingum?

„Já, milli Akureyjar og Örfiriseyjar er örgrunnt, aðeins 0,8 metrar á háfjöru og landfylling á þeim slóðum gæti náð alla leið út í Akurey. Þar gætum við séð fyrir okkur blandaða byggð og líka nýja höfn. Ég vil að horfum líka á Engey í þessu sambandi. Frá Kirkjusandi eru talsverðar grynningar þangað út og hægt væri að stækka eyjuna mikið með landfyllingum. Gleymum því ekki að búið var í Engey fram til ársins 1950. Þetta er allt gamalt ræktarland, en nýtt hverfi í Engey yrði í næsta nágrenni við miðbæ Reykjavíkur, eins konar „Norðurbær“ Reykjavíkur.

Tölvugerð mynd af útfærslu á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.

Þú ræðir líka um ný mislæg gatnamót í myndinni?

„Já, ég tel brýnt að við bætum tengingar hér inn á nesið þar sem svo gríðarlega mikil fjárfesting liggur í atvinnuhúsnæði. Hér eru sjúkrahúsin, háskólarnir, framhaldsskólarnir flestir, verslunin, þjónustan og stjórnsýslan. Við ættum að reyna að styrkja þessa þjónustu hér miðlægt í stað þess að þenja byggðina út. Ég nefni þrjár einfaldar aðgerðir í þessu sambandi, en það eru gatnamót Háaleitisbrautar og Miklubrautar og Grensásvegar og Miklubrautar og síðan gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, þar sem allt er stíflað síðdegis eins og fólk þekkir. Framkvæmdir við brýr á þessum gatnamótum eru tiltölulegar einfaldar og ódýrar framkvæmdir. Ég nefni ný gatnamót Reykjanesbrautar og Krísuvíkurvegar til samanburðar, en þau kosta 918 milljónir fullgerð. Á sama tíma er rætt um að leggja 70 milljarða í borgarlínu. Ég velti því upp hvort við komumst ekki langt með að leysa umferðarvandann fyrir aðeins brot af þeim fjármunum sem hún á að kosta.“

Tölvugerð mynd Guðjóns Erlendssonar arkitekts að brú yfir Skerjafjörð. Brú á þessum slóðum yrði að langmestu leyti á uppfyllingum og næstum helmingi styttri en Gilsfjarðarbrúin.

En lagning Sundabrautar, er það ekki meira forgangsmál en brú yfir Skerjafjörð?

„Nei, ég held að við ættum að horfa fyrst til þess að ljúka við tengingu yfir Skerjafjörð. Með Sundabraut mun þungamiðja byggðar á höfuðborgarsvæðinu færast enn austar. Ég tel mikilvægt að við styrkjum þá miklu fjárfestingu sem liggur hér miðsvæðis og reisum ný íbúðahverfi nær miðbænum, enda sækist fólk í stórauknum mæli eftir því að búa nærri miðbænum og margir vilja eiga þess kost að vera án bíls. Við eigum að koma til móts við þessi sjónarmið og gera það með raunhæfum aðgerðum eins og ég tel mig sýna fram á í myndinni. En til þess að svo megi verða þarf að hugsa skipulagið þvert á sveitarfélög. Fram til þessa höfum við verið of upptekinn af því að horfa bara á hvert bæjarfélag fyrir sig. Slík rörsýn gengur ekki lengur.“

Meginhugmynd Björns Jóns gengur út á að reisa ný fjölmenn íbúðahverfi norðan og sunnan við miðbæinn.

 

Mikið hefur verið rætt um flugvallarsvæðið sem framtíðarhverfi Reykjavíkur, en Björn Jón segir það lítið í samanburði við Álftanesið.

Komu fleiri að þessari mynd?

„Já, við Elí Úlfarsson flugmaður og Karl West bifvélavirki unnum að þessu í sameiningu, rétt eins og myndinni um Skerjabrautina. Mig langar líka að þakka sérstaklega Bolla Kristinssyni kaupmanni sem hefur komið með feiknamargar áhugaverðar hugmyndir og líka vil ég þakka Guðjóni Erlendssyni arkitekt í Lundúnum sem veitti okkur góðfúslegt leyfi sitt til að nota frábærar teikningar sem hann hefur gert af brúnni yfir Skerjafjörð og ég hvet fólk til að skoða nánar hans útfærslur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn