fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Kúvending í sænskum stjórnmálum í aðdraganda þingkosninganna í haust: Nú verða útlendingamálin rædd

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 21. maí 2018 13:00

Flóttamenn í Svíþjóð

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svíar ganga að kjörborðinu í haust og kjósa til þings. Kosningabaráttan er þegar hafin þó ekki sé það af fullum krafti. Segja má að kúvending hafi átt sér stað að þessu sinni því útlendingamálin verða rædd í kosningabaráttunni en það hafa flestir flokkanna ekki viljað gera fram að þessu. Svíþjóðardemókratarnir hafa sett útlendingamálin á oddinn á undanförnum árum en flokkurinn er mjög gagnrýninn á stefnu Svía í útlendingamálum og vill draga mjög úr straumi flóttamanna og innflytjenda til landsins. Í aðdraganda síðustu þingkosninga lýstu allir hinir stjórnmálaflokkarnir því yfir að þeir myndu ekki starfa með Svíþjóðardemókrötunum að kosningum loknum. Þannig var flokkur sem fékk tæplega 13 prósent atkvæða útilokaður frá öllum áhrifum á sænska þinginu, um þetta gátu hinir flokkarnir sameinast.

Alls 163.000 hælisleitendur komu til Svíþjóðar 2015. Þá var landamærunum lokað þar sem Svíum fannst sem þeir væru að drukkna í flóttamannastraumnum og réðu ekki við að taka við svona miklum fjölda. Í kjölfarið hafa sænsk stjórnvöld lagt áherslu á samstöðu Evrópuríkja í málaflokknum.

Yfirborð sænskra stjórnmála er að jafnaði ansi pent og útlendingamálin og það sem þeim tengist hefur ekki verið til mikillar umræðu. En nú hefur málaflokkurinn brotist upp á yfirborðið, ef svo má segja, og verður væntanlega eitt heitasta kosningamálið. Hingað til hafa sænskir stjórnmálamenn ekki rætt áhrif innflytjenda á sænskt samfélag eða hvernig aðlögun þeirra að sænsku samfélagi hefur tekist eða hvernig hún á að fara fram.

Nýlega mættust leiðtogar stjórnmálaflokkanna í umræðum í Sænska ríkissjónvarpinu (SVT). Í umræðunum spurði Ulf Kristersson, formaður Moderaterne, sem er frjálslyndur íhaldsflokkur, Stefan Löfven, forsætisráðherra og formann jafnaðarmanna, hvort ekki væri rétt að rannsaka þjóðerni meintra gerenda í nauðgunarmálum í Svíþjóð en þeim hefur fjölgað mikið á undanförnum misserum. Löfven var ekki alveg á þeim buxunum en útsendingu þáttarins var varla lokið þegar hann hafði skipt um skoðun og sagði að það gæti verið góð hugmynd að rannsaka hvort tengsl séu á milli mikillar fjölgunar innflytjenda og fjölgunar nauðgunarmála. Í samtali við Expressen sagði Löfven að hann myndi að minnsta kosti ekki koma í veg fyrir að forvarnarráðið Brå myndi rannsaka þetta.

Ekki liðu heldur margar klukkustundir frá því að Löfven sagði þetta þar til Brå skipti einnig um skoðun og sagði að þar á bæ væri nú ætlunin að kortleggja hvaðan meintir gerendur í nauðgunarmálum koma.

Ulf Kristersson

Algjör kúvending

Hingað til hafa bæði Brå og langflestir stjórnmálamenn vísað í niðurstöður rannsóknar frá 2005 og staðið fast á að það væri ekki þjóðerni fólks sem væri vert að skoða heldur margir aðrir þættir.

Aftonbladet fjallaði nýlega um nauðgunarmál á árunum 2012–2017 þar sem gerendur höfðu náðst. Alls 112 dómar voru teknir til umfjöllunar og var niðurstaða blaðsins að 82 af þeim sem höfðu hlotið dóma væru fæddir utan Svíþjóðar. Í kjölfar þessarar umfjöllunar hefur þrýstingur á frekari rannsóknir á málaflokknum farið vaxandi.

Stina Holmberg, rannsóknarstjóri hjá Brå, sagði í samtali við SVT að þar á bæ væri verið að íhuga hvort rannsaka eigi hlutfall útlendinga í heildartölunum og hvort hlutfall þeirra hafi aukist eða dregist saman frá 2005.

Innflytjendamál í heild voru einnig til umræðu í fyrrgreindum umræðuþætti. Dagens Nyheter sagði eftir umræðurnar að þær hafi að miklu leyti snúist um innflytjendamál í stað atvinnumála, velferðarmála, afbrota og refsinga. Það kom einnig skýrt fram í umræðunum að bæði Löfven og Kristersson, sem stefna báðir á forsætisráðherrastólinn að kosningum loknum, munu eiga erfitt með að fá stuðning í baklöndum sínum við hertar reglur.

Áður en umræðurnar fóru fram kynntu Svíþjóðardemókratarnir hugmyndir sínar um stefnuna í innflytjendamálum. Þeir lögðu þar áherslu á að tekið yrði á móti færri flóttamönnum og að fleiri móttökumiðstöðvar verði settar á laggirnar. Þá verði þeim vísað úr landi sem fá höfnun við hælisumsóknum.

Stefan Löfvén forsætisráðherra

Svíþjóðardemókratarnir þóttu standa sig best

Að umræðunum loknum kannaði SVT hug áhorfenda um hver leiðtoganna hafi staðið sig best. Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, var þar efstur á blaði. 30 prósent aðspurðra sögðu að hann hefði staðið sig best þegar rætt var um „lög og reglur“ og „innflytjendamál“. Þegar fólk var spurt af hverju því þótti hann hafa staðið sig best var svarið að hann „hefði sagt sannleikann“.

Kristersson þótti hafa staðið sig best í umræðum um „atvinnu og velferð“ en Stefan Löfven, sitjandi forsætisráðherra, þótti hafa staðið sig verst í mörgum málaflokkum að mati áhorfenda.

Mats Knutson, stjórnmálaskýrandi SVT, segir að hugsanlega megi skýra góða útkomu Åkesson með að Svíþjóðardemókratarnir séu í einstakri stöðu í sænskum stjórnmálum. Aðrir flokkar hafi ekki viljað starfa með þeim og því hafi flokkurinn aldrei þurft að fara málamiðlunarleið og geti því gagnrýnt hina flokkana án þess að þeir geti kallað hann til ábyrgðar.

Hann vill þó heldur ekki útiloka að Åkesson hafi einfaldlega verið á heimavelli í umræðunni um útlendingamálin sem hafi verið helsta mál Svíþjóðardemókrata.

Svíþjóð er síðasta vígi jafnaðarmanna á Norðurlöndunum. Flokkurinn hefur aldrei fengið minna en 30 prósent atkvæða í kosningum og nokkrum sinnum fengið hreinan meirihluta. Skoðanakannanir benda til að nú geti orðið breyting á og að flokkurinn geti fengið minna en 30 prósent atkvæða í september.

Kannanir benda til að Moderaterne haldi nokkurn veginn sama fylgi og í síðustu kosningum. Sömu kannanir benda til að Svíþjóðardemókratarnir auki enn fylgi sitt og fái um 18 prósent atkvæða og bæti þá við sig um 5,5 prósentustigum frá síðustu kosningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki