fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Reykjavíkurborg og einelti

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 26. apríl 2018 21:56

Kolbrún Baldursdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Baldursdóttir ritar:

Eineltismál hafa verið mér hjartans mál í mörg ár. Einelti er eitt af því sem ég sem sálfræðingur, móðir og amma tel að við getum upprætt. Í það minnsta er hægt að gera ótal margt til að draga verulega úr einelti bæði í skólum, íþróttum og á vinnustöðum. Komi kvörtun um einelti þarf að taka á málinu strax og vinna í því með faglegum hætti. Öll viljum við eyða þessum vágesti en orð duga skammt ef verkfæri eru ekki til staðar eða fagmennska fyrir hendi. Flokkur fólksins vill útrýma einelti með öllum mögulegum ráðum svo sem með því að sinna forvörnum vel. Við höfum ekkert þol gagnvart einelti eða annarri óæskilegri hegðun hvorki meðal barna né fullorðinna. Baráttan gegn einelti er eins og bolti sem halda þarf stöðugt á lofti. Reykjavíkurborg er yfirvald skóla, tómstunda, íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Stefna borgarinnar og framkvæmd hennar í eineltismálum skiptir sköpum þegar kemur að því að útrýma einelti. Staðreynd er að börn verða fyrir einelti í skólum og starfsmenn borgarinnar verða fyrir einelti á vinnustað sínum. Þau mál sem hafa komið inn á mitt borð undanfarna mánuði og ár staðfesta að það er enn óravegur í land. Þekking á einelti og afleiðingum þess meðal fullorðinna er góð en þegar kemur að fyrirbyggjandi þáttum meðal barna og faglegri úrvinnslu mála er víða pottur brotinn ekki hvað síst á vinnustöðum borgarinnar. Fólk sem verður fyrir einelti eða annarri óæskilegri hegðun er margt hvert duglegt að tilkynna málið enda sífellt verið að hvetja það til þess. En í allt of mörgum tilfellum sér fólk mikið eftir að hafa einmitt gert það. Ástæðan er sú að vinnslan sem tekur við er hvorki fagleg né réttlát. Þá er ekki verið að tala um hvort niðurstaða málanna hafi orðið tilkynnanda í vil eða ekki. Á því er vissulega allur gangur.

Kvörtunarmál sem hér um ræðir hafa ýmist verið unnin á vinnustaðnum sjálfum eða hjá sjálfstætt starfandi aðilum sem keyptir hafa verið til verksins. Kjósi borgin að leita til sjálfstætt starfandi fagaðila til að rannsaka og meta eineltiskvörtun þýðir það ekki að borgaryfirvöld séu ekki lengur ábyrgðaraðili á að unnið sé í málinu með faglegum og réttlátum hætti. Ábyrgðin er ávallt borgarinnar sé um borgarstofnun að ræða. Í eineltismálum og úrvinnslu þeirra leggur Flokkur fólksins áherslu á eftirfarandi: Enginn getur ákveðið upplifun annarra. Hvernig svo sem mál kann að líta út í byrjun skal vinna út frá einni grunnhugmyndafræði og hún er að taka allar kvartanir til skoðunar með opnum huga, af hlutleysi og kanna réttmæti þeirra. Að sá sem telur á sér brotið og sá sem kvartað er yfir sé sýnd virðing. Ferlið á að vinna í samráði við þann sem tilkynnir og sá sem kvartað er yfir á rétt á að fá nákvæma lýsingu á yfir hverju verið er að kvarta. Leikreglur skulu vera sanngjarnar og jafnræðis gætt gagnvart báðum aðilum.

Virða á persónuverndarlög og skal ferlið vera opið og gegnsætt. Þetta þurfa allir þeir sem rætt er við í tengslum við málið að vera upplýstir um fyrirfram. Þeir hinir sömu eiga að fá tækifæri til að lesa yfir það sem hafa á eftir þeim í álitsgerð um málið. Gegnsæi, einlægni og heiðarleiki í vinnubrögðum skipta mestu fyrir aðila málsins. Eineltismál eru tilfinningalega erfið og oft átakanleg. Flokkur fólksins vill leggja allt sitt af mörkum til að forvarnir séu fullnægjandi í öllum stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar.

Sem oddviti Flokks fólksins til sveitarstjórnakosninga í Reykjavík í vor er mér mikið í mun að þessi mál komist í fullnægjandi farveg á öllum stöðum sem borgin er ábyrg fyrir. Við viljum styrkja þjónustumiðstöðvar til að fjölga sálfræðingum svo þeir geti verið til taks í skólum og starfað við hlið kennara í forvarnarvinnu sem og í vinnslu mála sem upp kunna að koma. Við viljum sjá yfirmenn á starfsstöðvum borgarinnar axla ábyrgð á þessum málum og ræða ítrekað og af alvöru við starfsfólk um að samskipti, samskiptareglur og einelti sé ekki liðið á vinnustaðnum. Komi kvörtun viljum við sjá að hún sé tekin alvarlega og faglegt og hlutlaust úrvinnsluferli fari umsvifalaust af stað. Borgarfulltrúar, allir sem einn, eiga að láta sig þessi mál varða og láta til sín taka með öllum mögulegum leiðum. Við munum sannarlega gera það fáum við tækifæri til.

Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti á lista Flokks fólksins í Reykjavík.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn