fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Sakar VG og forsætisráðherra um að vera tvöföld í roðinu: „Tala fyrir einni stefnu í útlöndum en hafa aðra til heimabrúks“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 18. apríl 2018 09:26

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar,fjallar um vandræðagang VG vegna stuðningsyfirlýsingar NATO við árásum Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á Sýrland, í grein í Morgunblaðinu í dag. Hún segir að verðmiðinn fyrir forsætisráðherrastóli Katrínar Jakobsdóttur hafi meðal annars verið að lúffa fyrir þjóðaröryggisstefnunni:

„Þegar ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna (VG) tók við völdum var ljóst að verðmiðinn fyrir forsætisráðherrastólinn handa VG við borðsendann var m.a. stuðningur við þjóðaröryggisstefnuna sem samþykkt var á Alþingi af öllum nema VG. Í þeirri stefnu segir m.a. að Nató verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.“

Hún segir það veikleikamerki í utanríkisstefnu Íslands þegar forsætisráðherra talar fyrir einni utanríkisstefnu heima við, en annarri í útlöndum:

„Þetta er ekki flókið og þetta er sú stefna sem Vinstri græn undirgengust þegar þau samþykktu stjórnarsáttmálann. Óháð þeirra eigin stefnu. Hugsjónir þeirra flokka sem hafa talað fyrir vestrænni samvinnu líkt og verið hefur á sviði varnar- og öryggismála urðu ofan í ríkisstjórnarsamstarfinu. Blessunarlega. Af hálfu forsætisráðherra kom skýrt fram á fundi utanríkismálanefndar í febrúar að þjóðaröryggisstefnunni yrði fylgt. Hreinlegast er því fyrir Vinstri græn, ráðherra þeirra og þingmenn að viðurkenna þetta án málalenginga og hætta að tala fyrir einni stefnu í útlöndum en hafa aðra til heimabrúks.“

Þá segir Þorgerður að túlkun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á utanríkiskafla stjórnarsáttmálans sýni ákveðin veikleikamerki og spyr hvort ríkisstjórnin sé í raun minnihlutastjórn, í ljósi misvísandi yfirlýsinga ráðherra og efasemda þingmanna VG:

„Þetta mál er fyrsti alvöru prófsteinninn á utanríkiskafla stjórnarsáttmálans og sýnir því miður ákveðin veikleikamerki við túlkun utanríkisstefnunnar. Meiri en vænta mátti þegar efni stjórnarsáttmálans var kynnt og ljóst var að utanríkismálin kæmu í hlut Sjálfstæðisflokksins. Á fyrstu tveimur sólarhringum eftir árásina var mjög á reiki innan ríkisstjórnarinnar hvað átt var við og hvort Ísland hefði síðan með afdráttarlausri yfirlýsingu Nató stutt árásina. Hér reyndi í fyrsta sinn á þá staðreynd að VG hefur gefið eftir stefnu sína gagnvart vestrænu varnarsamstarfi meðan þau starfa í ríkisstjórninni. Ráðherrar töluðu þó á skjön og yfirlýsingar nokkurra þingmanna VG gefa tilefni til að spyrja hvort ríkisstjórnin sé í raun minnihlutastjórn þegar kemur að varnar- og öryggismálum. […] Í ljósi misvísandi yfirlýsinga ráðherra en ekki síður vegna efasemda þingmanna Vinstri grænna má spyrja hvort ríkisstjórnin sé í raun minnihlutastjórn þegar kemur að stefnu í varnar- og öryggismálum Íslands. Það er því tvennt í stöðunni fyrir ráðherra Vinstri grænna, annaðhvort að horfast í augu við þá staðreynd að engin breyting er á aðild Íslands að Nató og stefnu í öryggismálum eða viðurkenna að ríkistjórnin þurfi í þessum efnum að leita stuðnings annarra flokka. Afneitun í þessum efnum er engum hjálpleg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt