fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Pétur Gunnarsson – minningarorð

Egill Helgason
Mánudaginn 3. desember 2018 10:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þetta er gömul mynd af vinum á Ásvallagötu. Pétur er til vinstri, Kiddi til hægri. Ég var á 13, Kiddi á 15 og Pétur heimsótti afa sinn og ömmu á 17. Myndin er framkölluð í janúar 1968 eins og sjá má – þá væntanlega tekin um jólin 1967. Við vorum illa haldnir af bítlaæði. Þetta er árið sem Sgt. Peppers kom út, en við vorum aðallega með 45 snúninga plötur. Þetta er tekið á Kodak Instamatic með flasskubbi, ég var nýbúinn að eignast myndavélina. Myndgæðin eru ekki frábær – það var heldur ekki mikið tekið af myndum á þessum árum.

Kiddi, Kristinn Guðni Torfason, flutti til Ameríku með fjölskyldu sinni þegar hann var 13 ára og býr þar enn, Pétur bjó í Hlíðunum og lést 23. nóvember. Þegar ég frétti andlát hans fór ég og náði í gamla albúmið mitt, með sínum tætingslegu minningum, og skoðaði það lengi.

Pétur Gunnarsson er einhver mikilsverðasti maður sem ég hef kynnst. Hann var skarpgreindur, afar fróður og réttsýn. Hann hafði þann eiginleika að skoða mál á gagnrýninn hátt, taka ekki hlutunum eins og gefnum – og hann gat skipt um skoðun. Í samfélagi nútímans eru þetta feikilega mikilvægir eiginleikar.

Oft þegar ég hef skrifað eitthvað í gegnum tíðna, jafnvel sett fram eitthvað sem ég er ekkert sérstaklega viss um, þá hef ég hugsað – hvað ætli Pétri finnist um þetta? Einhvern veginn hefur mér fundist læk frá honum mikilvægara en frá öðrum.

Okkar leiðir í blaðamennsku lágu ekki mikið saman, nema fremur stuttan  tíma þegar hann ritstýrði vefmiðlinum Eyjunni.  Hann var afturða blaðamaður. Ég hef stundum sagt að í heimi þar sem ríkir fullkomið réttlæti væri Pétur ritstjóri á stórblaði.

Pétur verður borinn til grafar í dag. Hann var mikill fjölskyldumaður og átti láni því fagna að strax í gaggó kynntist hann eiginkonu sinni, Önnu Margréti Ólafsdóttur. Barnalán þeirra er mikið. Hún fylgdi honum síðustu misserin, eftir því sem veikindin ágerðust, með mikilli reisn. Ég hef dáðst að því. Önnu votta ég samúð mína sérstaklega – og móður Péturs,  Ragnheiði Ástu Pétursdóttur. Og auðvitað fjölskyldunni hans allri.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt