fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Lofgjörð um íslenska framleiðsluhætti

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 17. desember 2018 08:37

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Ég tók mér tíma um daginn til að sjá kvikmynd Benedikts Erlignssonar „Kona fer í stríð“. Þessi mynd hefur verðskuldað hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar hér heima og erlendis. Hún er vel gerð og fagmannlega. Mér fannst framvindan í sögunni ganga vel upp og handritið ágætlega skrifað. Frammistaða leikaranna var að mínum dómi mjög góð. Benedikt hefur áður sýnt sig í að vera góður kvikmyndagerðarmaður og engum sem horfir á þessa kvikmynd ætti að þurfa að leiðast. Það sem fær mig til að setjast niður og skrifa nokkur orð um þetta verk eru þær röngu ályktanir sem áhorfendur virðast flestir draga um boðskap hennar.

Afkvæmi velferðar

Flest okkar skilja vel að okkur, jafnt efnuðum sem öðrum, sem minna hafa úr að spila, farnast betur í lífinu ef þjóð okkar tekst að virkja þá möguleika, sem land okkar hefur upp á að bjóða, til að bæta efnahag og auka velsæld í landinu. Við viljum flest geta aflað okkur mannsæmandi tekna, búið í góðu og þrifalegu húsnæði, haft nóg að bíta og brenna fyrir okkur sjálf og ástvini okkar og átt kost á góðri heilbrigðisþjónustu, þegar á þarf að halda. Við viljum jafnvel flest eiga bifreið til að geta farið milli staða, til dæmis í þegar við förum í hugljúft sumarleyfi innanlands með fólkinu okkar.

Líklega má telja, svona þegar á heildina er litið, að okkur hafi tekist bara nokkuð vel upp. Í okkar litla landi hefur okkur tekist að skapa lífshætti sem við gjarnan kennum við velferð á ýmsum sviðum. Við erum talin í hópi þeirra þjóða sem hafa það hvað best í heiminum.

Hvernig ætli þetta hafi komið til? Ætli það geti verið vegna þess að okkur hafi tekist að hagnýta kostina sem land okkar hefur upp á að bjóða sjálfum okkur til aukinnar velferðar? Við erum kannski ekki beint að hugsa um þetta þegar við „stöndum upp og sturtum niður“ í sérhönnuðum rýmum á heimilum okkar. Þetta finnst okkur allt svo sjálfsagt. Við erum afkvæmi velferðarinnar.

Afreksverk

Í kvikmynd Benedikts Erlingssonar er fjallað um athafnir sem við íslendingar getum talið til mikilla og arðvænlegra afreksverka okkar og sem eru til þess fallin að bæta hag landsmanna. Okkur hefur með náttúruvænum hætti tekist að virkja orku fallvatna, m.a. í þágu öflugra atvinnufyrirtækja í landinu. Spjótum myndarinnar er einkum beint að álveri sem hér er starfrækt. Ætli þeim sem að myndinni standa sé ami af áli? Ég er viss um að þeir, eins og líklega flestir landsmenn, hagnýta sér daglega varning sem framleiddur er úr þessum málmi. Ef hann væri ekki framleiddur með vistvænni orku hér á landi myndi bara að sama skapi aukast framleiðslan á honum erlendis, þar sem orkan til þess yrði fengin úr olíu eða kolum í stað vatnsfalla okkar. Myndin felur þannig í sér eins konar lofgjörð um þessa framleiðsluhætti hérlendis.

Það eykur svo enn á þunga boðskaparins í þessari kvikmynd að aðalpersóna myndarinnar þarf að ferðast til Úkraínu í því skyni að ættleiða barn þaðan. Sýndar eru myndir frá því stríðshrjáða landi sem birta annars konar umhverfi en við þekkjum hér á landi og myndin sýnir reyndar einnig. Ekki veit ég hvort þeir í Úkraínu framleiða ál, en geri þeir það er það áreiðanlega gert með annars konar orku en þeirri hreinu sem við notum.

Svo við eigum bara að þakka aðstandendum þessarar kvikmyndar fyrir að hafa opnað augu okkar betur en áður fyrir hinum miklu kostum lands okkar á þessu sviði, sem svo mörgum öðrum. Takk fyrir mig.

Jón Steinar Gunnlaugsson er lögmaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins