fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Gunnar Smári: „Kannski hefur Sigmundur rétt fyrir sér en allir aðrir rangt“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 17. desember 2018 11:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greinin sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins birti um helgina, hefur vakið ýmiskonar viðbrögð fólks. Sumum finnst sem höfundur greinarinnar hafi teygt sig fulllangt í líkingarmálinu og gert lítið úr alvarleika samtalsins á Klaustri bar, meðan aðrir eru algerlega sammála inntakinu og segja landsmenn fulla hræsni.

Í stuttu máli fjallar greinin, sem heitir „Er sama hver er?“ um hvernig tekið hefði verið á Klaustursmálinu ef um hefði verið að ræða þingmenn frá Samfylkingunni og Vinstri grænum. Greinin er síðan myndskreytt með réttlætisgyðjunni, Þemis.

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, flokkast í fyrrnefnda hópinn. Hann virðist beita fyrir sér góðum skammti af kaldhæðni í færslu sinni um greinina hjá Sigmundi:

„Ég spái að í framtíðinni verði stofnað til þverfaglegra stofnana við virta háskóla víða um heim sem munu fást við málsvörn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Og margar ritgerðir í allskonar fræðigreinum verða skrifaðar um þessa grein; afbrotafræði, stjórnmálafræði, sálfræði, lögfræði, kynjafræði, erfðafræði … allskonar. Þótt Sigmundur hafi ekki náð að verða doktor mun allskonar fólk verða doktorar í Sigmundi.“

Gunnar Smári blandar síðan O.J. Simpson inn í málið einnig:

„En kannski mun þetta ekki þykja rannsóknarefni; kannski hefur Sigmundur rétt fyrir sér en allir aðrir rangt. Kannski mun þessi Sigmundarvörn verða alþekkt og viðurkennt: Hvað ef þetta hefðu ekki verið ég heldur einhver annar? Verjendur O.J. Simpson stigu aðeins inn í þessa vörn, en aðeins með öðrum fæti; Hvað ef O.J. hefði verið hvítt frægðarmenni og hvað ef Nicole hefði ekki verið hvít heldur afríkönsk amerísk? Hefði O.J. þá ekki fengið aðra meðferð hjá lögreglu og saksóknara?“

Að lokum setur Gunnar Smári upp lítinn einþáttung þar sem hann beitir „Sigmundarvörninni“ í ímynduðum rökræðum við konuna sína:

„Alda Lóa: Borðaðir þú konfektið sem ég keypti fyrir jólin?
Smári: Ha? Ég?
Alda Lóa: Já, þú.
Smári: Segjum sem svo að þú hefðir borðað konfektið, værirðu þá að gera svona veður út af þessu?
Alda Lóa: Ég? Ég borðaði ekkert konfekt
Smári: Sko, strax fyrirgefið, engin læti
Alda Lóa: En ég borðaði ekki konfektið
Smári: Er bara ekki hægt að ímynda sér það, er algjörlega búið að skipta fólki niður í seka og saklausa?
Alda Lóa: Um hvað ertu að tala?
Smári: Um hvað er þú að tala?
Alda Lóa: Borðaðir þú konfektið sem ég keypti fyrir jólin?
Smári: Segjum að Mandla hefði gert það, myndir þú ganga svona að henni?
Alda Lóa: Hundinum okkar? Mandla dó fyrir tíu árum
Smári: Ja, ég er bara að taka dæmi. Til að draga fram hvað það er ólíkt hvernig þú bregst við
Alda Lóa: Ég er bara að spyrja þig hvort þú hafir borðað konfektið
Smári: Mundirðu spyrja Möndlu, ef hún hefði borðað konfektið?
Alda Lóa: Möndlu? Hún er dáin. Og hún var hundur
Smári: En ef þú kynnir hundamál?
Alda Lóa: Hvað er að þér? Geturðu ekki bara svarað spurningunni?
Smári: Einmitt, strax byrjuð að halda því fram að það sé eitthvað að mér. Mundirðu spyrja Möndlu að því? Hvort hún væri eitthvað rugluð?
Alda Lóa: Hættu að tala um Möndlu
Smári: Já, einmitt. Það er bara ég sem er sekur
Alda Lóa: Góður guð, ætlarðu ekki að svara mér
Smári: Af hverju spyrðu bara mig?
Alda Lóa: Vegna þess að þú varst einn heima þegar konfektið hvarf
Smári: Það er ekki eins og ég sé eini maðurinn sem var einn heima. Það er fullt af fólki sem er eitt heima út um allan heim. Jafnvel um jólin. Viltu ekki spyrja það?
Alda Lóa: Þú varst eini maðurinn sem varst einn heima hjá okkur, hjá konfektinu
Smári: Er það nú allt í einu orðið glæpur, að vera einn heim hjá konfekti?

Og svo áfram endalaust“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega