fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Glámskyggni umræðunnar

Auður Ösp
Sunnudaginn 16. desember 2018 15:39

Ólafur Hannesson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Hannesson skrifar:

Ég er gleraugnaglámur, er að vísu margt annað en þetta var ég oft kallaður í grunnskóla og þótti mér það ekkert sérstaklega gaman þá. Ég tók það oft inn á mig en svo þroskast maður og ég finn ekkert fyrir svona í dag, hvort sem einhver setur út á gleraugun eða annað í mínu fari. Fólk má hafa sína skoðun án þess að það trufli mig eitthvað. Ég er ekki allra, það eru ekki allir fyrir mig og það er í fínu lagi.

Fyrir skömmu ákvað ég að skrifa blaðagrein um Klaustursmálið svokallaða vegna þess að mér hreinlega blöskraði hversu gróf umræðan var og hvað fólk leyfði sér að segja. Greinin fjallaði að hluta til um hræsnina í þeim sem gagnrýna þingmennina með sambærilegu orðfæri og það bölsótast yfir í samtali sexmenninganna. DV ákvað að birta bróðurpart greinarinnar sem hafði áður birst í Morgunblaðinu, sem er í góðu lagi enda vísað í heimildir, ég hefði þó fremur kosið að greinin hefði birst í heild sinni.

Það er full ástæða til að þakka DV fyrir umrædda birtingu, viðbrögð margra lesenda við henni varpa skæru ljósi á efni greinarinnar. Í athugasemdum sem birtust undir „fréttinni“ kennir ýmissa grasa og athygli vekur hve margar neikvæðar athugasemdir fjalla um myndina af höfundi greinarinnar. Myndin sem ritstjórnin gróf upp er um tíu ára gömul, en það sem fór fyrir brjóstið á háttvirtum réttlætisriddurum athugasemdakerfisins var hversu ljót gleraugun mín voru á þeim tíma – ég vona bara að núverandi gleraugu mín nái að þræða hið þrönga nálarauga þessara augljóslega smekkvísu aðila.

Nú er það svo að ég er verulega nærsýnn, er með um mínus 24 á báðum augum. Af þessu leiðir að gleraugun mín verða verulega þykk fyrir vikið. Það þýðir að ég bý við takmarkað úrval af umgjörðum sem ráða við slíka þykkt. Raunar er nærsýni mín slík að um fötlun er að ræða, án gleraugna sé ég ekkert, þau eru mér nauðsynlegt hjálpartæki í lífinu.

Í raun var það kostuleg lesning að fara í gegnum þessar athugasemdir, þar sem fólk fór háðuglegum og stundum meinfýsnum orðum um útlit og bakgrunn höfundar án þess að fjalla um málefnið og rökin sem færð voru fyrir þeim – nokkuð sem að klaustursþingmennirnir hafa einmitt verið gagnrýndir fyrir. En verði þeim að góðu, það er mér að meinlausu að gert sé grín af hjálpartækjum mínum. Ég get einnig upplýst þá um að ég þarf að notast við heyrnartæki í daglegu lífi, séu þeir að leita að frekari skotfærum í frethólka sína. Hegðun þeirra og orð fella einungis dóma um hvernig mann þau sjálf hafa að geyma en ekki þá sem verða fyrir aðkasti þeirra.

Ég hef fullan skilning á því hvernig þetta fólk talar í athugasemdakerfunum, það er á engan hátt réttlætanlegt en ég skil það hvernig þau gleyma sér rétt eins og klaustursþingmennirnir gerðu, liðið í athugasemdunum kaus meira að segja að gera þetta í opinberri umræðu. Það er að minnsta kosti ljóst að ekki lásu þau greinina sem ég skrifaði, þau hafa lesið fyrirsögn DV og þar með var dómurinn kominn. En það veitir mér né öðrum ekki rétt á því að níða þau sérstaklega sem einstaklinga. Ég vorkenni þeim frekar og vona að þau læri með tíð og tíma að sjá heildarmyndin. Ég er kannski nærsýnn en þau virðast vera blind á eigin hræsni.

Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að svara þessum einstaklingum en það er orðið umhugsunarvert hvernig fólk leyfir sér sífellt að hjóla í eitthvað allt annað en rökin sem lögð eru fram. Þar hygg ég að margir fleiri en klaustursþingmennirnir þurfi að hugsa sinn gang. Þetta er löstur sem lengi hefur fylgt íslenskri umræðu en svo virðist sem hann fari versnandi með hverju árinu sem líður. Skoðanakúgunin sem birtist í athugasemdakerfunum er rosaleg og smánunin sem þar er reynt að viðhafa gagnvart þeim sem hafa ekki skoðanir sem þóknast þeim sem fara með „sannleikann“ í umræðunni er hættuleg. Að höggva sífellt í manninn án stað þess að skoða hvaða rök hann ber á borð er merki um þjóðmálaumræðu sem leiðir í öngstræti. Það táknar yfirleitt að fólk sé rökþrota og það dæmir sig sjálft með atganginum. Þar breytir engu hvort að fólk réttlæti ósómann með því að rætt sé um klaustursþingmenn eða aðra þá sem þeir telja að sýna beri vandlætingu.

Loks vil ég geta þess að ég tek þessum athugasemdum um gleraugun mín ekki sem árás eða grín á kostnað þess fjölda samborgara mína sem þurfa að nota gleraugu eða öðrum þeim sem glíma við fötlun. Ég hef ekki, frekar en aðrir, rétt til að móðgast fyrir hönd heilla þjóðfélagshópa! Ég tek þessum athugasemdum fremur sem hvatningu til að halda áfram að skrifa um þjóðfélagsmál, að þörf sé á að minni rödd og þeirra sem tala af hófsemd, umræðunni til góðs.

Ég vil að lokum óska ykkur gleðilegra Jóla og farsældar á komandi ári. Ég vona að okkur hljótist öllum sú gæfa að geta notið málefnalegrar umræðu á komandi ári og reynum kannski að þroskast og vera aðeins betri hvert við annað, þrátt fyrir að sumir taki hliðarspor.

Ólafur Hannesson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki