fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Prestar á Íslandi ætla ekki að sætta sig við engar launahækkanir – Með rúmar 800 þúsund krónur í grunnlaun

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 13. desember 2018 11:00

Prestar deila um aukagreiðslur. Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Prestafélag Íslands mótmælir harðlega launafrystingu í hinu svokallaða kjararáðsfrumvarpi sem nú er til skoðunar á Alþingis. Um er að ræða bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að laun presta, prófasta og biskupa skuli ekki taka breytingum fyrr en það er búið að ná samkomulagi við kirkjuna um breytt fyrirkomulag á framlagi ríkisins til þjóðkirkjunnar.

Sjá einnig: Nýtt launafrumvarp í stað kjararáðs – Samið sérstaklega við Þjóðkirkjuna

Prestar hafa lengi harmað hlut sinn sem þegar kemur að launamálum og talað um kyrrstöðu í launum í sínum röðum. Þegar launamál Agnesar M. Sigurðardóttur biskups voru til umræðu í desember 2017 talaði hún um 12 ára kyrrstöðu að undangenginni kjaraskerðingu. Stundin greindi í kjölfarið frá því að laun biskups hefðu hækkað um hálfa milljón á þessu 12 ára tímabili. Miðað við launatöflu kjararáðs frá 1. janúar 2017 eru grunnlaun presta á bilinu 710 þúsund og 810 þúsund, miðast það við fjölda íbúa í prestakalli. Í markmiðalýsingu og greinargerð sem Kristján Björnsson, formaður Prestafélags Íslands, sendi kjararáði 2016 kemur fram að prestar vilja miða laun sín við þingmenn og laun biskups við ráðherra. Myndi það gera rúma 1,2 milljón í laun fyrir presta og allt að 2 milljónir fyrir biskup.

Sjá einnig: Ríkið hefur greitt kirkjunni 42 milljarða á 20 árum fyrir kirkjujarðir

Segir í bréfi til nefndasviðs Alþingis, sem sent var í gær að stjórn Prestafélagsins sætti sig ekki við launafrystingu og „mótmælir harðlega þeim áætlunum að „frysta“ laun biskupa, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar um óskilgreindan tíma,“ eins og segir í bréfinu. Þykir stjórninni eðlilegra að „að þeir embættismenn sem hér um ræðir fái sömu meðferð og þeir aðrir sem undir kjararáð heyrðu og að laun þeirra verði endurskoðuð árlega til hækkunar eins og hjá öðrum.“

Þar sem ekkert liggi fyrir um endurskoðun samninga um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju sé óásættanlegt að setja þetta sem skilyrði fyrir breytingum á launagreiðslum starfsfólks kirkjunnar. „Með þessu er vegið harkalega að þeirri réttarvernd sem núgildandi samningar tryggja,“ segir í bréfi stjórnarinnar, sem krefst þess að ákvæðinu verði breytt án tafar svo embættismenn þjóðkirkjunnar standi jafnfætis öðrum sem áður heyrðu undir kjararáð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt