fbpx
Mánudagur 20.maí 2024
Eyjan

Þórður um bókadóm Brynjars: „Dálítið eins og að skrifa umfjöllun um örbylgjuofn en láta fyrirsögn og niðurlag fjalla um húðkrem“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 10. desember 2018 13:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og höfundur bókarinnar Kaupthinking-Bankinn sem átti sig sjálfur, hefur skrifað gagnrýni á Facebook, um dóm Brynjars Níelssonar á bókinni sem birtist á Viljanum, vef Björns Inga Hrafnssonar.

Þórður Snær skrifar ítarlega færslu á Facebook hvar hann sendir Brynjari og Birni Inga væna sneið:

„Brynjar Níelsson skrifar umfjöllun um nýja bók mína Kaupthinking á vefinn Viljann. Ég vil ekki hlekkja inn á þann vef vegna þess að ég hef efasemdir um að þar sé rekin starfsemi sem grundvallast af heilindum og vilja til þess að upplýsa almenning. Áhugasamir geta þó fundið umfjöllun Brynjars þar kjósi þeir svo.“

Þórður segist ekki gera athugasemdir við skoðanir Brynjars á bók sinni, það sé hans réttur. En hinsvegar segir Þórður að skoðun þeirra Björns og Brynjars á honum og hans miðli, liggi ljós fyrir, þar sem þeir séu báðir til umfjöllunar í bókinni:

„Það kemur mér reyndar ekkert á óvart að Brynjar skrifi svona og að það birtist á vef Björns Inga Hrafnssonar. Skoðun þeirra á mér, þeim miðli sem ég stýri og umfjöllunarefnum okkar liggur nokkuð skýrt fyrir. Báðir eru til umfjöllunar í bókinni í hluta sem fjallar um baráttuna um almenningsálitið þar sem þátttaka þeirra í þeirri baráttu er rakin. Það kemur mér líka lítið á óvart að þeir séu ósáttir við hvernig sú aðkomu kemur út. Þá er það orðið algengt að Brynjar ásaki mig um óheilindi og að sigla undir fölsku flaggi án þess að telja sig þurfa að rökstyðja það. Þannig er hans stíll. Við það nenni ég ekki lengur að elta ólar.“

Umdeilanleg efnistök

Gagnrýnispistill Brynjars á Viljanum ber yfirskriftina „Kaupthinking: Dodda langar að skúbba“. Segir Brynjar að oft sé gott að skrifa bók um efni löngu síðar eftir að atburðirnir gerðust, þar sem flestir séu búnir að gleyma þeim. Hér á landi sé áberandi hversu margir séu vitrir eftir á, og því vitrari sem lengra líður frá atburðum.

Þá segir Brynjar einnig að bók Þórðar sé eins og að lesa 360 blaðsíður af leiðurum Kjarnans í einni beit og að efnistökin séu einföld. Farið sé gagnrýnilaust yfir ákærur og rannsóknargögn ákæruvaldsins og að helstu heimildarmenn séu þeir sem komust hjá ákæru, eða stóðu í málaerlum við bankann:

„Þessir aðilar eru allir taldir trúverðugir á meðan önnur sjónarmið eru einfaldlega afgreidd með því að þar sé um að ræða keypta álitsgjafa og verjendur sem ekki þurfi að eyða frekari orðum að.  Höfundur bókarinnar sá sér hvorki fært að mæta í eitt einasta réttarhald sem fór fram vegna þeirra dómsmála sem bókin fjallar um, né ræða við stjórnendur bankans vegna þeirra mála sem felld voru niður. Slík vinnubrögð þykja eflaust ágæt á Kjarnanum en verða þó seint talin fyrirmynd góðrar blaðamennsku. Þau ganga enn fremur engan veginn í bókaskrifum þegar útkoman á að vera hlutlæg umfjöllun. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar um er að ræða sakamál  þar sem sjónarmið verjenda koma ekki fram í endanlegum dómi. Höfundur hefur takmarkaðan áhuga á að kynna lesendum sjónarmið ákærðu og aðeins er vitnað í framburð þeirra eða sjónarmið í þeim tilgangi að snúa út úr þeim.“

Brynjar dregur einnig í efa að þær nýju upplýsingar sem Þórður ber á borð í bókinni séu eins mikið „skúbb“ og Þórður vildi meina:

„Í kynningum á bókinni lét höfundur í veðri vaka að hann hefði nýjar upplýsingar um eignarhald Bakkavararbræðra á Dekhill Advisors. Þær sögur höfðu að vísu lengi verið alþekktar og við nánari lestur á bókinni kemur í ljós, að þessar „nýju upplýsingar“ höfundar reynast vera skoðun ónafngreindra starfsmanna hjá Skattrannsóknarstjóra. Þetta verður að teljast skúbb aldarinnar. Kaupthinking er ekki gott nafn á bókinni. Nær væri að nefna hana „Málsvörn Sérstaks saksóknara“ eða „Eva Joly:  I told you so“.

Þórður, sem í daglegu tali er kallaður Doddi, segir gagnrýni Brynjars missa marks, þar sem helsta athugarsemd Brynjars sé að bókin fjalli ekki um það sem hún ætti að fjalla um:

„Þ.e. Brynjar, sem er lögfræðingur og þingmaður, vill frekar að bók verði skrifum um hvort „refsiákvæði um umboðssvik og markaðsmisnotkun séu öðruvísi hér en í öðrum vestrænum löndum. Eða hvort við vorum svo óheppin að einu bankamennirnir sem stunduðu stórfelldar blekkingar og svik skyldu allir starfa á Íslandi.“

„Og það er rétt hjá Brynjari að bókin fjallar ekki um þetta. Hún fjallar um þessa sögu út frá frumgögnum, málsgögnum, rannsóknarskýrslum, viðtölum við hlutaðeigandi og svo auðvitað dómum íslenskra dómstóla. Það er umhugsunarefni að þingmaður telji íslenskt réttarríki standa á svo veikum grunni að það ráði ekki við að dæma í málum sem þessum.“

Ekki lesið bókina

Þórður rekur síðan stök umfjöllunarefni bókarinnar, en segir síðan:

„Að öðru leyti er þessi umfjöllun Brynjars dálítið eins og að hann hafi ekki lesið bókina. Hann sveiflast á milli þess að ásaka mig um að hafa ekki látið hluti koma fram sem sannarlega komu fram og því að útskýra ekki hluti sem eru útskýrðir, svona þegar hann er ekki að gagnrýna það að bókin byggi ekki á skoðunum hans sem flestir lögfróðir menn sem ég hef rætt við telja fráleitar.“

Og einnig:

„Í niðurlagi umfjöllunar Brynjars gerir hann svo það sem tuddar sem geta illa teflt fram rökum gera best, hann fer að níða mig persónulega og kallar mig sjálfumglaðan. Ég geri heldur enga athugasemd við það. Brynjari má finnast það sem hann vill um mig. Til þess hefur hann fullt frelsi og það er hans réttur.“

Samsæriskenningar og húðkrem

Yfirskrift gagnrýnispistils Brynjars er tilvísun í átta ára gamla frétt sem Þórður skrifaði um tvo aðstoðarmenn ráðherra „sem ætluðu að reyna að spinna framsetningu á skoðun ríkisstjórnarinnar um það hvort að kaup Magma Energy á HS Orku, sem þá voru í deiglunni, yrðu staðfest eða ekki,“ segir Þórður.

Þórður ber af sér meintar sakir og nefnir að ef Brynjar hefði nennt að lesa fréttina, myndi málið skýrast fyrir honum:

„Þá hafa kappar eins og Brynjar reynt að gera mikið úr því að notast sé við gælunafn mitt í póstinum sem mennirnir sendu sín á milli. Það er nú samt þannig að ansi margir kalla mig „Dodda“. Það gera vinir, fjölskylda og flest allir sem ég hef unnið með í gegnum tíðina. Þar á meðal sá sem sendi póstinn, en við unnum saman um nokkurt skeið áður en að hann hóf stjórnmálaþátttöku. Ég kalla hann líka „Ella“ ef það hjálpar til við að fóðra samsæriskenninguna eitthvað frekar. Ég þekki líka mann sem ég kalla „Gumma“ og annan sem ég kalla „Óla“. Osfr.

Að lokum segir Þórður um gagnrýni Brynjars:

„Brynjar ákveður að skrifa fyrirsögn á umsögn um bók upp úr þessari samsæriskenningu og enda umsögnina á vísun í hana. Hvað honum gengur til með því get ég ekki svarað, enda botna ég ekkert í því. Þetta er dálítið eins og að skrifa umfjöllun um örbylgjuofn en láta fyrirsögn og niðurlag fjalla um húðkrem. En það segir líklega meira um Brynjar en nokkurn tímann mig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Gangi Alþingi fram af þjóðinni skal forseti tafarlaust vísa málinu til þjóðarinnar

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Gangi Alþingi fram af þjóðinni skal forseti tafarlaust vísa málinu til þjóðarinnar