fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Sorgblíð hátíðargleði – 1. desember 1918

Egill Helgason
Sunnudaginn 1. desember 2019 10:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fullveldisdagurinn er merkisdagur í sögu okkar. Við þekkjum hina dramatísku ljósmynd af hátíðarhöldunum 1. desember 1918, það er ekki nema svona hundrað metra frá staðnum þar sem ég sit og skrifa þetta, á blettinum fyrir framan Stjórnarráðshúsið sem áður hafði verið fangelsi en síðar aðsetur stiftamtmans og svo landshöfðingja – það var á tímanum þegar Íslendingar komust næst því að verða danskir.

En þarna blakti hinn nýi íslenski fáni yfir húsinu. Það voru ekki nema fá ár síðan fáninn hafði verði gerður upptækur ef menn reyndu að flagga honum. En dagurinn fær aukinn þunga vegna hinna miklu atburða sem gerðust þetta ára: Veturinn áður hafði verið sá kaldasti í sögunni, hafís umlukti mestallt landið, það geisaði hryllileg heimsstyrjöld sem var nýlokið, Katla byrjaði að gjósa 18. október, bjarminn af gosinu sást fá hæðunum fyrir ofan Reykjavík, það var drepsótt í bænum, fjöldi manns lét lífið, mikið ungt og hraust fólk á besta aldri.

Séra Friðrik Friðriksson var þá einn af þekktustu borgurum Reykjavíkur. Til er lýsing á því að hann hafi veikst en náð sér af pestinni með því að vefja sig inn í mörg lög af teppum, drekka lútsterkt kaffi, mikið af því, og reykja vindla. Kannski er þetta þjóðsaga, en séra Friðrik var kominn á fætur á fullveldisdeginum og setti saman þessa áhrifamiklu lýsingu:

„Enn átti sá sunnudagur upp að renna er aldrei gleymist í sögu landsins, né heldur þeim, er viðstaddir gátu verið hátíðahöld sem þá fóru fram. Það var sunnudagurinn 1. desember. Þann dag átti að fagna því að Ísland yrði yfirlýst fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörk. Það varð mjög einkennilegur dagur. Allt sem hægt var að undirbúa var undirbúið. Stundu fyrir hádegi var mikill mannfjöldi kominn saman fyrir framan Stjórnarráðshúsið, svo þúsundum skipti manngrúinn. Það var skýjað loft. Það var allt fullt af fólki á stjórnarráðsblettinum, í Bankastræti og torginu fyrir framan.

Yfir öllu hvíldi djúp kyrrð og alvara. Margir voru veiklulegir og sorg var í hugum og svipum margra. Það var eins og sorgblíða og hátíð blandaðist saman. Svo gekk fylking af hermönnum frá varðskipinu danska upp miðganginn upp að Stjórnarráðshúsinu. Enginn fáni sást nokkurs staðar veifandi. Stöngin á byggingunni var auð. Ráðherra, Sigurður Eggerz, hélt ræðu og talaði um þenna mikilsverða atburð, og svo hélt yfirmaður varðskipsins, kapteinn Lorch, tölu og kom þar fram sem fulltrúi hans hátignar, konungsins.

Þá byrjaði íslenski þríliti fáninn að stíga upp eftir stönginni, það varð dauðaþögn, það var eins og allir héldu niðri í sér andanum. Um leið og fáninn var að komast að hún opnaðist skýjaþakið og bjart sólskin streymdi niður yfir stöngina og ljómaði á fánann. Þá rann út í fyrir mörgum. Og um leið kváðu við fallbyssuskot frá varðskipinu og mörg hundruð fánar þutu upp á fánastengur víðs vegar um allan bæ og á öllum skipum, er lágu úti á höfninni. Fagnaðarópin risu nú upp, knúð fram af máttugri hrifningu mannfjöldans. En samt sá ég tár renna niður kinnarnar á mörgum hraustum manni.

Ísland var nú viðurkennt það sem það varð árið 1262, og hafði í rauninni verið ávallt síðan, sambandsríki fyrst við Noreg og svo við Danmörk, en um nokkrar aldir hafði þetta gleymst, og orðið í meðvitund heimsins aðeins aukaland undir annarra valdi. Nú kunngjörði hinn viðurkenndi fáni: Sjá, nú tökum vér sæti við hlið hinna annarra ríkja Norðurlanda. —

Biskup Íslands predikaði í Dómkirkjunni út af tekstanum: Jes. 60, 1—2. Og mér fannst yfir guðsþjónustunni hvíla sami blærinn—sorgblíð hátíðargleði—eins og yfir athöfninni við Stjórnarráðshúsið.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt