fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Nærmynd af umdeildasta þingmanni þjóðarinnar: Blíður og góður „bensíntittur“ sem getur aldrei setið kyrr

Ritstjórn DV
Laugardaginn 8. desember 2018 11:00

Gunnar Bragi Sveinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, ákvað í vikunni að taka sér launalaust frí frá Alþingi eftir að Klaustursmálið umdeilda komst í hámæli. Þar sátu sex þingmenn að sumbli og töluðu afar illa um mann og annan, eins og alþjóð veit. En hver er Gunnar Bragi Sveinsson, hvaðan kemur hann og hver verður framtíð hans? Hér er reynt að varpa ljósi á einn umdeildasta þingmann þjóðarinnar.

Gunnar Bragi er fæddur á Sauðárkróki þann 9. júní árið 1968. Hann er alinn upp í Framsóknarflokknum en átti eftir að yfirgefa hann og koma að stofnun Miðflokksins ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Þá er hann frímúrari og einn af uppáhaldsstöðum hans er Benidorm. Foreldrar hans eru Sveinn Margeir Friðvinsson (fæddur 19. september 1938, dáinn 25. júní 2017) og Ingibjörg Gunnhildur Jósafatsdóttir (fædd 13. maí 1940). Fyrrverandi maki Gunnars Braga er Elva Björk Guðmundsdóttir og eignuðust þau synina Svein Rúnar, Inga Sigþór og Róbert Smára. Stjúpsynir Gunnars og synir Elvu Bjarkar eru þeir Arnar Þór Sigurðsson og Frímann Viktor Sigurðsson.

Bensíntittur í framboð

Gunnar Bragi útskrifaðist síðar en til stóð en hann ásamt fjórum öðrum nemendum varð fyrir barðinu á kennaraverkfalli. Gunnar Bragi útskrifaðist því árið 1989. Fljótlega eftir það fór hann að hafa afskipti af pólitík. Aðeins ári síðan birtist stutt frétt í Feyki en þar sagði:

„Þessi „bensíntittur“ á Ábæ, Gunnar Bragi Sveinsson, er orðaður við 3ja eða 4ða sætið á lista framsóknar, sem enn hefur ekki verið birtur. Trúlega verður hann í einna bestu aðstöðunni til að „agitera“ fyrir kosningarnar í vor.“

Gunnar Bragi vann á bensínstöð sem ungur maður við að dæla bensíni. Seinna varð hann verslunarstjóri á staðnum og gekk að sögn vina reksturinn vel, enda Gunnar Bragi hamhleypa til verka.

Ljóst var að Gunnar Bragi stefndi snemma á frama í pólitík en það var þó ekki fyrr en tuttugu árum síðar sem hann settist á þing. Hann lék einnig knattspyrnu og spilaði golf. Gunnar Bragi þótti harður í horn að taka á vellinum en skapið kom honum stundum í vandræði. Í eitt skipti var hann tæklaður illa. Þá snöggreiddist hann og ýtti næsta manni. Það vildi svo óheppilega til að sá sem fékk byltuna var dómarinn sem var snöggur að veifa rauða spjaldinu þegar hann hafði náð jafnvægi á ný. Þá hefur Gunnar Bragi Liverpool í hávegum og tókst honum með mikilli elju að gera öll börn bróður síns að stuðningsmönnum Liverpool þó svo að reynt hafi verið að innræta þeim að halda með Tottenham.

Árið 2013 var birt nærmynd af Gunnari Braga í Ísland í dag. Þar var rætt við fjölskyldu og vini. Sigmundur Davíð var að sjálfsögðu einn viðmælenda.

„Þar sem er fjör og gaman að vera, þar er Gunnar Bragi miðpunkturinn. Það er aldrei þungt yfir mönnum þegar Gunnar Bragi er á svæðinu,“ sagði Sigmundur. Sveinn Rúnar einn af sonum Gunnars Braga sagði föður sinn vera blíðan og góðan mann.

„Hann getur verið með skemmtilega lélegan húmor, aulahúmor,“ sagði Sveinn Rúnar og bætti við: „Hann er mjög þrjóskur. Greiðvikinn og alltaf til í að gera allt fyrir alla. Hann stendur fast á sinni sannfæringu og gefur sig ekki ef hann er sannfærður.“ Þá lýsti annar sonur Gunnars Braga honum sem miklum húmorista sem væri afar stríðinn. Bætti hann við að Gunnar Bragi þyrfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og gæti aldrei setið kyrr. Þá sagði Atli Sveinsson bróðir Gunnars:

„Hann er gríðarlega vinnusamur og getur verið mjög fastur fyrir. Þetta eru kostir ef maður er sammála honum en geta verið ókostir ef maður er ósammála honum. Hann er ráðagóður og gaman að vera með honum.“

Góður leikari

Gunnar Bragi var afar virkur í leikfélaginu á Sauðárkróki en hætti þar í kringum árið 1995. Það var einmitt á sviði sem hann kynntist fyrrverandi konu sinni, Elvu Björk Guðmundsdóttur. Hjá leikfélaginu tók Gunnar þátt í fjölmörgum verkum. Elva Björk sagði:

„Hann er mjög góður leikari. Hann lék alvarleg hlutverk og í försum. Hann fúnkerar rosalega vel í försum. Það er svo mikið aksjón þar. Það var mjög gaman að leika á móti honum. Við kynntumst áramótin 1991-92. Við vorum að leika í leikriti saman, Köttur á heitu blikkþaki. Við lékum þar hjón sem áttu í erfiðleikum í hjónabandi. Þegar við fórum að tala saman var eins og við hefðum þekkst í 40 ár.“

Gunnar fékk oft góða dóma fyrir leik sinn á sviði. Um frammistöðuna í Köttur á heitu blikkþaki sagði gagnrýnandi:

„Eiginmann Margrétar, Brick Pollit, leikur Gunnar Bragi Sveinsson. Persónan krefst hófsemi í túlkun en líka nokkurs hita einkum í öðrum þætti verksins. Gunnar Bragi gerir henni að jafnaði góð skil og nær talsvert vel að flytja áhorfendum mynd þessa sídrykkjumanns, sem er önnum kafinn við það einna helst að svæfa vitund sína og hugsanir.“

Einn af sonum Gunnars sagði um leikhæfileika hans: „Ég hef oft þrýst á hann að taka sér langt frí frá þinginu og prufa að koma aftur í leikfélagið því hann hefur ekki verið í því síðan 1995.“

Blíður og góður en ekki rómantískur

Elva Björk lýsti Gunnari á þann hátt að hann væri ákveðinn og fylginn sér. Það virðist vera samdóma álit þeirra sem þekkja hann. Þá væri hann einnig blíður og góður en standi alltaf fast á sinni sannfæringu.

„Hann er yfirleitt ekki rómantískur. Það eru til sætar hliðar á honum. Þegar það gerist, kemur það mér virkilega á óvart,“ sagði Elva og bætti við að hann gæti rökrætt út í það óendanlega. Þegar fjölskyldan var spurð um galla svaraði Elva:

„Það er rosalega stuttur í honum þráðurinn. Hann er rosalega fljótur upp og getur þá verið hvass. Hann er líka rosalega fljótur niður.“ Sigmundur Davíð sagði: „Mjög fylginn sér og hreinskilinn og hann segir það sem honum finnst eða það sem hann er að hugsa. Hann getur ekki talist undirförull og hann gengur hreint til verks og segir nákvæmlega það sem honum finnst. Stundum finnst fólki það óþægilegt geri ég ráð fyrir.“ Sonur hans bætti við að faðir hans væri með mikið skap.

Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð eru miklir vinir.

Kostir Gunnars Braga og aðrar góðar sögur

Í nærmynd á Stöð 2 kom fram að Gunnar Bragi væri mikið fyrir karókí og tæki þá oft lagið Delæla. Væri hann frægur um allan Skagafjörð fyrir þetta. Þá bætti fyrrverandi kona hans við að Gunnar Bragi hefði eitt sinn prófað permanent og ekki verið svo hrifinn af útkomunni. Þá var Elva Björk beðin um skemmtisögu eða eitt af vandræðalegum augnablikum. „Þegar ég var ólétt af Sveini Rúnari vorum við á flokksþingi,“ byrjaði Elva Björk hlæjandi en þau gistu þá á hóteli. „Ég var svoldið þreytt og fór að sofa svo vakna ég með ókunnguan mann við hliðina á mér. Ég sprett fram úr og opna dyrnar á hótelherberginu og heyri í Gunnari á göngunum og ég þruma: „Gunnar Bragi!“. Þá heyri ég: Ég gleymdi að Elva Björk væri með mér.“

Þá var Gunnari Braga hrósað fyrir dugnað og góða mætingu í þingið og að hann hefði alltaf verið í forystuhlutverki. Einnig var rætt um ókosti starfsins og urðu synir hans þar fyrir svörum. Þótti þeim nokkuð erfitt að brynja sig fyrir neikvæðu umtali um föður sinn.

„Fólk heldur alltaf að hann sé svo mikið fífl, þegar maður sér það á netinu. Maður rekst á eitthvað á netinu en við sjáum hann öðruvísi. Við þekkjum hann persónulega en aðrir þekkja hann bara sem stjórnmálamann. Við vitum hvernig hann er og það er erfitt að sætta sig við þetta,“ sagði einn sona hans. Bætti hann við að ef faðir hans væri ekki á þingi myndi hann líklega snúa aftur í leikhúsið, reka bensínstöð eða stjórna sjónvarpsþætti á borð við Kastljós.

DV birti einnig nærmynd af Gunnari Braga árið 2013 sem skrifuð var af Inga Frey Vilhjálmssyni. Þar sagði:

„Þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var sveitarstjórnarmaður Framsóknarflokksins í Skagafirði var talað um það í sveitinni að hann tæki enga ákvörðun án þess að ráðfæra sig við Þórólf Gíslason kaupfélagsstjóra KS. „Hann kom alltaf með Nýja-Testamentið frá Þórólfi og það á ekki síður við í dag,“ sagði aðili sem þekkir vel til stjórnmálastarfs í Skagafirði. Þetta var áður en Gunnar Bragi settist á þing árið 2009 og utanríkisráðherrann núverandi var oddviti framsóknarmanna í sveitarstjórninni Skagafirði. Árið 2009 söðlaði Gunnar Bragi um og bauð sig fram til Alþingis sem fyrsti þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hin síðari ár hefur þó samband Gunnars Braga við Þórólf og Kaupfélagsmenn súrnað og var ástæðan ekki síst stuðningur Gunnars Braga við viðskiptabann á Rússland sem kom Kaupfélaginu illa.“

Gunnar Bragi Sveinsson og Sunna Gunnars Marteinsdóttir eru í sambúð.

Í áðurnefndri umfjöllun Inga Freys var einnig haft eftir ónefndum heimildarmanni:

„Annar þingmaður segir að gott hafi verið að leita til Gunnars Braga þegar hann var þingflokksformaður og hefur viðkomandi ekkert nema gott um hann að segja: „Ég hef ekkert nema gott af samskiptum við Gunnar Braga að segja: Hann er lipur og viðræðugóður og hjálplegur og sanngjarn myndi ég segja. Svo getur hann verið ágætlega skemmtilegur. Af þeim þingmönnum Framsóknarflokksins sem voru á þingi á síðasta kjörtímabili þá var best að leita til hans með einhver mál eða erindi. Hann er maður sem reynir að leysa hluti.“

Tóku fleiri þingmenn í svipaðan streng. Annar þingmaður sagði: „Það er gott að spjalla við hann og eiga við hann samskipti. Nema að hann er svolítið ör og á það til að rjúka upp út af engu. Oft er það vanhugsað hjá honum; hann mætti stundum telja upp að tíu áður en hann æsir sig.““

Gunnar Bragi er nú í sambúð með Sunnu Gunnars Marteinsdóttur. Hún var aðstoðarmaður hans í utanríkisráðuneytinu þegar Gunnar Bragi var þar við völd og var á þeim tíma í sambúð með barnsföður sínum, Sigurbirni Magnúsi Gunnlaugssyni, yngri bróður Sigmundar Davíðs. Þegar sambúð þeirra lauk tóku Sunna og Gunnar Bragi saman og hófu sambúð.  Eftir að Klaustursmálið komst í hámæli greindi Eiríkur Jónsson og svo Smartland frá því að Sunna væri skráð einhleyp á Facebook og mátt ætla af þeim umfjöllunum að Klaustursmálið hefði sett alvarlegt strik í reikninginn. Fljótlega kom í ljós að Sunna hafði aldrei breytt neinum stillingum og alltaf verið skráð einhleyp þó svo að hún og Gunnar Bragi væru í sambúð.

Þá vakti talsverða athygli að Gunnar Bragi skipaði Sunnu í stjórn Matís rétt áður en hann lét af embætti. Einnig skipaði hann Bergþór Ólason í sömu stjórn, samherja sinn úr Miðflokknum og af Klaustri.

Unglingavinna á Króknum.

Hræðist pillur og þolir ekki óstundvísi

Gunnar Bragi var í viðtali við Skagafjörður.com rétt eftir að hann settist á þing. Hér má lesa brot af því besta

Hvernig nemandi varstu?
Ágætur held ég en félagslífið tók alltaf mikinn tíma.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
Permanentið, skil ekki hvernig mamma gat gert mér það. Enda hef ég verið með gel síðan.

Hvað hræðistu mest?
Pillur, held þetta sé allt plat.

Besta bíómyndin?
A fish called Wanda get alltaf hlegið að henni. Einnig eru myndir Monty Pyton magnaðar.

Uppáhalds málsháttur?
Oft lætur bensínafgreiðslumaður dæluna ganga. Björn Björnsson skellti þessu á mig eftir framboðsræðu.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín?
Grettir, því hann er svo áhyggjulaus.

Gunnar Bragi þykir góður leikari.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?
Fá snilldarverk þar, reyni að vera heima á matartíma og þvælast ekki fyrir í eldhúsinu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?
Stundvísin. Ég er mjög upptekinn af því að vera stundvís. Svo þegar það tekst ekki þá verð ég afar pirraður.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?
Óheilindi og óstundvísi þoli það ekki.

Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati?
Engin ein persóna, en Bill Shankly var magnaður.

Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér?
Veiðistöng, Liverpool treyjuna og rúmið mitt. Ég á alveg ótrúlega gott rúm.

Gunnar Bragi er í tvíburamerkinu. Í stjörnuspá fyrir árið 2018 segir:

„Þetta er svakalegt ár fyrir fólk fætt í tvíburamerkinu. Árið 2017 var frekar litdauft en árið 2018 verður ár dramatískra breytinga á öllum vígvöllum. Tvíburinn tekur að sér ný verkefni, finnur sér ný áhugamál, ætlar að éta heiminn árið 2018. En tvíburi, farðu þér hægt og ekki ana út hitt og þetta einungis til þess að komast út úr viðjum vanans. Vaninn er stundum ágætur, sérstaklega til að finna innri ró.

Það er búið að vera erfitt í ástarsamböndum tvíburans og árið 2018 tekur tvíburinn í langtímasambandi þá ákvörðun að leita á önnur mið, nema hjónabandsráðgjöf beri árangur. Einhleypir tvíburar halda áfram að vera einhleypir, en hitta nokkra spennandi elskhuga sem víkka út sjóndeildarhringinn. Og vittu til kæri tvíburi, þú færð stórkostlegt atvinnutilboð árið 2018 sem þú getur ekki hafnað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“