fbpx
Mánudagur 10.desember 2018
Eyjan

Úr sögu skemmtanahalds – Klúbburinn og stóru vínveitingahúsin

Egill Helgason
Fimmtudaginn 6. desember 2018 22:04

Það spannst dálítið skemmtileg umræða á Facebook út frá mynd sem þar var birt af gamla Klúbbnum í Borgartúni. Rifjaðist upp fyrir mér þessi pistill sem ég skrifaði um Klúbbinn fyrir nokkrum árum. Þetta þótti glæsilegur staður þar til honum fór að hraka – á endanum drabbaðist húsið svoleiðis niður að það var rifið, reyndar hafði þá kviknað í því líka.

En þetta var einkennilegur tími í skemmtanahaldi þegar borgarbúum var hrúgað í stór veitingahús sem oft voru nokkuð langt fyrir utan Miðbæinn. Klúbburinn var einna frægastur, en það má líka nefna Þórscafé, Röðul, Sigtún sem var gríðarlega mikill geymur við Suðurlandsbraut, Hollywood og Broadway. Sum húsin voru svo stór að þau rúmuðu þúsund manns eða jafnvel fleiri. Klúbburinn stóð beinlínis í verksmiðjuhverfi, á myndinni má sjá hvernig umhorfs var í kringum staðinn. Ekki sérlega aðlaðandi.

Í þessum veitingarekstri var gert ráð fyrir að gestir kæmu þangað þegar dró nær miðnætti, þeim væri hleypt inn og þeir væru þar allt fram að lokun sem gat verið klukkan eitt, klukkan tvö og svo þegar frjálsræðið jókst aðeins – klukkan þrjú. Fólk beið í biðröðum eftir að komast inn í sæluna – þegar klukkan var orðin ákveðið margt var hætt að hleypa inn. Tíminn sem var raunveruleg starfsemi inni í þeim var í raun fjarskalega stuttur.

Yfirleitt spiluðu hjómsveitir á þessum stöðum, sums staðar stóru og frægu böndin. Hljómsveitir Péturs Kristjánssonar voru oft í Klúbbnum. Stundum spiluðu fleiri en ein hljómsveit – á mismunandi hæðum. Þegar hnignunin hófst misstu tónlistarmenn spón úr aski sínum– kannski voru það þeir sem töpuðu mest? En annrs gekk allt út á að selja sem mest af sterkum drykkjum blönduðum við gos. Það var mjög ábatasamt, og stundum komst upp kvittur um að hvort tveggja gosið og vínið væri naumt skammtað. Það var líka selt inn og kallaðist rúllugjald.

En þegar bjórinn var leyfður eyðilagðist þessi bisness alveg, viðskiptamódelið gufaði upp. Bjórinn var dauðadómur stóru skemmtistaðanna – reyndar er sagt að hann hafi gert út af við sveitaböllin líka.

Við komu bjórsins opnuðu krár í Miðbænum og fjölgaði ört. Nú eru þær legíó. Fólk þurfti ekki lengur að bíða í röð til að fá að koma inn á einn stað,og djamma þar fram að lokun.

En menningin bak við stóru skemmtistaðina var sérstök. Fjörinu lauk ekki endilega þótt staðirnir lokuðu. Það hélt áfram fyrir utan – á planinu fyrir utan Klúbbinn var oft líf og fjör og stundum mikil slagsmál. Sumir komu þangað gagngert til að slást. Og svo voru það eftirpartíin – staðirnir lokuðu svo snemma að gleðin færðist oft í heimahúsin. Þetta var líka tími „góðra bíla“ þegar þótti gott að hafa númer hjá leigubílstjóra sem gat útvegað flösku á svörtum.

Þar var svosem ekki úrval af eðalvínum, heldur yfirleitt bara gamli íslenski brennsinn.

 

Nei, það var yfirleitt ekki opið á mánudagskvöldum. En líklega hefur þetta verið annar í páskum sem var mikill skemmtanadagur í eina tíð. Árið var 1976. Það eru stórar hljómsveitir sem þarna hafa spilað, Paradís með undir forystu Péturs Kristjánssonar og hið rómaða stuðband Haukar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Össur argur út í stjórnvöld: „Þetta er náttúrulega skandall!“

Össur argur út í stjórnvöld: „Þetta er náttúrulega skandall!“
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Frestur liðinn

Frestur liðinn