fbpx
Miðvikudagur 12.desember 2018
Eyjan

Afsagna er varla að vænta – en hvar leitar einangraður Miðflokkur hófanna?

Egill Helgason
Miðvikudaginn 5. desember 2018 00:27

Samtalið á Klausturbarnum afhjúpar stjórnmál sem snúast einungis um völd, hagsmuni og frama.

Því þarna er ekki einungis um að ræða niðrandi tal um persónur og hópa, heldur er talað um hvernig menn fái umbunað fyrir að vera í pólítík og um hvernig launa skal skilyrðislausa tryggð.

Í öllu samtalinu örlar ekki á pólítískum hugmyndum eða hugsjónum. Samt var tilgangurinn meðal annars sá að fá tvo þingmenn til að ganga úr sínum flokki og yfir í annan flokk. En það er allt á forsendum valdatogs.

Önnur birtingarmynd eru svo fundir sem sagt er frá í dag á Vísi að hafi verið haldnir milli forystu Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins um að koma Gunnari Braga Sveinssyni í sendiherraembætti. Nú er það tómt mál að tala um. Það plott hefur forklúðrast.

Að því sögðu er þetta mál að draga ýmislegan dilk á eftir sér. Til dæmis er allt í loft upp í stjórnarandstöðunni. Nú hefur samstarfið í henni kannski ekki verið frábært  – en nú ríkir þar hrein óvinátta. Það er eiginlega búið að lýsa því yfir af hálfu flokka í stjórnarandstöðu að Miðflokksmennirnir séu ósnertanlegir. En með fáum undantekningum hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks ekki tjáð sig mikið um málið og þeir hafa eiginlega alveg þagnað eftir helgina.

Afleiðingin af þessu gæti orðið sú sem við sjáum örla fyrir í dag. Varaþingmaður Miðflokksins stígur upp í pontu og heldur ræðu um nýjan samning Sameinuðu þjóðanna um flóttafólk og innflytjendur. Kynni maður sér efni hans sér maður að hann breytir sáralitlu í raun. Það er enginn að fara að hleypa inn skriðu af flóttafólki. En varaþingmaðurinn segir að þetta sé „aðför að hinum frjálsa vestræna heimi“.

Heimildamaðurinn er einn sá ofstækisfyllsti úr hópi þeirra sem hafa andúð á innflytjendum og flóttafólki. Meira að segja á útvarpi Sögu þykir hann vera úti á ystu nöf. í ræðunni les varaþingmaðurinn upp heilu kaflana úr bloggi hans. Honum hefur aldrei verið gert svo hátt undir höfði í opinberri umræðu. Því verður ekki trúað að þetta geri varaþingmaðurinn án vitundar og vilja forystu flokksins.

Í dag rakst ég orðið hneykslunarhringurinn. Það lýsir nokkuð vel uppnámi á samfélagsmiðlum. Fordæmingin getur orðið mjög hörð, en hún er skammlíf og gengur sér fljótt til húðar. Það er mikið um móðgunargirni og hneykslun, en þær tilfinningar rísta ekki sérlega djúpt á þessum miðlum og tónninn er fljótur að breytast. Þetta hefur maður fundið í dag, bæði á netinu og í fjölmiðlaumræðunni, eins og til dæmis í útvarpsþættinum Harmageddon. Það hefur orðið vart ákveðinnar samúðar í garð sérstaklega Sigmundar Davíðs – eins og hann hafi verið beittur harðræði sem hafi gengið of langt.

Maður sér því haldið fram að leiklestur í Borgarleikhúsinu hafi verið vendipunktur. Þrátt fyrir tal um gríðarleg særindi var fólk þar skellihlæjandi yfir talsmáta Klausturgestanna. Mætti kannski kalla það þórðargleði.

Þeir fundu ákveðna viðspyrnu í dag eftir að hafa stöðugt sokkið dýpra. Satt að segja er ekki líklegt að neitt þeirra segi af sér þingmennsku. En það er athyglisvert að fylgi Miðflokksins var að aukast jafnt og þétt fram að Klaustursamsætinu. Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup var fylgið komið í 13 prósent í nóvember. Flokkurinn fór með himinskautum. En eftir að upptökurnar bárust út minnkaði fylgið niður í 8 prósent, samkvæmt Gallup. Væri reyndar gott að fá nákvæmari mælingu.

Nei, afsagna er varla að vænta. En Miðflokksins bíður einangrun á þingi. Þá má vel vera að menn fari að grípa til örþrifaráða. Það er viðbúið að tónninn í flokknum verði harðari, glæfralegri og pópúlískari – eins og heyra mátti á ræðu varaþingmannsins í dag um mál sem er ábyggilega hægt að búa til einhvern æsing í kringum, í fullkomnu tilgangsleysi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi hundsa fundarboð um sendiherramálið – Málið tekið af dagskrá

Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi hundsa fundarboð um sendiherramálið – Málið tekið af dagskrá
Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum

5,7 milljarða gjaldþrot félags í eigu forstjóra Kviku banka hf.: „Ég er ekki að flýja neinar skuldir eða eitthvað svoleiðis“

5,7 milljarða gjaldþrot félags í eigu forstjóra Kviku banka hf.: „Ég er ekki að flýja neinar skuldir eða eitthvað svoleiðis“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Miðflokksþingmenn fengu sér lögmann og kröfðust úrræða frá Persónuvernd

Miðflokksþingmenn fengu sér lögmann og kröfðust úrræða frá Persónuvernd
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Georg Bjarnfreðarson snýr aftur í auglýsingu frá VR – Sjáðu myndbandið

Georg Bjarnfreðarson snýr aftur í auglýsingu frá VR – Sjáðu myndbandið