fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Eyjan

Nýtt launafrumvarp í stað kjararáðs – Samið sérstaklega við Þjóðkirkjuna

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 3. desember 2018 08:58

Bjarni Benediktsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur lagt fram nýtt frumvarp sem ætlað er að taka á launum þess hóps er áður féll undir kjararáð, sem lagt var af á þessu ári. Verða laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna því bundin í lög, sem endurskoðuð verða árlega. RÚV greinir frá.

Frumvarpið tilgreinir laun hvers hóps fyrir sig og að þau taki breytingum þann 1. júlí ár hvert, byggt á útreikningum Hagstofu Íslands. Þá fær sá ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins heimild til að ákveða launahækkun um áramót, miðað við áætlaða breytingu samkvæmt Hagstofu. Heimildinni má þó ekki beita fyrr en í byrjun árs 2020.

Frumvarpið nær þó ekki yfir laun biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta, en sá hópur var áður undir kjararáði. Verður samið sérstaklega við þjóðkirkjuna um launafyrirkomulag starfsmanna hennar.

Helstu rökin

Helstu röksemdir starfshópsins fyrir breyttu fyrirkomulagi eru eftirfarandi:

1.      Breytingar á launum æðstu embættismanna ríkisins verða ekki leiðandi. Með því fyrirkomulagi að laun séu endurskoðuð eftir að launaþróun næstliðins árs liggur fyrir er komið í veg fyrir ósamræmi milli launaþróunar þeirra og annarra.
2.      Þróun á launum verður jafnari. Ekki mun koma til þess að endurskoðun dragist og hækkanir verði í stórum stökkum.
3.      Laun æðstu embættismanna ríkisins verða gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Í núgildandi fyrirkomulagi eru laun embættismanna og dómara hvergi aðgengileg almenningi og illskiljanleg, meðal annars vegna þess að stór hluti launa er greiddur í formi eininga og laun og önnur kjör þingmanna og ráðherra hafa verið ákveðin af tveimur aðilum.
4.      Mælikvarðar og tímamörk endurskoðunar á launum verða öllum ljós. Þeir sem launin þiggja geta áttað sig á því hvernig endurskoðun verður háttað og ríkissjóður getur áætlað útgjöld vegna launanna á skipulegan hátt.
5.      Komið er í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir. Þau störf sem um ræðir (þjóðkjörnir fulltrúar, ráðherrar, dómarar o.fl.) eru stöðug í þeim skilningi að þeir sem þeim gegna koma og fara en störfin eru þau sömu. Ekki er um að ræða framgang innan sömu embætta eða breytingar sem kalla á sérstakt mat á starfsmönnum eða störfunum sjálfum eftir að hæfileg laun eru ákveðin í eitt skipti fyrir öll.
6.      Launaákvarðanir eru samræmdar. Með því að launaákvarðanir um fleiri starfsgreinar fari eftir 39. gr. a í lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og verði á hendi eins aðila má ætla að eðlilegra samræmi og samfella verði í starfsmati og kjörum.

Í skýrslu starfshópsins segir að ef ekki verður um frekari endurskoðun að ræða á árinu 2018, þ.e. laun haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018, yrði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulagið setti og að framan hafa verið metin á bilinu 43–48%. Hins vegar er launaþróun innan hópsins afar mismunandi. Til dæmis hafa héraðsdómarar fengið 35% hækkun en ráðherrar 64% hækkun á sama tímabili. Ef litið er til lengri tíma, t.d. starfstíma kjararáðs frá 2006, blasir við önnur mynd. Á því tímabili hafa laun þessara starfsgreina þróast á svipaðan hátt.

Í greinargerð frumvarpsins segir:

Ríkisstjórnin ákvað í janúar 2018, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, að skipa starfshóp um málefni kjararáðs. Forsætisráðherra skipaði starfshópinn 23. janúar 2018. Skyldi hann bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum okkar og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, væri annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar. Þá átti starfshópurinn að taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur. Formaður hópsins var Jóhannes Karl Sveinsson hrl. Auk hans sátu í hópnum fyrir hönd ríkisins Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneyti. Fyrir hönd aðila vinnumarkaðarins sátu í starfshópnum þau Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, og Magnús Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands.
Með lögum nr. 60/2018, um brottfall laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum, var kjararáð lagt niður 1. júlí 2018. Með þessu frumvarpi er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem heyrðu undir ákvörðunarvald kjararáðs, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2016, sem felst í því að ákvörðun launa þeirra er skipað að mestu með hliðsjón af þeim tillögum sem starfshópurinn um málefni kjararáðs lagði til í skýrslu sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Halla Hrund bætir enn við fylgi sitt og fylgi Katrínar minnkar

Halla Hrund bætir enn við fylgi sitt og fylgi Katrínar minnkar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?