fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Friðrik segir skýrslu innri endurskoðunar vera ótrúverðugan „hvítþvott“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 20. nóvember 2018 14:15

Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir að það hafi „aldrei“ verið í lagi að kalla til innri endurskoðun Reykjavíkurborgar til að rannsaka þær ásakanir sem uppi voru innan Orku náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur, hvers niðurstöður voru birtar í gær. Þar kom fram að uppsagnir Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más Júlíussonar væru réttmætar, en Bjarni var talinn hafa sýnt af sér óviðeigandi hegðun í garð Ásdísar.

Friðrik segir fullyrðingar innri endurskoðunar vera furðulegar og að óháðan aðila hafi þurft til að gera úttektina:

„Hvítþvottur Orkuveitunnar á menningunni innan fyrirtækisins sem rataði í fréttir er ótrúverðugur. Það var aldrei í lagi að kalla til Innri endurskoðun Borgarinnar við að rannsaka þær ávirðingar á yfirmenn sem fram hafa komið og snúa að fyrirtækjamenningu og framkomu. Við blasir að það þurfti óháðan ytri aðila til að gera þá athugun. Hvernig viðkomandi deild getur fullyrt að fyrirtækjamenning Orkuveitunnar sé með því besta sem gerist hérlendis er furðuleg.“

Friðrik segir að innri endurskoðun hafi ekki sýnt mikla burði við að sýna framkvæmdastjórn borgarinnar aðhald:

„Innri endurskoðun Borgarinnar hefur engar upplýsingar til að gefa slíkar einkunnir sem augljóslega miða fyrst og fremst að því að loka málinu á forsendum OR og Borgarinnar. Og deildin sú hefur ekki sýnt sig hafa mikla burði í meginhlutverki sínu sem er að veita framkvæmdastjórn Borgarinnar aðhald og sinna eftirlitsskyldu, m.a. með framkvæmdum.“

Réttmætar uppsagnir

Líkt og áður sagði var það mat innri endurskoðun að uppsagnir Ásdísar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más Júlíussonar væru réttmætar. Í skýrslunni kemur fram að vinnustaðarmenningin hjá OR og dótturfélögum hennar sé „betri en gengur og gerist“ þó svo skerpa þurfi á verkferlum vegna uppsagna.

Helstu niðurstöður úttektarinnar má lesa hér að neðan:

Vinnustaðarmenning

Dagana 6.-9. október gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun meðal starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga til að greina vinnustaðarmenningu og meta umfang og eðli kynferðislegrar áreitni hjá OR. Svarhlutfall var 88%. Helstu niðurstöður eru:

  • Almennt er starfsfólk OR ánægt í starfi. Starfsánægja er meiri meðal kvenna hjá OR heldur en karla. Starfsánægja er umtalsvert meiri en mælist almennt á íslenskum vinnumarkaði.
  • 0,7% starfsmanna hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu hjá OR á síðustu 12 mánuðum. Það er talsvert minna en gengur og gerist á vinnumarkaði.
  • 3% starfsmanna hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu hjá OR síðustu 12 mánuði. Það er einnig minna en gengur og gerist á íslenskum vinnustöðum.
  • Starfsmenn OR eru ánægðir með yfirmenn sína og telja þá koma vel fram við starfsfólk.
  • Þegar spurt er um hegðun sem fellur undir skilgreiningu kynferðislegrar áreitni án þess að nefna kynferðislega áreitni hækkar hlutfall núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem segjast hafa orðið fyrir slíkum atvikum.
  • Fyrrverandi starfsfólk, sem ýmist hafði verið sagt upp eða sagt upp sjálft, var almennt neikvæðara í garð fyrirtækisins.

Uppsagnir stjórnenda hjá ON

Úttektarteymið ræddi við fjölda fólks innan og utan OR, rýndi gögn og dró af þeim ályktanir. Á meðal niðurstaðna er:

  • Uppsagnir tveggja stjórnenda hjá Orku náttúrunnar, þeirra Áslaugar Thelmu Einarsdóttur forstöðumanns hjá ON og Bjarna Más Júlíussonar framkvæmdastjóra ON, í september síðastliðnum voru réttmætar.
  • Áslaug Thelma Einarsdóttur fékk skýringar á uppsögn sinni en frekari skýringum sem boðnar voru fram á fundi var hafnað. Ábending er í skýrslunni um að hún hefði átt að fá skriflegar skýringar þegar við uppsögn.
  • Ábendingar koma fram um að skerpa þurfi á verklagi og ferlum varðandi uppsagnir.
  • Lagt er til að orðsporsáhætta vegna umræðu á borð við þá sem skapaðist verði metin sérstaklega og aðgerðaáætlanir fyrirtækisins uppfærðar.
  • Lagt er til að fyrirkomulag við skipan stjórna dótturfélaga verði endurskoðað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt