fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Kvika kaupir GAMMA á lækkuðu verði

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 19. nóvember 2018 09:49

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvika banki hf. og hluthafar GAMMA Capital Management hf. hafa undirritað samning um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA. Viðskiptin eru háð samþykki eftirlitsaðila og samþykki hluthafafundar Kviku. Með breyttu eignarhaldi myndast enn frekari tækifæri í starfsemi GAMMA sem verður eftir kaupin dótturfélag Kviku. Markmið Kviku með kaupunum er að styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Tilkynnt var þann 20. júní síðastliðinn að Kvika myndi greiða 3,8 milljarða fyrir allt hlutafé GAMMA. Kaupverðið nú nemur hinsvegar 2,4 milljörðum, miðað við bókfært virði árangurstengdra þóknana.

Greiddar eru 839 milljónir í reiðufé, með hlutdeildarskírteinum í sjóðum GAMMA upp á 535 milljónir. Auk þess verða árangurstengdar greiðslur, sem metnar eru á 1.032 milljónir króna, greiddar við innheimtu á langtímakröfum á sjóðum GAMMA.

Áætlað er að afkoma bankans fyrir skatta muni aukast um 300-400 milljónir króna á ári í kjölfar kaupanna. Ekki er gert ráð fyrir því að auka þurfi hlutafé Kviku vegna kaupanna. Yfirverð viðskiptanna ræðst af stöðu GAMMA við frágang viðskiptanna en samkvæmt mati Kviku er það áætlað um 850 milljónir króna.

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segist stoltur:

„Salan styrkir GAMMA sem mun framvegis bjóða viðskiptavinum sínum enn fjölbreyttari fjármálaþjónustu og aukið vöruframboð. Árangur GAMMA undanfarinn áratug er mikilsverður fyrir viðskiptavini, starfsmenn sem og hluthafa. Félagið er eitt öflugasta sjóðastýringarfélag landsins og rekur fjölbreytt sjóðaúrval sem er um 140 milljarðar króna að stærð. Við hjá GAMMA lítum stolt um öxl á þessum tímamótum og björtum augum til framtíðar.“

Gísli Hauksson, annar stofnenda GAMMA og stærsti eigandi félagsins segir þjónustuna eflast við þessi kaup:

,,Löngu ferli er nú að ljúka með kaupum Kviku á öllu hlutafé í GAMMA. Fyrir hluthafa GAMMA þá felast mikil tækifæri í þeirri breytingu að kaupverðið sé greitt að hluta til í hlutdeildarskírteinum sjóða félagsins auk þess sem hluthafar munu njóta góðs af áframhaldandi góðum rekstri sjóðanna. Fyrir viðskiptavini GAMMA þá mun þjónusta félagsins eflast mjög með eignarhaldi Kviku, meðal annars verður félagið í stakk búið að veita ennþá öflugri þjónustu á erlendum vettvangi. Starfsmenn GAMMA hafa á síðustu árum unnið einstakt starf í að skila afburða ávöxtun fyrir viðskiptavini og við að auka eignir í stýringu og er ég sannfærður um að svo verður áfram. Óska ég Kviku til hamingju með kaupin.”

„Kaupin á GAMMA efla verulega eigna- og sjóðastýringu Kviku og auka umtalsvert vænta arðsemi bankans. Stefnt er að því að sameina starfsemi félaganna í London, sem mun skjóta styrkari stoðum undir erlenda starfsemi bankans. Starfsfólk GAMMA hefur náð eftirtektarverðum árangri í sjóðastýringu á undanförnum árum og það er mikill fengur fyrir Kviku að fá góðan hóp til liðs við sig.“

segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt