fbpx
Mánudagur 10.desember 2018
Eyjan

Borgarstjóri segir Alþingi hafa tafið byggingu nýrra íbúða í Reykjavík

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 17. nóvember 2018 19:00

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir stóru tíðindin í húsnæðismálum á árinu séu að byggingareitum, sem eru komnir á framkvæmdastig, hafi fjölgað mikið. Nú séu framkvæmdir hafnar á stórum svæðum á borð við Vogabyggð og Kirkjusandi. Ein stærstu tíðindin að hans mati eru síðan að Bjarg, byggingarfélag verkalýðshreyfingarinnar, lýkur smíði fyrstu íbúða sinna á næsta ári en þá koma á markaðinn leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir fólk með lágar tekjur.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Þar er haft eftir Degi að Félagsstofnun stúdenta sé einnig að ljúka við byggingu stærsta stúdentagarðs landsins. Því komi mörg hundruð íbúðir, á viðráðanlegu verði, inn á leigumarkaðinn á næsta ári og sagan mun endurtaka sig 2010 og 2021 að hans sögn.

Haft er eftir honum að verktakar hafi verið tregir til að byggja litlar íbúðir og að Alþingi hafi tekið sér langan tíma í að afgreiða fjármögnun, stofnframlög, sem gerði uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar mögulega. Þetta hafi tafið uppbygginguna.

„Þannig að íbúðir … og lóðir sem við vorum tilbúin með í deiliskipulagi á árunum 2014 og 2015 komu ekki til úthlutunar fyrr en 2017 vegna þess að löggjöfin tafðist frá 2014 til 2016 í þinginu. Vissulega er þetta flókið mál. Auðvitað taka svona mál tíma en þarna fannst mér við tapa tveimur árum í þessari uppbyggingu.“

Er haft eftir Degi sem segir að húsnæðisstefna borgarinnar miði að því að þjóna öllum samfélagshópum og reyna að mæta eftirspurn betur en gert hefur verið. Þá hafi borgin kallað eftir því að önnur sveitarfélög komi að félagslega hluta húsnæðisbygginga þannig að sá hluti hvíli ekki eingöngu á Reykjavíkurborg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af