fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Dómsmálaráðherra vill að dæmdir menn fái að sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 13. nóvember 2018 11:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, leggur til í stjórnarfrumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru, að krafan um að stjórnarmenn í Fjármálaeftirlitinu (FME) hafi óflekkað mannorð, verði afnumin. Þeir sem gerst hafa sekir um alvarleg lögbrot fái því sjálfkrafa að sitja í stjórn FME, tíu árum eftir dóm sinn. Kjarninn greinir frá.

Enginn rökstuðningur fylgir þessari tillögu Sigríðar og í umsögn Alþýðusambands Íslands er þetta gagnrýnt, þar sem hún er sögð draga „verulega“ úr hæfisskilyrðum:

„Með þessari tillögu er dregið verulega úr hæfisskilyrðum. Fyrir er skýrt ákvæði um að stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins skuli „hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila.“ Samhliða því að afnema kröfu um óflekkað mannorð er þeim sem gerst hafa sekir um um alvarleg brot á hegningarlögum, lögum á sviði fjármálamarkaðar eða félaga eða þolað íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem einstaklingar eða forsvarsmenn fyrirtækja, veitt sjálfkrafa hæfi að liðum 10 árum eftir hafa verið dæmdir. Þessi lagabreyting er í engu samræmi við aðrar lagabreytingar sem lagðar eru til í sama frumvarpi sbr. t.d. tillögu um breytingar á 3.mgr. 22.gr. laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir og lögum nr. 110/2007 um kauphallir þar sem óflekkað mannorð er fjarlægt en tiltekin brot útiloka áfram frá hæfi. Skýring á því hvers vegna dregið er úr hæfi manna til þess að stýra Fjármálaeftirlitinu er ekki rökstudd í greinargerð.“

Aðeins Alþingismenn þurfi óflekkað mannorð

Í frumvarpi Sigríðar er lagt til að allar tilvísanir til óflekkaðs mannorðs verði felldar úr lögum, fyrir utan lög um kosningar til Alþingis:

„Í lögum um kosningar til Alþingis verði óflekkað mannorð skilgreint rúmt en fyrir því eru einkum lýðræðisleg sjónarmið þannig að langflestum þjóðfélagsþegnum verði unnt að bjóða sig fram og það falli þannig í skaut stjórnmálahreyfinga og síðar kjósenda að velja fulltrúa sína til Alþingis. Þannig er lagt til að eingöngu þeir sem hlotið hafa fangelsisdóm hafi flekkað mannorð í skilningi laganna frá því að héraðsdómur er upp kveðinn og þangað til afplánun þeirra er að fullu lokið. Slíkt samrýmist einnig nútímahugmyndum í refsipólitík um að einstaklingur geti orðið virkur þjóðfélagsþegn að afplánun lokinni og hafi gert upp skuld sína við samfélagið eftir að hafa tekið út refsingu sína.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt