fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Vikist undan ábyrgð

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 12. nóvember 2018 08:39

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Í síðustu viku gekk dómur Hæstaréttar í máli sem Samherji hafði höfðað á hendur Seðlabanka Íslands til ógildingar á stjórnvaldssekt sem bankinn hafði lagt á fyrirtækið í september 2016. Var staðfestur héraðsdómur, þar sem sektin var felld úr gildi. Höfðu ekki verið lagaskilyrði til að leggja hana á.

Málsýfingar Seðlabankans á hendur Samherja hófust á árinu 2012 með húsrannsókn á skrifstofum fyrirtækisins. Mikill fjölmiðlahvellur varð vegna þessarar aðfarar og virðist fréttastofa RÚV hafa átt beinan þátt í að stofna til þessa upphlaups. Vísast um það til bókar eftir Björn Jón Bragason, „Gjaldeyriseftirlitið“, sem út kom á árinu 2016. Enginn vafi er á að þetta upphlaup var til þess fallið að skaða fyrirtækið með alvarlegum hætti.

Í apríl 2013 kærði bankinn svo Samherja fyrir brot á reglum um gjaldeyrismál. Sérstakur saksóknari taldi kæruna ekki geta orðið tilefni lögreglurannsóknar og vísaði henni frá sér. Bankinn kærði þá fjóra nafngreinda einstaklinga sem voru í fyrirsvari fyrir Samherja. Í september 2015 endursendi sérstakur saksóknari þessa kæru líka til baka, þar sem ekki væru uppfyllt lagaskilyrði fyrir henni.

Bankinn gafst samt ekki upp. Í september 2016 lagði hann á fyrirtækið 15 milljón króna stjórnvaldssekt. Með dómi Hæstaréttar í síðustu viku var fallist á kröfu Samherja um að fella sektina niður. Ekki hefðu verið uppfyllt lagaskilyrði til að leggja hana á.

Þetta er einfaldlega dæmi um mál þar sem handhafi opinbers valds misbeitir valdi sínu til tjóns fyrir starfandi atvinnufyrirtæki í landinu. Brot bankans er gróft þó að ekki væri fyrir annað hann hefur ekki viljað sjá að sér þó að hann hafi fengið skýr og alvöruþrungin tilefni til þess á leiðinni.

Hér á ekki að þurfa um að binda. Seðlabankastjórinn ber ábyrgð á þessari aðför bankans. Hann tók reyndar sjálfur beinan þátt í henni, svo sem fram hefur komið reglulega í fjölmiðlum, meðan á þessu hefur staðið. Það ætti að vera augljóst að bæði hann og aðrir embættismenn við bankann, sem tóku þátt í þessu, hljóta að víkja. Það fylgir því mikil ábyrgð að stjórna opinberum stofnunum sem fengnar eru heimildir til að beita borgara valdi þeim til tjóns. Þegar svo hrapallega tekst til sem hér er raunin hljóta þeir sem ábyrgð bera á aðför stofnunar að gjalda fyrir með starfi sínu. Um það ætti ekki að þurfa neinar málalengingar.

En þá birtist í fjölmiðlum forsætisráðherra þjóðarinnar, en samkvæmt lögum skipar sá ráðherra bankastjórann til starfa og ætti því að víkja honum úr starfi vilji hann ekki víkja sjálfur. Dómurinn hefur ekki áhrif á stöðu seðlabankastjóra segir ráðherrann!

Hér birtist okkur hin íslenska leið. Engu máli skiptir þó að opinberir starfsmenn misfari með vald sitt og valdi borgurum að ólögum bæði fjárhagslegu og persónulegu tjóni. Þeir skulu enga ábyrgð bera á athöfnum sínum. Kannski við ættum að biðja stjórnmálamenn, sem taka svona afstöðu, að hlífa okkur í framtíðinni við orðagjálfri um ábyrga og vandaða stjórnsýslu? Þeir sem þannig tala reglulega eru ekki síður en hinir botnsokknir í þá spillingu sem ríkir á Íslandi við meðferð opinbers valds.

Jón Steinar Gunnlaugsson er lögmaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt