fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Ásmundur sendir Pírötum pillu og útskýrir aksturinn: „Ég hef aldrei fengið athugasemdir“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 12. nóvember 2018 11:20

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, skrifar pistil á Eyjar.net hvar hann útskýrir hvað felist í starfi sínu sem þingmaður, sem kalli á miklar fjarvistir að heiman vegna ferðalaga um kjördæmið. Svarar hann þannig gagnrýni vegna aksturs síns, en Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur vakið máls á endurgreiðslum Alþingis vegna aksturs Ásmundar og sakar hann um fjársvik.

Hefur Björn óskað eftir rannsókn á öllum endurgreiðslufærslum Alþingis og að Ásmundur verði rannsakaður sérstaklega í því tilliti. Ásmundur vakti sem kunnugt er athygli fyrr á þessu ári fyrir dugnað sinn undir stýri, en hann fékk langhæstu endurgreiðsluna frá Alþingi vegna aksturs síns, eða 4,6 milljónir króna.

Sjá nánar: Ásmundur Friðriksson:„Ég ek á guðs vegum“

Sjá nánar: Björn Leví sakar Ásmund um fjársvik:„Enginn þingmaður Pírata hefur ásakað Ásmund um slíkt … fyrr en núna“

Sjá nánarStóru Málin:Björn Leví og fyrirspurnirnar – Ásakaður um að þjófkenna Ásmund

 

Engar athugasemdir

Ásmundur segir ekki alltaf logn í störfum þingmannsins, en segist þó njóta starfsins, sem hafi verið viðburðarríkt og skemmtilegt. Hann segist aldrei hafa fengið athugasemdir vegna akstursbókar sinnar og sendir Pírötum pillu í leiðinni:

„Um hver mánaðarmót frá maí 2013 hef ég í 68 skipti skilað inn akstursbókinni og geri enn. Ég hef aldrei fengið athugasemdir. Skrifstofa þingsins hefur heldur ekki talið ástæðu til að óska eftir frekari útskýringum. Það væri áhugavert ef Píratar gætu gefið okkur mynd af sínum störfum í þágu kjósenda sinna og hvernig þeir hafa ráðstafað þeim 265 dögum sem þinghald stendur ekki yfir á hverju ári.“

Í góðu sambandi við fólkið

Ásmundur fer yfir akstur sinn og nefnir að hann aki hátt í 47 þúsund kílómetra á ári til að rækta samband sitt við fólkið í kjördæminu:

„Allt kostar þetta mikinn akstur og fjarveru af heimilinu. Að jafnaði eru 100 þingdagar á ári svo það eru eftir 265 dagar sem ég sem þingmaður hef til að rækta fólkið í mínu kjördæmi. Ég lít á það sem skyldu mína að nýta þessa daga til að eiga beint samtal við kjósendur og kjósendur eiga kröfu á að ég sinni þessari skyldu minni af trúmennsku. Til að sækja þingfundi ek ég u.þ.b. 12.000 km á ári og u.þ.b. 30-35.000 km til að ferðast í kjördæminu á hverju ári. Ég fer um og yfir 100 ferðir um kjördæmið og er hver ferð að meðaltali 300 km. Gera má ráð fyrir að þessar ferðir sem flestar eru farnar um helgar og á kvöldin. Um allflestar þessara ferða má lesa á fésbókinni minni. Þar eru myndir af þeim sem ég hitti og oft stutt frásögn af því sem ég upplifði. Segi frá starfsemi fyrirtækja eða mannlífi á förnum vegi. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir hjá fólki í mínu kjördæmi og langt út fyrir það.“

Þjónn fólksins

Ásmundur segir þingmanninn vera „þjón fólksins í kjördæminu“ og sé ólíkt öðrum störfum sem hann hafi unnið:

 „Enginn annar en kjósandinn getur sagt þingmanninum upp störfum. Þingmaðurinn er ekki ríkisstarfsmaður, hann er fulltrúi þeirra kjósenda sem gáfu honum atkvæði sitt á kjördag og þarf að standa þeim skil á vinnu sinni fram að næsta kjördegi. Þegar kjósendur í Suðurkjördæmi veittu mér brautargengi í kosningunum vorið 2013 tók ég strax þá ákvörðun að verða sýnilegur þingmaður, þjónn fólksins. Leggja mig fram um að kynnast sem flestum í víðfeðmu og fjölmennu kjördæmi og setja mig inn í þau mál sem brenna á samfélögum frá Garðskaga í vestri að Þvottárskriðum í austri. Þetta kostar mikla vinnu og ferðalög.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“