fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Hið hrörlega glæsihús á Víðimel þar sem Maó var syrgður

Egill Helgason
Föstudaginn 9. nóvember 2018 11:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir gamla Vesturbæinga er merkilegt að sjá að komið er í sölu eitt glæsilegasta húsið sunnan Hringbrautar, Víðimelur 29. Í auglýsingu segir að húsið sé 724,5 fermetrar, 19 herbergi, en fasteignamatið er 253 milljónir.

Vandinn er þó sá að húsið er í mikilli niðurníðslu. Eigandinn, kínverska ríkið, hefur ekkert sinnt viðhaldi um árabil og líklega hefur húsið verð ókynt árum saman. Í auglýsingunni segir líka að húsið þurfi mikið viðhald.

Kínverska sendiráðið var þarna um árabil áður en það flutti í Garðastrætið og síðar inn í Bríetartún. Það þótti mikill viðburður þegar Kínverjar opnuðu sendiráð á Íslandi á sínum tíma. Húsið á Víðimel keyptu þeir 1973. Sama ár var haldin kínversk vöru- og listmunasýning á Kjarvalsstöðum sem hlaut gríðarlega mikla aðsókn. Þá var meira fásinni í borginni en nú er. Á sýningunni voru alls konar hlutir, allt frá kínverskum sígarettum til muna sem voru skornir út í fílabein.

Ég var í 1. bekk í Hagaskóla þegar Kínverjar opnuðu sendiráðið. Menn átta sig kannski ekki á því  nú orðið hvílíkur viðburður þetta var. Þetta var stuttu eftir að Nixon hafði farið til Kína og hitt Maó. Það gerðist í kjölfar ferðar kínverska borðtennislandsliðsins til Bandaríkjanna. Þetta fékk heitið ping-pong diplómatía.

Afi minn, Ólafur, var kristiboði í Kína á árunum 1921 til 1937, kom heim með fjölskylduna þegar ófriðurinn þar magnaðist upp við innrás Japana. Það eru til kvikmyndir sem hann tók eftir hinar grimmilegu loftárásir Japana á Shanghai. En ræningjaflokkar og sveitir kommúnista óðu líka uppi.

Kommúnistar voru ekki hátt skrifaðir á heimilinu. Það var vitað að þeir höfðu myrt og fangelsað fólk úr söfnuðum þar sem afi starfaði. En það var til marks um breytta tíma að Kínverjarnir í sendiráðinu fóru að bjóða afa þangað. Hann var reyndar farinn að heilsu og komst lítt. En í staðinn ræktuðu þeir tengslin við Guðrúnu móður mína sem er fædd í Kína. Fáum árum síðar var henni boðið í  heimsókn til Kína.

Stuttu eftir opnun sendiráðsins komu í Hagaskóla í skólann tveir ungir menn frá Kína. Við kölluðum þá Sjö og Sju. Þeir bjuggu í sendiráðinu en voru sendir til Íslands að læra málið, tengslin áttu semsagt að vera til frambúðar. Ég man aðallega eftir þeim vegna þess að þeir spiluðu borðtennis – á þeim tíma varði ég öllum stundum í borðtennisiðkun annað hvort í kjallara Hagaskóla eða í KR-heimilinu.

Ekki veit ég hvað var af Sjö og Sju – þeir voru brosmildir og góðlegir, en ég hef ekkert heyrt af þeim síðan.

Húsið á Víðimelnum hefur eiginlega verið til skamma um árabil og nágrannar hafa kvartað. Líklega þarf að verja stórum fjárhæðum í að laga það. Við töluðum um húsin í þessum hluta götunnar í þáttunum Steinsteypuöldin. Þetta eru glæsihús sem voru byggð í stríðslok og ekkert til sparað. Þau eru íburðarmeiri en önnur hús í hverfinu. Í húsinu við hliðina á bjó Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra.

Ég sjálfur man ekki til þess að hafa komið inn í umrætt hús nema einu sinni. Það var 1976, þegar Maó formaður dó. Ég var unglingspiltur og skrifaði nafn mitt í minningabók um hann.

Löngu seinna skrifaði ég pistil í Alþýðublaðið þar sem ég skýrði aðeins frá þessu. Þá þóttist ég hafa pata af því að minningabækurnar um Maó væru varðveittar í Peking.

Greininni lauk með svofelldum orðum:

„Ekki syrgi ég Maó. Hitt veit ég að í grafhýsi hans, eða kannski í Höll alþýðunnar í Peking, er bók sem hefur að geyma nöfn fjölda Íslendinga sem flykktust á Víðimel haustið 1976 – og þar á meðal er nafnið mitt.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus