Eyjan

SUS segir ræðu Bjarna vera „vonbrigði“ og lýsi „vanskilningi“: „Óeðlilegt er að formaður Sjálfstæðisflokksins standi í vegi fyrir frelsismálum“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 8. nóvember 2018 13:34

Ingvar S. Birgisson, formaður SUS , er ekki ánægður með Bjarna Ben.

Ræða Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, á kirkjuþingi um síðustu helgi, hefur dregið dilk á eftir sér. Bjarni fjallaði um aðskilnað ríkis og kirkju og sagði að lítils skilnings gætti hjá þeim sem færu fram á slíkan aðskilnað:

Oft virðist manni sem málflutningur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálusorgun og ýmis konar félagsþjónustu.“

Sjá nánarBjarni Ben ver kirkjuna:Kirkjan gagnrýnd af mjög ungu fólki sem hefur ekki lent í áföllum

Forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, sagði í gær að Bjarni hefði talað niður til ungmenna í ræðu sinni:

„Formaður Sjálfstæðisflokksins talar um ungt fólk eins og það sé viðkvæm snjókorn sem þekki ekki áföll. Jafnvel ef hann hefði rétt fyrir sér þá myndu skoðanir hópsins skipta máli og eiga rétt á sér. En ráðherrann hefur ekki rétt fyrir sér og mörg okkar þekkja víst vel til sálrænna áfalla og höfum samt sem áður kallað eftir aðskilnaði ríkis og kirkju.“

Sjá nánar: Forseti Uppreisnar segir Bjarna tala niður til ungmenna:„Aðskilja á ríki og kirkju, punktur“

Ómálefnalegt hjá formanninum

Nú hefur formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna einnig tekið í svipaðan streng, en í tilkynningu frá SUS segir að ræða Bjarna lýsi „vanskilningi“ á málstað þeirra sem styðji aðskilnað ríkis og kirkju, en það hefur verið baráttumál SUS í fjölmörg ár:

„Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) lýsir yfir vonbrigðum með þau orð sem formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, lét falla á nýafstöðnu kirkjuþingi þjóðkirkjunnar. Þar sagði hann að krafa um aðskilnað ríkis og kirkju, eða ríkis og trúarbragða almennt, sé komin frá ungu fólki sem hafi ekki lent í áföllum á lífsleiðinni og þekki því ekki til sáluhjálpar þjóðkirkjunnar.

Orðræða af þessu tagi lýsir gríðarlegum vanskilningi á málstað þeirra fjölmörgu Íslendinga sem styðja aðskilnað ríkis og kirkju, en um er að ræða baráttumál SUS til margra áratuga og samþykkta stefnu Sjálfstæðisflokksins á landsfundi. Það er afar ómálefnalegt að afskrifa málstað þeirra sem styðja aðskilnað ríkis og kirkju með þeim hætti sem Bjarni gerði.“

Óeðlilegt að Bjarni standi í vegi fyrir frelsismálum

Í tilkynningunni er samkomulag ríkis og kirkju sagt  fela í sér ójafnræði sem samrýmist ekki stefnu Sjálfstæðisflokksins:

„Málstaður þeirra sem styðja aðskilnað ríkis og kirkju byggir í langflestum tilvikum á því að það sé ekki hlutverk ríkisins að skattleggja almenning til að fjármagna trúfélög, hvað þá eitt trúfélag framar öðrum. Slíkt fyrirkomulag felur í sér mikið ójafnræði milli trúfélaga og er á skjön við lífsskoðanir fjölmargra Íslendinga, en sá hópur fer stækkandi með hverjum deginum og samanstendur af þjóðfélagshópum af öllum aldri og pólitískum skoðunum, og stendur í engu sambandi við reynslu fólks af áföllum í lífinu.

SUS leggur áherslu á mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkurinn beiti sér fyrir auknu frelsi og dragi úr inngripum ríkisins í líf fólks. Afar óeðlilegt er að formaður Sjálfstæðisflokksins standi í vegi fyrir frelsismálum sem flokksmenn og gríðarstór hluti þjóðarinnar styður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Styrmir: Alvarlegur ágreiningur innan stjórnarflokkanna eru „pólitísk stórtíðindi“

Styrmir: Alvarlegur ágreiningur innan stjórnarflokkanna eru „pólitísk stórtíðindi“
Eyjan
Í gær

Reykjavíkurborg leysir leikskólavandann: Kostar fimm milljarða næstu fimm árin

Reykjavíkurborg leysir leikskólavandann: Kostar fimm milljarða næstu fimm árin