Eyjan

Efnahagsráðgjafi GAMMA varar við leiguþaki: Afleiðingarnar gætu orðið mjög slæmar

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 7. nóvember 2018 17:00

„Það kann ekki góðri lukku að stýra að endurtaka mistök annarra þjóða,“ segir Sölvi Blöndal, efnahagsráðgjafi GAMMA Capital Management, í grein í Markaðnum í dag.

Í grein sinni skrifar Sölvi um hugmyndir um svokallað leiguþak sem nokkuð hefur verið fjallað um að undanförnu. Ásmundur Einar Daðason, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði í fréttum RÚV fyrir skemmstu að ráðuneytið væri með málið til skoðunar.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.

Í grein sinni segir Sölvi að flestir séu sammála um að síðustu ár hafi einkennst af skorti á framboði á nýju húsnæði. Hann segir að innan hagfræðinnar séu lagaúrræði til að knýja fram verðlækkanir á markaði og afleiðingar þeirra séu vel þekkt og rannsökuð.

„Meginafleiðing slíkrar lagasetningar er jafnan skortur á viðkomandi vöru. Leiguþak myndi leiða til þess að sumir íbúðaeigendur myndu selja íbúðir frekar en að leigja þær og fjárfestar myndu hætta við að fjárfesta í íbúðarhúsnæði til útleigu. Draga myndi úr nýframkvæmdum á íbúðahúsnæði. „Leiguþak“ myndi þannig auka skort á leiguhúsnæði á sama tíma og húsnæðisskortur er í sögulegu hámarki,“ segir Sölvi.

Viðskiptablaðið fjallaði árið 2015 um stöðu mála í Stokkhólmi þar sem gríðarlegur húsnæðisskortur hefur verið viðvarandi á undanförnum árum. Nokkrum árum áður settu sænsk stjórnvöld á laggirnar leiguþak sem gerði það að verkum að fasteignir urðu óaðlaðandi fjárfestingarkostur í augum einstaklinga og fjárfesta. Á þeim tíma sem Viðskiptablaðið fjallaði um málið var níu ára meðalbiðtími eftir leiguíbúð í Stokkhólmi.

„Reynsla nágrannaþjóða okkar hefur sýnt að „leiguþak“ bitnar sérstaklega illa á ungu fólki og innflytjendum sem hyggja á búsetu. Hið svokallaða „leiguþak“ gerir því núverandi vanda húsnæðismarkaðarins erfiðari viðfangs. Það þarf því ekki að koma á óvart að flestar þjóðir sem innleitt hafa hið svokallaða „leiguþak“ hafi leitað leiða til að afnema það. Því miður hefur reynslan sýnt að erfitt getur verið að vinda ofan af illa ígrunduðu kerfi eftir að það kemst á,“ segir Sölvi.

Sölvi segir í lok greinar sinnar að húsnæðismál séu vandasamt viðfangsefni og mikilvægt sé að stjórnvöld vandi stefnumótum sína og hafi samráð við þá sem að málinu koma, til dæmis sveitarfélög, framkvæmdaraðila og fjármálastofnanir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Styrmir: Alvarlegur ágreiningur innan stjórnarflokkanna eru „pólitísk stórtíðindi“

Styrmir: Alvarlegur ágreiningur innan stjórnarflokkanna eru „pólitísk stórtíðindi“
Eyjan
Í gær

Reykjavíkurborg leysir leikskólavandann: Kostar fimm milljarða næstu fimm árin

Reykjavíkurborg leysir leikskólavandann: Kostar fimm milljarða næstu fimm árin