fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Halldór Auðar um ólguna innan Pírata: „Menning flokksins gengur beinlínis út á að vægðarlaus gagnrýni er dyggð“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 6. nóvember 2018 14:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Auðar Svansson, fyrrum borgarfulltrúi Pírata, hefur tjáð sig um þá ólgu sem nú er innan flokksins. Forysta flokksins sendi frá sér yfirlýsingu í morgun byggða á fundi í gærkvöldi þar sem afráðið var að grípa til samþættra aðgerða til að „koma samskiptamálum og vellíðan félagsmanna til betri vegar og vinna saman að því markmiði.“

Halldór Auðar segist hafa slæma reynslu af því að sitja í framkvæmdaráði Pírata:

„Ég er búinn að melta þetta mikið og gera mitt besta til að aðskilja mínar persónulegu tilfinningar gagnvart minni slæmu og skammvinnu reynslu af því að reyna að sitja í framkvæmdaráði flokksins frá stóru myndinni. Fylgjast með umræðunni og greina mynstur. Hugsa aftur til baka og skoða mynstrin þar. Niðurstaðan er að rót vandans má rekja til þess að menning flokksins gengur beinlínis út á að vægðarlaus gagnrýni er dyggð, og að þar megi síst af öllum undanskilja flokksfélaga, þar sem við viljum jú ekki vera hræsnarar. Hegðun sem gengur út á tortryggni og hörku er verðlaunuð og henni hampað – á meðan tilburðir til að draga heilbrigð mörk í samskiptum og byggja brýr eru skotnir niður. Svona í stórum og grófum dráttum.“

Valdastöður í skotlínunni

Halldór segir að slíkt umhverfi leiði af sér klíkur og fórnarlömb:

„Það eru margir sem upplifa sig sem þolendur í slíku umhverfi og ekki síst fólk sem gegnir áhrifastöðum, því það setur sig óhjákvæmilega í skotlínu. Sumir verða meira fyrir þessu en aðrir og það myndast klíkur með ákveðnu fólki gegn öðru – en á endanum er það einfaldlega þannig að allir tapa á þessu ástandi. Öllum finnst þeir örugglega standa nokkurn veginn jafn einir og óstuddir í því. Það hefur alls ekki hjálpað til að tíðar kosningar hafa sett mikið álag á alla og myndað ennþá fleiri átakalínur milli fólks en í venjulegu árferði. Auðvitað tekur slíkt á þó að fólk sé kannski fyrst núna að átta sig almennilega á því hversu mikið það hefur tekið á.“

Þarf að viðurkenna vandann

Halldór Auðar segir að finna þurfi jafnvægi milli aðhalds og vinnufriðar fólks:

„Nú er svo komið að þessi óheilbrigða menning og spennan sem henni fylgir er sprungin í andlitið á fólki og þá er ekkert annað eftir en að kyngja smá stolti og viðurkenna vandann. Verkefnið að mínu mati snýst um að finna jafnvægi milli gagnrýni og samstöðu, notast við þekktar aðferðir sem stjórnunarfræðin kenna okkur um hvernig má byggja upp traust innan hópa, og setja það í forgang að festa í sessi kerfi sem tryggja jafnvægi milli aðhalds og vinnufriðar fólks sem vinnur fyrir flokkinn. Þetta er vinna sem hefði alveg verið hægt að vinna í kyrrþey og án þess að vandinn springi út opinberlega en það er líka í raun bara allt í lagi að hluti uppgjörsins fari fram á opinberum vettvangi. Það er ákveðin nauðsynleg auðmýking í því og vonandi einhver lexía fyrir aðra til að læra af. Svona fyrir mitt leyti þá er ég engan veginn hættur í Pírötum en ég þarf að taka frí frá því að starfa fyrir hann. Að hluta er það líka bara persónulegt mál mitt, ég þarf hvíld frá því að vera í hringiðunni. Óska þó félögum mínum alls hins besta og mun styðja eins og ég get af hliðarlínunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins