fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Bjarni Ben ver kirkjuna: Kirkjan gagnrýnd af mjög ungu fólki sem hefur ekki lent í áföllum

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 5. nóvember 2018 09:42

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Vídalínskirkja í Garðabæ. Samsett mynd/DV/Skjáskot af ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir litla sanngirni í málflutningi þeirra sem tala hæst um aðskilnað ríkis og kirkju. Sagði hann í ræðu við setningu kirkjuþings um helgina að svo virðist sem málflutningur um að ríkið ætti að hætta afskiptum af fjármálum trúfélaga stafi frá mjög ungu fólki sem hafi ekki lent í áföllum yfir ævina og hafi ekki séð sálusorgarstarf þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing fór að þessu sinni fram í Vídalínskirkju í Garðabæ, við upp­haf kirkjuþings á laug­ar­dag­inn tók Drífa Hjart­ar­dótt­ir fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins við sem for­seti kirkjuþings, er hún fyrst kvenna í því embætti.

Í ræðu sinni rakti Bjarni kirkjujarðasamkomulagið frá árinu 1997, sagði hann að með því hefðu verið settar niður gamlar deilur um uppgjör vegna fjölda fasteigna sem ríkið hafði fengið frá kirkjunni. Samkvæmt samningum frá 1998 greiðir ríkið laun ákveðins hóps starfsmanna þjóðkirkjunnar. Kjararáð hafði það hlutverk að úrskurða um fjárhæð launanna og þar með um endanlega fjárhæð árlegs gagngjalds ríkisins fyrir umræddar jarðir. Nú þegar búið sé að leggja niður kjararáð sé verið að kynna nýtt fyrirkomulagi við launasetningu hjá miklum fjölda ríkisstarfsmanna. Segir Bjarni að það komist hjá því að endurskoða hvernig gagngjaldið sé reiknað frá ári til árs.

Bjarni sagði að viðræður milli fulltrúa kirkjunnar og ríkisins séu langt komnar og ljúki á næstu vikum. Vill hann að kirkjan taki alfarið yfir starfsmannamál og að ríkið hlutist sem minnst til um hvernig kirkjan ráðstafar fjárframlögum. „Ég vil líka árétta að af minni hálfu stendur ekki til að þessi framlög skerðist frá því sem nú er,“ sagði Bjarni.

Hann beindi svo sjónum sínum að gagnrýnendum núverandi fyrirkomulags:

„Ég vil ekki skorast undan því að ræða í þessu samhengi um þá ágjöf sem við sitjum undir, sem freistum þess að ná sáttum um að þróa áfram fyrirkomulagið á fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju. Það er lítil sanngirni í málflutningi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju og um að best færi á því að ríkið hætti algjörlega að hafa nokkur afskipti af fjármálum neinna trúfélaga,“ sagði Bjarni, hann bætti við:

„Oft virðist manni sem málflutningur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálusorgun og ýmis konar félagsþjónustu.“

Hann sagði svo að lokum:

„En jafnvel á Alþingi er töluverður hópur þingmanna sem virðist ekki tilbúinn til að viðurkenna að neinu leyti að þjóðkirkjan hafi hlutverk eða eigi erindi við samtímann. Ekki heldur til að virða þá samninga sem gerðir hafa verið.

Þetta gerir það enn brýnna en ella að ríkið og kirkjan nái sem fyrst saman um að þróa áfram samband sitt og sjálfstæði kirkjunnar innan skynsamlegs ramma, sem unnt er að ná sæmilega víðtækri sátt um.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt