fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Forsætisráðherra fordæmdur á netmiðlum: „Enn að japla á þessu“ – „Rökleysa“ – Hvað átti Katrín við með orðum sínum um Bjarna Ben ?

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 30. október 2018 12:59

Katrín Jakobsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svör Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við spurningum Stundarinnar um viðskiptaferil Bjarna Benediktssonar samhliða þingstörfum, hafa valdið mörgum heilabrotum, ekki síst varðandi það að þingmenn noti skattaskjól í viðskiptum sínum. Katrín sagði:

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.“

Sjá einnig: „Skapar tortryggni og vantraust“ segir Katrín um stjórnmálamenn í viðskiptum – Segir upplýsingarnar um Bjarna Ben hafa legið fyrir

Kaldhæðinn Össur

Svar Katrínar þykir mörgum býsna fræðilegt af stjórnmálamanni að vera, en Katrín er íslenskufræðingur, með meistarapróf í bókmenntafræðum og var málfarsráðunautur á RÚV og er því vel ritfær.

Hinsvegar segist Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, enn vera að „japla“ á þessum orðum Katrínar, enda sé það vel þekkt að hann sé með slaka meðalgreind:

„Okkar ástkæri forsætisráðherra tjáir sig með einföldum og skýrum hætti þannig að hvert mannsbarn skilur:

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.“

Ég er að vísu með slaka meðalgreind einsog vel er þekkt og er enn að japla á þessu.“

Forsætisráðherra fellur á eigin bragði

Viðar Hreinsson, fræðimaður og rithöfundur, segir að Katrín sjálf smætti málið með orðum sínum og því sé það rökleysa:

„Uhummmm. Ef KJ er að nota orðið í heimspekilegri merkingu smættunarhyggju (reductionism, ágætis skilgreining á dictionary.com) er þetta athyglisvert. Smættunarhyggja felst í því að einfalda flókin atriði niður í óljóst mál sem jafnvel getur orðið merkingarleysa. Það kemur einstökum, siðferðislegum álitamálum ekkert við og því er þetta orðalag rökleysa. Hér er hins vegar á ferðinni einstaklingsbundin birtingarmynd víðtæks vandamáls (ekki bara siðferðislegs) og varla ástæða til að reikna með að viðkomandi einstaklingur taki stakkaskiptum þótt hann vandi sig eitthvað betur við að fela slóðina eftirleiðis. Því er það KJ sjálf sem smættar, með því að láta málið líta þannig út að mál BB snúist um “einstakt siðferðislegt álitamál”. Og furðulegur barnaskapur að halda að margumræddur einstaklingur taki þátt í djúptækum kerfisbreytingum af einlægni og áhuga. Ætli kjarni ríkisstjórnarsamstarfsins birtist ekki einmitt í þessu?“

Guðspjall Katrínar

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins tekur í svipaðan streng, en teygir sig til himna í trúarbrögðin:

„Samkvæmt þessu telur Katrín Jakobsdóttir að stjórnmálamaður verði aldrei vanhæfur fyrir ósiðlegt athæfi þar sem hún „er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál“. Katrín vill ræða um hið vonda kerfi en ekki hina vondu menn. Hún talar eins og Jesús, sem hataði syndina en elskaði syndarann. Það er fagnaðarerindið, að allir eigi skilið fyrirgefningu þar sem við erum öll föst í hinu breysklega mannlega eðli. Í pólitík mætti orða það svo að við værum öll lokuð innan hins grimma kapítalisma og því dæmd til mótsagna og að í mörgu að styðja við hið illa kerfi.“

Gunnar segir orð Katrínar ekki standast stjórnmálalegt siðferði:

„En eins og Marteinn Lúther benti á að við verðum líka að styðjast við lögmálið, þótt fagnaðarerindið hafi uppfyllt það. Lúther benti á að aldrei væri klókt að gera fagnaðarerindið að lögreglustjóra. Þótt við fyrirgefum einstaklingum þá merkir það ekki að við leysum upp allan sið, lög og reglur, við getum fyrirgefið misindismönnum í hjarta okkar en við verðum eftir sem áður að refsa þeim til að halda uppi lögum og reglum innan hins formlega samfélags millum okkar. Þess vegna er það svo í vestrænum stjórnmálum að stjórnmálamenn verða að bera ábyrgð gjörða sinna og segja af sér ábyrgðarstörfum fyrir almenning þegar fram koma upplýsingar sem sýna að þeir hafi freklega brotið gegn almannahag í fyrri störfum sínum. Um þetta hefur ríkt almenn sátt um hinn vestræna heim, þar til Katrín kemur með sitt guðspjall, sem ég held að standist hvorki klassíska guðfræði né stjórnmálalegt siðferði. Það dettur engum í hug að gera fjárglæframann, mann sem skrældi banka innan frá svo fjármálakerfið hrundi yfir almenning; að gera slíkan mann að fjármálaráðherra í nafni þess að það sé ekki syndarinn sem er andstæðingurinn heldur syndin sjálf. Og spyrja má: Ef þetta gildir um Bjarna, gildir þetta þá ekki um alla menn? Til hvers sagði Sigmundur Davíð af sér eða Hanna Birna, Júlíus Vífill eða Guðmundur Árni? Var þetta fólk nokkuð annað en þátttakendur í hinu illa kerfi?“

Fyrirsjáanlegt „löglegt en siðlaust“ svar

Björn Leví Gunnarsson segir svar Katrínar hafa verið fyrirsjáanlegt og klassískt:

„Fyrirsjáanlegt svar. Gott svar og að mestu leyti rétt svar. Gott svar er ekki nauðsynlega rétt svar í stjórnmálum því miður.

Þarna er forsætisráherra að viðurkenna að þrátt fyrir allt, þá var tekin upplýst ákvörðun um að gera Bjarna að fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar. Einmitt þrátt fyrir þessar upplýsingar, sem eru þá líklega ekki nýjar fyrir forsætisráðherra.

Það er nefnilega ekki alveg það sama og að segja að ekki hafi allar upplýsingar legið fyrir, en þrátt fyrir ný gögn þá sé samstarfið óbreytt. Það sem forsætisráðherra er að segja er að þau hafi vitað um öll atriði þessa máls áður en ríkisstjórnin var mynduð.

Það væri áhugavert að vita hvort eitthvað geti haft áhrif á þetta samstarf, ef þetta gerir það ekki. Ef Landsréttarmálið gerir það ekki. Ef barnaverndarmálið gerir það ekki. Er þetta ríkisstjórnarsamband ónæmt fyrir hverju sem er? Er sambandið mikilvægara en hvað sem er?

Þetta svar er klassískt „en þetta var ekki ólöglegt“ afsökun. Löglegt en siðlaust, miðað við svarið … og það er bara í fína lagi. Þetta er ekki beint besta leiðin til þess að byggja upp traust sko. Þetta væri mögulega lögleg afsökun ef þessar upplýsinga hefðu legið frammi fyrir kosningar ásamt viðurkenningu á að þetta væru óeðlileg viðskipti fyrir þingmann. Viðurkenningin skiptir miklu máli nefnilega. Án hennar liggur ekki fyrir viðurkenning á sekt mtt. siðferðis. Það er nauðsynlegt til þess að það sé hægt að segja að umboð hafi verið endurnýjað í kosningum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega