fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Davíð er ekki hrifinn af styttingu vinnuvikunnar

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 20. október 2018 15:05

Davíð Oddsson, hættir sem ritstjóri Morgunblaðsins á árinu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, er ekki hrifinn af hugmyndum BSRB um styttingu vinnuvikunnar. Líkt og Eyjan greindi frá í vikunni kemur fram í skýrslu sem Anna Soffía Víkingsdóttir og Arnar Þór Jóhannesson hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri unnu fyrir BSRB að stytting vinnuvikunnar hafi almennt haft jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan starfsmanna, gerir starf á vinnustöðum markvissara og dregur úr veikindum. Ekkert í skýrslunni bendir til þess að einhver neikvæð áhrif séu af styttingu vinnuvikunnar.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem er að öllum líkindum skrifað af Davíð, segir að það sé furðulegt að stytting vinnuvikunnar hafi ekki verið gerð fyrir löngu fyrst það sé svona jákvætt.

„Ekkert kom fram í þessum rannsóknum sem benti til að almenningi myndi verða veitt minni þjónusta af hálfu opinberra starfsmanna með 35 stunda kerfinu en nú er veitt í 40 stunda kerfinu, sem er auðvitað frábært,“ segir Davíð.

„Þá stendur að vísu eftir spurningin um hina. Hverja? Þá sem standa undir sköttunum sem nú eru notaðir meðal annars til að greiða opinberum starfsmönnum laun. Þar sem launin eiga að vera óbreytt með færri unnum vinnustundum hjá opinbera kerfinu þá hljóta hinir sömu að taka að sér að greiða hærri skatta eða þá að fjölga þeim vinnustundum sem þeir vinna á hverri viku, og þá væntanlega við óbreytt laun svo dæmið gangi upp.“

Dregur hann í efa að það gangi upp að greiða fólki sömu laun fyrir styttri vinnutíma, ef launin lækka þá gæti það haft áhrif á hvað fólk getur gert við frítímann: „Sjálfsagt hefur það verið rannsakað hvaða áhrif þetta myndi þá hafa á tíma þess fólks til að elda sér hollan mat, vera með börnunum sínum eða hvort hugsanlegt sé að það fólk yrði þá að sleppa einhverjum uppbyggilegum námsskeiðum eða hlaupa eitthvað styttri vegalengdir en hinir opinberu starfsbræður þeirra og systur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt