Jón Stein­ar Gunn­laugs­son skrifar:
Fyr­ir nokkr­um dög­um barst mér vitn­eskja um að fjallað hefði verið all­mikið um óverðuga per­sónu mína á lokuðu vefsvæði á Fas­bók. Svo er að sjá sem Sól­ey Tóm­as­dótt­ir, fyrr­ver­andi for­seti borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur, hafi staðið fyr­ir stofn­un þessa svæðis. Það er nefnt „Karl­ar gera merki­lega hluti“. Yf­ir­skrift Sól­eyj­ar á svæðinu er eft­ir­far­andi:„Regl­ur hóps­ins:

1. Þetta er ör­uggt svæði fyr­ir kon­ur (og ör­fáa karla) til að hæðast að feðraveld­inu. Óheim­ilt er að dreifa eða birta efni hóps­ins að hluta til eða í heild og fjöl­miðlum er óheim­ilt að fjalla um það sem hér fer fram.

2. Hér eru birt­ar frétt­ir og mynd­ir úr um­fjöll­un um merki­lega karla að gera merki­lega hluti (ekki skjá­skot af sam­töl­um, póst­um eða al­menn kven­fyr­ir­litn­ing – það eru til aðrir hóp­ar fyr­ir slíkt).

3. Rök­ræður eru ekki leyfðar. Þetta er sem áður seg­ir ör­uggt svæði fyr­ir kon­ur þar sem eng­in á að þurfa að rök­styðja eða út­skýra það sem átt er við. Rök­ræður eru fín­ar en eiga heima í öðrum hóp­um.“

Ég aflaði mér aðgangs að svæðinu í því skyni að kynna mér hvað um mig hefði verið sagt. Þá kom í ljós að ekki höfðu verið gerðar við mig nein­ar gælur. Greini­legt var að rit­höf­und­ar síðunn­ar báru þung­an hug til mín og hra­kyrtu mig á marga vegu. Hvergi var samt að finna minnsta rök­stuðning fyr­ir þess­um málstað.

Ill­fygliskarla­gerpi

Á svæðinu sá ég meðal ann­ars eft­ir­far­andi um­mæli um mig:Maggý Helga Jó­hanns­dótt­ir Möller: „Megi hann fokka sér. Viðbjóður.“

Heiða Hrönn Sig­munds­dótt­ir: „Hví­líkt ógeð sem þetta kvik­indi er.“

Krist­ín Krantz: „Jón Stein­ar get­ur hoppað upp í rass.“

Und­ir þetta tóku Mar­grét Ágústs­dótt­ir: „og tekið hina kall­ana með sér, hann kæmi nokkr­um fyr­ir þar með sér“ og einnig Nína Vig­dís­ar­dótt­ir Björns­dótt­ir.

„Örugg­lega enda bú­inn að vera með haus­inn þar svo árum skipt­ir.“

Þór­laug Borg Ágústs­dótt­ir: „Mig minnti að þessi gaur væri fá­viti. Það er al­veg rétt munað.“

Stein­unn Þor­gerðar Friðriks­dótt­ir: „Hver önn­ur ætl­ar að skála í kampa­víni þegar þetta ill­fygliskarla­gerpi hrekk­ur upp af, meina Jón Stein­ar.“

Mig rak eig­in­lega í rogastans þegar ég sá þetta. Ég hef reynt að viðhafa þá aðferð í líf­inu að horf­ast í augu við það sem hend­ir mig og reyna að graf­ast fyr­ir um or­sak­ir þess ef fólk bein­ir að mér skeyt­um. Ég reyndi því að ná sam­bandi við ein­hvern rit­höf­und­anna til að bjóða þeim að hitta þá á fundi til að ræða af­stöðu þeirra til mín og or­sak­ir henn­ar. Það var til dæm­is ekki úti­lokað að ég hefði gert eitt­hvað af mér sem hefði fram­kallað þessa óskemmti­legu af­stöðu, en bara ekki áttað mig á því sjálf­ur.

Mér tókst að ná tali af Maggý Helgu Jó­hanns­dótt­ur Möller. Fyrst kvaðst hún ekki muna eft­ir um­mæl­um sín­um og held­ur ekki hópn­um sem hýst hefði um­mæl­in. Ég hafði ekki sett á mig nafn hóps­ins og vissi ekki hvenær rit­höf­und­ur­inn hafði viðhaft um­mæli sín. Viðmæl­andi minn var sýni­lega að reyna að draga svör sín á lang­inn, lík­lega vegna þess að hann hef­ur átt erfitt með að forma þau. Kon­an kom því samt frá sér að mér kæmi ekki við hvað sagt væri um mig í þeirra hópi! Endaði sam­tal okk­ar með því að hún skellti á mig sím­an­um.

Nú hófst ný bylgja at­huga­semda um mig á svæðinu góða. Nú var svo að sjá sem ég hefði beitt of­beldi með því að hringja til að óska eft­ir að fá að hitta þetta hat­urs­fólk mitt.

Guðlaug María Páls­dótt­ir sagði þetta vera „of­beld­is­manna­legt“ og síðar að þetta væri „mjög basic of­beld­is­manna stjórn­un­ar­hegðun“.

Hild­ur Ósk: „Ojjj. Þetta er óhugn­an­leg hegðun hjá óhugn­an­leg­um manni.“

Jó­hanna Mar­grét­ar­dótt­ir: „Hann er fáv… (og ör­ugg­lega með ein­hverj­ar beina­grind­ur inni í sín­um skáp).

Vikt­oría Júlía Lax­dal og Krist­ín Johan­sen gerðu við mig gælur sem fólust í að kalla mig „kríp“. Elín Jakobína sagði „hversu kríp“.

Jón Thorodd­sen: „Jón Stein­ar er drullu­sokk­ur. Vona að þetta ber­ist.“

Hild­ur Lilliendahl Viggós­dótt­ir taldi mig „þurfa al­var­lega að fokka“ mér. Ég hefði „of­sótt kon­ur með sím­tal­inu“. Og einnig: „Hann hef­ur ekki rass­gat og þessi kúg­un­ar­taktík er svo ódýr og sorg­leg.“

Vilja ekki bera ábyrgð á sjálf­um sér

Svo sé ég að Sól­ey, fyrr­ver­andi for­seti, hyggst nú efna til „empower­ment“ fund­ar til að bregðast við árás (?) minni. Ætli þetta sé ekki ein­hvers kon­ar „hópefli“ sem hef­ur þann til­gang að forða þeim óskunda að þátt­tak­end­ur þurfi að finna rök­semd­ir fyr­ir af­stöðu sinni og taka ábyrgð á henni?Nú eiga sér stað umræður um hvort heim­ilt hafi verið að reka lektor frá Há­skól­an­um í Reykja­vík fyr­ir orð sem hann lét falla um sam­skipti karla og kvenna á lokuðu vefsvæði utan skól­ans. Um það fjallaði hann með al­menn­um hætti án þess að nafn­greina til­tekn­ar per­són­ur. Mér er ekki grun­laust um að sum­ir rit­höf­und­arn­ir sem nefnd­ir eru að fram­an hafi talið brottrekst­ur lektors­ins rétt­læt­an­leg­an. Ætli þeir leggi sjálf­ir fyr­ir sig eitt­hvað sem rétti­lega mætti kalla hat­ursorðræðu?

Það er mín­um dómi hroll­vekj­andi að fá að líta inn í hug­ar­heim þeirra sem hér hafa talað til mín. Þetta er fólk sem greini­lega kýs að taka enga ábyrgð á skoðunum sín­um og tján­ingu jafn­vel þó að ein­hverj­ar þúsund­ir manna hlusti á. Og þeim sem for­mæl­ing­arn­ar bein­ast að kem­ur ekki við hvað um hann er sagt!

Ég end­ur­tek áskor­un mína til þessa fólks um að mæta mér á opn­um fundi til að ræða við mig um þenn­an óhugn­an­lega mann og aðferðirn­ar sem það hef­ur notað til að úthúða hon­um án þess að bera ábyrgð á því. Fund­inn verður að halda áður en kampa­víns­veisl­an verður hald­in því ég mun ekki fá tæki­færi til að tjá mig neitt á þeirri hátíðar­stundu. Tján­ing­ar­frelsi mínu lýk­ur nefni­lega við and­látið.

Höf­und­ur er lögmaður.