fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Æsingur í Efstaleiti: „Ég ber ábyrgð“ – „Núna er einhver snitselumræða í gangi!“

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 18. október 2018 09:35

Hrólfur Jónsson, Sigmar Guðmundsson og byggingarnar á Nauthólsvegi 100. Samsett mynd/DV/Skjáskot af Vimeo

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það voru vægast sagt heitar umræður þegar Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar, mætti til að ræða um Braggablúsinn svokallaða í Morgunútvarpinu á Rás 2 í Efstaleiti í morgun. Ekki var um ræða neitt drottningarviðtal og hikaði Sigmar Guðmundsson þáttastjórnandi ekki við að spyrja Hrólf erfiðra spurninga.

Hrólfur var stjórnandi hjá Reykjavíkurborg í rúma þrjá áratugi og var skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar þegar verkefnið á Nauthólsvegi 100 var kynnt með pompi og prakt haustið 2015. Sama ár gerði verkfræðistofan Efla kostnaðaráætlun þar sem kom fram að heildarkostnaðurinn yrði mest um 158 milljónir króna. Nú þremur árum síðar er kostnaðurinn kominn yfir 400 milljónir. Hrólfur lét af störfum fyrr á þessu ári. DV hefur í vikunni birt reikninga úr bókhaldi Reykjavíkurborgar sem varpa ljósi á hvað Reykjavíkurborg hefur verið að greiða fyrir í tengslum við verkefnið.

Sjá einnig: DV birtir allt braggabókhaldið

Verkið fór ekki í útboð, reikningarnir sem DV hefur birt sýna að verkefnið hófst í kringum áramótin 2015-2016. Málið er nú til rannsóknar hjá innri endurskoðun borgarinnar. Hrólfur segir að kjörnir fulltrúar hafi ekki vitað um framúrkeyrsluna á verkefninu fyrr en í ágúst á þessu ári, hann beri ábyrgð á því. Spurði þá Sigmar:

Þú ert að segja það að enginn kjörinn fulltrúi veit neitt um málið frá þessum 150 milljónum…

Hrólfur: „Já. Þannig er það. Og það mun rannsókn innri endurskoðunar leiða í ljós.“

Er þá ekki eitthvað að í borgarkerfinu þegar 300 milljónir eru farnar út án heimilda? Vissu þeir ekkert fyrir það?

„Það var lögð fram verkstöðuskýrsla síðustu áramót…“

Er það í fyrsta skipti sem kjörnir fulltrúar vita um þetta?

„Það alveg fyrir að verkinu var ekki lokið og það fór ekki inn tala í fjárfestingaráætlunina. Það voru mistök sem voru gerð á minni skrifstofu og ég ber ábyrgð á því.“

Tóku ábyrgð með fjárfestingaráætlun

Sigmar: Getur þú setið hér og sagt að þú berir alla ábyrgð og þeir enga? Meirihlutinn hlýtur alltaf að bera einhverja ábyrgð á þessu.

Stráin í Nauthólsvík. Þau kostuðu borgarbúa meira en milljón. DV/Hanna

Hrólfur: „Já já. Auðvitað taka þeir ábyrgð á þessu. Þeir gerðu það með því að samþykkja fjárfestingaráætlun í ágúst. Það að fara svona fram úr það lá alveg ljóst fyrir að hann hafði ekki upplýsingar um það.

Af hverju ekki, á hann ekki að hafa upplýsingar um það? Þetta eru 2-300 milljónir. Er hægt að segja að borgarstjóri hafi ekkert vitað og hann sé bara stikkfrí? Þetta er svo háar tölur, þó þær séu ekki háar í stóra samhengi borgarsjóðs.“

„Þú talar alltaf um tvö-þrjúhundruð milljónir. Það er ekki svo mikið sem við fórum fram úr.“

Þegar þessi fundur er þá er búið að fara fram yfir og það er búið að bætast við síðan þá.

„Já.“

Þú átt að láta vita eða þeir að spyrjast fyrir.

„Já, þeir að spyrjast fyrir.“

Verkefnið var kynnt með pomp og prakt, fjölmiðlar kallaðir til og borðar klipptir.

„Ég bið bara fólk um að það leyfi innri endurskoðun að fara yfir þetta mál og þá kemur í ljós hvernig þetta þróaðist. Þetta gerist ekki í einni ákvörðun. …Ég var lengi í slökkviliðinu, þú mætir á eldstað og veist ekki neitt. Það eru þrjár hurðir og þú þarft að fara inn um einhverja þeirra. Þú getur ekki annað.“

Starfsfólki borgarinnar líður illa

Hrólfur segir að það sé aðeins vegna þess að hann starfi ekki lengur hjá Reykjavíkurborg sem hann geti komið og rætt um málið, hann er alls ekki sáttur við umræðuna og segir að starfsfólki Reykjavíkurborgar líði illa.

Hrólfur: „Það er þannig að þessi pólitíski slagur sem er núna í gangi í Reykjavíkurborg hefur gríðarlega slæm áhrif á starfsfólk Reykjavíkurborgar og það á mjög erfitt með að verja sig vegna þess að um leið og það gerir það að þá er því um leið borið það á brýn að það sé að draga taum einhverra stjórnmálamanna. Ég er hættur störfum og því get ég komið hér.“

Sigmar sagði að þó svo að Hrólfur talaði um pólitískan hráskinnaleik þá væri það starf kjörinna fulltrúa að hafa aðhald með meirihlutanum til að koma í veg fyrir svona mistök. „Eigum við að múlbinda þá vegna þess að einhverjum embættismönnum líður illa?“

„Ég er alls ekki að tala um það. Þetta er aðhaldshlutverk en þú verður alltaf að bera virðingu fyrir fólki þó þú stillir þér upp í aðhaldshlutverk.“

Hver gerir það ekki?

„Ég ætla ekkert… þú verður bara sjálfur að leggja mat á það.“

Það er klúður þetta verkefni, það er bara þannig.

„Það er ekkert endilega víst!“

Sigmar: Allur þessi peningur framúr, auðvitað er þetta klúður. Það er voða einfalt fyrir mig sem fréttamann að sitja hérna og segja að það sé klúður þegar farið er svona illa með  fé skattborgaranna.

Hrólfur: „Það eru gerð mistök sem eru fyrst og fremst út af því að það er ekki óskað heimilda. En það er ekkert víst að… Fólk gerir mistök, það er bara þannig.“

Finnst þér að minnihlutinn hafi farið offari í aðhaldshlutverki sínu?

„Já, mér finnst það. Það á segja sem svo að þessi framkvæmd, þó það hafi ekki verið meiningin, að hún sé saga stríðsins. Auðvitað færðu Íslendingar fórnir og urðu vissulega ríkir, í þessu verkefni er verið að fórna fólki en eftir standa glæsileg mannvirki.“

Hvaða fólki er verið að fórna?

„Starfsfólki Reykjavíkurborgar, sem er verið að saka um….“

Þetta hlýtur að vera eðlileg umræða Hrólfur að fara svona í gengum málið. Ert þú ekki bara að stilla þér upp með meirihlutanum sem ber ábyrgð á málinu?

„Nei nei. Ég er ekki að gera það. Ég er að reyna að útskýra það að það voru gerð ákveðin mistök. Það er búið að leggja það í hendurnar á innri endurskoðun að fara yfir það mál. Og af hverju?! Af hverju getum við ekki beðið með að fá þá niðurstöðu um hlutina eins og þeir eru á uppbyggilegan hátt og reynt að læra af þeim. Þú hlýtur að sjá það Sigmar… Það hefur aldrei verið talað um hús til dæmis. Það er talað um bragga. Það hefur verið hlegið að fólki fyrir að kaupa þessi strá. Fólk veit ekkert hvað er á bak við þessi strá. Núna er einhver snitselumræða í gangi. Finnst þér þetta uppbyggileg umræða?!“

Setti þá Sigmar punkt á viðtalið. Hér má hlusta á það í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins