fbpx
Föstudagur 18.janúar 2019
Eyjan

Trump drekkur diet-kók með látnum og lifandi forsetum

Egill Helgason
Mánudaginn 15. október 2018 21:22

Þeir sem ná að gægjast inn í Hvíta húsið hafa komið auga á að þetta málverk hangir þar inni, rétt við skrifstofu forsetans sjálfs. Myndin er eftir málara sem heitir Andy Thomas – hann er þekktari fyrir að mála myndir af kúrekum. En Donald Trump mun vera hæstánægður með þessa mynd, ekki síst hvernig hann lítur sjálfur út á henni.

Annars sýnir myndin Trump við drykkju ásamt fyrrverandi forsetum Bandaríkjanna sem sumir eru látnir, aðrir lifandi. Sá elsti er Abraham Lincoln sem snýr reyndar baki í áhorfandann. Hann virðist líka vera með vatn í glasi. Svo er það Teddy Roosevelt – sá sem sagði auðhringum stríð á hendur. Teddy dó í janúar 1919, fyrir næstum hundrað árum.

Síðan eru það forsetar síðari tíma. Kylfingurinn Eisenhower í golftreyju og með viskí í glasi, sýnist manni. Richard Nixon virðist óvenju slakur – hann var ekki beint þekktur fyrir það – með rauðvínsglas. Gerald Ford, eini forseti Bandaríkjanna sem var aldrei kosinn, stendur álengdar með krosslagðar hendur og brosir, hefur ekki mikið til málanna að leggja.

Við sjáum að Ronald Reagan í blárri skyrtu er lífið og sálin í partíinu. Hann er mjög afslappaður og virðist vera með kokkteil í glasinu. Bush-feðgarnir, George Herbert og George Walker, eru þarna, báðir í jökkum en bindilausir. Bush yngri virðist hálf hissa að vera þarna – það er reyndar sagt að hvorugur feðganna myndi láta sér til hugar koma að setjast við borð með Trump.

Svo er það núverandi forseti. Eins og áður segir er hann mjög hrifinn af þessari mynd, annars myndi hún varla hanga uppi í Hvíta húsinu. Hann er með diet-kók í glasi. Hann er kominn úr jakkanum og virkar stæltur í hvítri skyrtu og með rautt bindi. Hárið – eins skrítið og það er jafnan – er slétt og fellt. En málarinn hefur sleppt því að stækka hendurnar á forsetanum – þær eru smáar eins og í raunveruleikanum.

Forsetarnir á myndinni eru allir úr flokki Repúblikana. Aftar má sjá fleiri forseta sem komast þó ekki nálægt borðinu með veisluföngunum eins og til dæmis Calvin Coolidge og Warren G. Harding. Svo er þarna ein kona á myndinni. Það er ekki vitað hver hún er, hingað til hefur kona hvorki verið forseti Bandaríkjanna né varaforseti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum