fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Björgvin G: „Neyðarástand var að bresta á og menn gátu ekki leyft sér að hugsa um neitt annað en hvernig mætti best verja þjóðina“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 11. október 2018 19:00

Björgvin G. Sigurðsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar, hefur að undanförnu birt kafla úr bók sinni Storminum, sem kom út árið 2010 og fjallaði um aðdraganda hrunsins. Nú fjallar hann um daginn sem neyðarlögin voru sett:

(Millifyrirsagnir eru Eyjunnar)

8. kafli.

Er þá allt tapað?

„Neyðarlagadeginum gleyma líklega fáir Íslendingar sem komnir eru á legg. Mánudagurinn 6. október 2008. Ein helsta niðurstaða fundahalda undangenginnar helgar var umfangsmikil lagasetning, svokölluð neyðarlög sem byggðust á frumvarpsdrögum sem Fjármálaeftirlitið hafði undirbúið, en fáir vissu af.

Vorið 2008 var þegar hafin vinna Fjármálaeftirlitsins og viðskipta- og fjármálaráðuneyta við að undirbúa viðbrögð með lagasetningu ef til þess kæmi að fjármálakreppan harðnaði. Fyrir kerfishruni óraði engan þá, en nú kom sá undirbúningur sér vel.

Stærstur hluti laganna heyrði undir viðskiptaráðuneytið en hluti undir fjármálaráðuneytið. Þegar málið tók á sig mynd frumvarps til laga þennan mánudag var því um svokallaðan bandorm að ræða, frumvarp sem náði yfir mörg málasvið. Þar með var eðlilegt að forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpinu á þingi, en ekki fagráðherra viðskipta eða fjármála. Þannig er hefðin með mikilvæga lagabandorma.

Geir lagði samt til að ég flytti frumvarpið og mælti fyrir því. Öðrum ráðherrum sem þátt tóku í aðdragandanum þótti það ekki rétt. Um væri að ræða svo stórt og afdrifaríkt mál að ekki væri tækt annað en að forsætisráðherra sjálfur mælti fyrir því. Sjálfur var ég til í að flytja málið, en Össuri þótti fráleitt að láta ungan fagráðherra um þessa pólitísku sprengju sem hann auðvitað skynjaði að gæti verið stórhættuleg. Þú flytur þetta mál, Geir, sagði hann ákveðinn. Annað er ekki sæmilegt. Þetta eru neyðarlög og allt getur farið á annan endann, bætti hann við.

Niðurstaðan var sú að Geir flutti frumvarpið, en fyrst var komið að honum að ávarpa þjóðina í beinni útsendingu.

Guð blessi Ísland

Atgangurinn og spennan í þinghúsinu var mikil. Fjölmiðlar lágu auðvitað ekki á heimsendaspádómum eins og efni stóðu til miðað við stígandina í hörmulegri atburðarás. Fæstir vissu hvað var nákvæmlega að gerast og ennþá síður hverjar afleiðingarnar yrðu.

Þingflokkur Samfylkingarinnar var að mestu samankominn í þingflokksherberginu á meðan Geir flutti ávarp sitt í sjónvarpinu. Hann talaði ekki beint út um hvaða banki væri að falla né með hvaða afleiðingum. Mörgum þingmönnum fannst hann of óskýr og menn supu hveljur yfir því að forsætisráðherra notaði orðið þjóðargjaldþrot í ávarpinu. Engum okkar hafði til hugar komið að þjóðargjaldþrot væri hugsanlegt. Fyrir þetta var hann gagnrýndur í þingflokknum dagana á eftir.

Kjarninn í ávarpi Geirs var þessi:
„Sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot. Engin ábyrg ríkisstjórn teflir framtíð þjóðar sinnar í slíka tvísýnu, jafnvel þótt sjálft bankakerfi þjóðarinnar sé í húfi. Til slíks höfum við, ráðamenn þjóðarinnar, ekki leyfi. Íslenska þjóðin og framtíð hennar gengur framar öllum öðrum hagsmunum.“

Á þessum tímapunkti trúðu flestir því enn að Kaupþing ætti möguleika á því að standa storminn af sér og allt væri til þess vinnandi enda var umfang þess banka um helmingurinn af af fjármálakerfi landsins. Til marks um hversu mikið var lagt upp úr því að verja stærsta bankann og þann sem álitinn var hvað traustastur lánaði Seðlabankinn honum 500 milljónir evra daginn í upphafi neyðarlagavikunnar.

Sumir þingmannanna áttu erfitt með að leyna tilfinningum sínum undir ávarpi forsætisráðherra enda blandaðist engum hugur um þau þáttaskil sem þarna urðu. Margir óttuðust auðvitað að afleiðingarnar yrðu enn verri en raunin varð þegar frá leið. Sérstaklega tóku tröllasögur um afdrif lífeyrissjóðanna á fólk, en þá gekk fjöllunum hærra að þeir myndu meira og minna hrökklast í þrot við fall bankanna.

Neyðarlagafrumvarpið

Svo var komið að flutningi neyðarlagafrumvarpsins. Ég talaði þar fyrir hönd Samfylkingarinnar og mér þótti mestu skipta að sýna rósemd og yfirvegun, tala beint til fólks og á mannamáli um hvað væri að gerast og hvað væri í vændum. Segja afdráttarlaust að sparifé yrði varið takmarkalaust og allt gert til að takmarka beint tjón almennings í þessum hamförum. Á þetta lagði ég áherslu í ræðu minni í þinginu þetta sögulega síðdegi.

Enginn tími gafst til þess að skrifa nákvæma ræðu. Ég krotaði hjá mér nokkra punkta, Össur rétti mér í þingsalnum pár á miða með fínum setningum þar sem m.a. stóð að ekki væri útilokað að einhver bankanna hefði burði til að rífa sig í gegnum óveðrið. Jónína ráðuneytisstjóri hafði hraðað sér niður í þinghús til að vera mér til halds og trausts. Hún rétti mér ágætt innslag í ræðuna rétt í þann mund sem ég steig í stólinn. Ég flutti síðan ræðuna af munni fram upp úr þessum hráu punktum.

Þetta var upphaf dæmalausra daga þar sem lítill tími gafst í atganginum til annars en að halda ró sinni. Ganga fram af öryggi og gera sitt besta. Það sem mestu skipti var að fara ekki á taugum við þessar aðstæður og standa fast í fæturna. Næstu dagar voru hver öðrum ótrúlegri og lífsreynsla var þetta svo sannarlega engu lík. Aldrei hvarflaði að mér að þátttaka mín í stjórnmálum ætti eftir að leiða mig inn í atburðarás af þessu tagi. Hefði örlað á því í huga mér þegar Margrét Frímannsdóttir hringdi í mig áratug fyrr til Írlands, þar sem ég var í meistaranámi í stjórnmálaheimspeki til að biðja mig um að taka þátt í fyrsta framboði Samfylkingarinnar á Suðurlandi, efast ég um að svarið hefði verið já. En nú brann eldurinn á mér og þá var bara að standa sig.

Það er ágætt til að glöggva sig á aðstæðum og andrúminu sem ríkti þennan dag að lesa neyðarlagaræður okkar sem þær fluttu. Án efa var þetta mikilvægasta ræða sem ég hef flutt á ævinni, en líklega hef ég aldrei verið æðrulausari en þegar ég gekk í ræðustól Alþingis þetta þungbúna síðdegi.

Verðum að vinna úr stöðunni

Í styttri útgáfu var þetta kjarninn í ræðunni og ég leyfi mér að feitletra á tveimur stöðum:

„Virðulegi forseti. Engum okkar sem sleitulaust höfum staðið í miklu og ólýsanlegu ati síðustu sólarhringana munu nokkurn tímann, frekar en öðrum Íslendingum sem nú eru að heyra fréttirnar, líða úr minni þeir dagar og sólarhringar sem að baki eru — sú staða sem upp er komin og varð ekki fyllilega ljós fyrr en líða tók á daginn í gær…

En við horfum núna á fordæmislausar efnahagslegar hamfarir ríða yfir heimsbyggðina og í umræðum síðustu vikna voru notaðar samlíkingar við heimskreppuna miklu 1929 og 1930. Nú eru menn farnir að leita enn aftar þegar horft er til þess fordæmislitla gjörningaveðurs sem nú geisar yfir fjármálastofnanir og fjármálakerfi heimsins, og fellir nú banka tugum saman um allan heim.

Þessir atburðir á alþjóðamörkuðum hafa leitt okkur inn á þann örlagadag sem við lifum nú, Íslendingar, þegar við stöndum frammi fyrir því sem við höfum lengi vitað að hlutfallsvandi á milli banka og samfélags getur skapað aðstæður sem nú eru upp komnar þó að enginn maður hafi haft hugmyndaflug til að ímynda sér að aðstæður yrðu svo alvarlegar sem þær eru núna.

Laust fé þurrkast upp, vantraust á mörkuðum er algjört. Allt var gert um helgina til að leita leiða, og þá meina ég allt, til að bankarnir, þeir sem verst munu standa, komi sér út úr þessum aðstæðum. En við getum ekki teflt þjóðinni sjálfri í tvísýnu í þeim aðgerðum, það liggur bara þannig fyrir. Það þekkja það allir að við búum við takmarkaðan forða, við erum lítil og fámenn þjóð og getum ekki þegar á reynir teflt á tæpasta vað með þá hagsmuni og peninga almennings.

Staða fjármálakerfisins er þessi: Lánalínur lokast og lindir fjármagns þorna upp og við verðum að vinna úr þeirri stöðu. Á þessu augnabliki sem við stöndum hér í þinginu og samþykkjum og vinnum að neyðarlögunum sem hér eru samþykkt — róttækari lögum en þingið hefur áður fjallað um og farið með í gegn — erum við að sjálfsögðu að hefja upphaf að endurreisnarstarfi, að endurreisn fjármálakerfis okkar. Um er að ræða víðtækar valdheimildir til að endurskipuleggja fjármálakerfið og fyrst og fremst, ef aðstæður verða alvarlegri, að koma í veg fyrir að bankarnir loki, greiðslukerfið frjósi eða hrynji og verði ekki virkt.

Meginmarkmiðin í frumvarpinu, fyrir utan hinar víðtæku og yfirgripsmiklu heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja, eru að tryggja hagsmuni íslensks almennings, tryggja almannahagsmuni og fjármálalegan stöðugleika, tryggja hann og endurreisa. Megininntakið í þessu er það sérstaklega að við höfum lýst því yfir fortakslaust, að við höfum lýst því yfir að allar innstæður í íslenskum bönkum á Íslandi eru tryggðar að fullu og án hámarks. Enginn þarf að óttast um innstæður sínar. Það er algjörlega á hreinu, því hefur margoft verið lýst yfir og hæstvirtur forsætisráðherra rakti það enn og aftur í ávarpi sínu hér í kvöld. Þá er lagt til að innstæður verði forgangskröfur við gjaldþrotaskipti sem er mjög mikilvægt ákvæði…“

Hrós frá Árna Johnsen

Síðar um kvöldið kallaði Árni Johnsen mig afsíðis í þinghúsinu og sagði að þarna hefði ég flutt bestu ræðu ævi minnar og þá mikilvægustu. Fólkið skildi hvað þú varst að segja og þú náðir að hamra inn mikilvægustu atriðin til þess að draga úr óttanum, sagði Árni. Með sína miklu þingreynslu og innsýn skynjaði hann eins og aðrir af hinum reyndari þingmönnum hvers konar tímamót það voru að setja neyðarlög til þess að þjóðnýta innlenda starfsemi bankanna.

Stjórnarandstaðan greiddi fyrir lagasetningunni enda duldist engum að um neyðarráðstafanir var að ræða sem þoldu ekki nokkra bið. Vinstri grænir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna og til meira en þess var ekki hægt að ætlast. Framsókn greiddi hins vegar atkvæði með neyðarlögunum enda var þeim málið skylt. Efnahagsundur einkavæðingar og útrásar, sem þeir tóku þátt í að hrinda af stað nokkrum árum áður, var nú að hruni komið með tilheyrandi ágjöf fyrir fólkið í landinu.

Lengi má deila um hvaða leiðir ríkisstjórnir eiga að fara við þessar aðstæður. Það var ekki mögulegt fyrir okkur að fara leið stóru þjóðanna sem settu fé inn í bankana, ábyrgðust þá og héldu þeim gangandi. Annaðhvort var að láta þá falla með tilheyrandi tjóni, lömun í samfélaginu og tapi sparifjáreiganda eða stofna nýja á grundvelli neyðarréttar þjóðar, taka innlendu starfsemina yfir og gera gömlu bankana upp með samkomulagi við kröfuhafa.

KR kempa barðist við tárin

Andrúmsloftið í þingsalnum var engu líkt. Fæstum duldist að afdrifaríkir atburðir gengu nú yfir. Flestum hafði að auki verið ljóst um nokkra hríð að hið falska góðæri var á enda og erfitt var að lenda mjúkt eftir það himinskautaflug. Alvaran skein úr hverjum svip í salnum.

Á meðan ég flutti ræðu mína horfði ég, eins og maður gerir gjarna þegar talað er blaðlaust, á svipaðan stað aftast í salnum. Þar sat höfðinginn Ellert B. Schram, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en nú einn langreyndasti og öflugasti þingmaður Samfylkingarinnar, sem naut mikillar virðingar á meðal samþingmanna. Mikill tilfinningamaður, Ellert, réttlátur og sanngjarn, og hefur lifað tímanna tvenna í pólitík.

Ég sé hann enn fyrir mér þar sem hann sat undir ræðu minni fjærst í salnum, virðulegur, silfurhærður stjórnmálamaður sem fyrst kom í sali Alþingis árið 1971, hátt í fjórum áratugum fyrir þessa atburði. Honum var bersýnilega mjög brugðið. Fáir þingmenn Samfylkingar höfðu talað oftar en hann um hættuna á hinu stóra alþjóðlega fjármálakerfi og smáa gjaldmiðli og nauðsyn þess að taka upp stöðugan og sterkan gjaldmiðil. Sjálfsagt hefur hann áttað sig betur á því en flestir hvaða efnahagslegu og félagslegu afleiðingar hrun á gjaldmiðli og fjármálakerfi gæti haft fyrir fámenna þjóð í miðri alheimskreppu. Gamla kempan úr KR og landsliðinu átti nú augljóslega erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum undir ræðunni og lái honum hver sem vill.

Hvað var Geir að meina?

Eftir fundinn var þinghúsið fullt af fjölmiðlafólki. Við gengum á milli þeirra til þess að freista þess að útskýra fyrir þjóðinni hvað væri að gerast og hverjar afleiðingarnar yrðu. Ávarp Geirs hafði verið nokkuð loðið og fjölmiðlamennirnir skildu ekki nákvæmlega hvað hann var að fara.

Voru allir bankarnir að hrynja og hvað með spariféð? var spurt í óvissu og örvæntingu. Þarna var ekki ljóst hvaða bankar lifðu af og auðvitað gat Geir ekki dæmt þá lifandi eða dauða, og því stóðu efni til þess hvernig hann háttaði ávarpi sínu. Við ráðherrarnir reyndum að skýra myndina fyrir almenningi eftir því sem á leið. Hvað yrði varið, sparifé, íbúðalán og allt sem laut að brýnustu hagsmunum almennings.

Stórri spurningu var þó ósvarað: Hvað með peningamarkaðssjóðina? Tugþúsundir áttu sparifé í þeim og sá sparnaður upp á hátt í tvö hundruð milljarða króna var í fullkominni óvissu. Þetta var eitt erfiðasta úrlausnarefni næstu vikna og góð ráð voru dýr.

Er allt tapað ?

Eftirminnilegt atvik frá neyðarlagakvöldinu tengdist þessu beint og hafði mikil áhrif á mig. Einstæð móðir með tvö börn, ung kona sem ég kannaðist við úr starfi Samfylkingarinnar, hringdi í mig. Ég var að stökkva upp stigann í þinghúsinu, úr þingflokksherberginu upp í sal til þess að tala í 1. umræðu um neyðarlögin. Fyrir algjöra tilviljun svaraði ég í símann. Í honum var unga konan í miklu uppnámi. Hún hafði ekki skilið annað á ávarpi forsætisráðherra stundu áður en að allt væri fallið og allt fé tapað. Hún hafði nýverið selt íbúðina sína. Var að leita að nýrri og leigði í millitíðinni. Hafði sett sparnaðinn og aleiguna, 20 milljónir, inn í peningamarkaðssjóð Landsbankans að hans ráði. Er allt farið? hrópaði hún á mig hágrátandi.

Vertu róleg, sagði ég við hana, ekkert er tapað fyrirfram. Við verðum að sjá til og vona það besta í uppgjöri bankanna, bætti ég við og fann að ég náði aðeins að slá á óttann sem hafði gripið hana. Þetta var fyrsta samtal af hundruðum næstu vikur og mánuði frá örvæntingarfullu fólki sem taldi sig hafa tapað öllu og sumt verra en það.

Í kjölfar neyðarlaganna varð að taka fjölmargar lykilákvarðanir án þess að mikið tóm gæfist til þess að ígrunda þær. Meðal þeirra var skipun bráðabirgðastjórna bankanna eftir að þeir voru endurreistir hver af öðrum. Þær voru hugsaðar til nokkurra daga og í mesta lagi vikna á meðan var verið að koma skikki á hlutina. Að sama skapi voru þær mikilvægar enda urðu bankarnir strax að verða starfhæfir.

Bráðabirgðastjórnanna biðu margar ákvarðanir um afdrif stórra fyrirtækja og ekki síður uppgjör peningamarkaðssjóðanna.
Ákvörðun nýrra stjórna bankanna um að slíta og gera í kjölfarið upp peningamarkaðssjóðina var mjög mikilvæg, en varð bæði umdeild og hulin þoku rangfærslna og þvælu. Sjóðunum var slitið á markaðslegum forsendum, sem byggðar voru á mati tveggja óháðra aðila á eignum þeirra.

Ósannindi og spuni

Oft var því haldið fram að ég hefði fyrirskipað upplausn sjóðanna á ákveðnum forsendum og nokkrir fjölmiðlamenn eltu mig mánuðum saman með það mál. Því fór fjarri að svo væri enda kostaði þetta uppgjör ríkið ekki krónu eins og fram hefur komið í skriflegu svari á Alþingi. Ég veit heldur ekki af hverju í veröldinni ég hefði átt að gera það, eigandi enga hagsmuna að gæta annarra en að tryggja að réttlátlega og sanngjarnt væri að málum staðið.

Hins vegar biðu hátt í fimmtíu þúsund Íslendingar á milli vonar og ótta um afdrif sjóðanna sem þeir höfðu lagt sparnað sinn í og þeirri óvissu skipti máli að eyða. Ég spurðist strax fyrir um stöðu sjóðanna og í ljós kom að hún var misjöfn. Hægt væri að slíta þeim og borga fólki út allt frá 60% af eign þess upp í tæp 90%, að talið var á þessum tíma. Því var ákveðið að FME mælti fyrir um slit sjóðanna og að uppgjör þeirra skyldi byggjast á áliti tveggja óháðra aðila. Í kringum þessi slit og uppgjörið varð mikið fjaðrafok og átök. Það mæddi því mjög á bráðabirgðastjórnum bankanna að standa vel og réttilega að málum.

Sífelldum ósannindum var síðan dreift um uppgjör sjóðanna mánuðum saman. Hæst náði það með fullyrðingum í blöðum um að það hefði kostað ríkið 200 milljarða að slíta sjóðunum vegna pólitískra tilmæla frá mér og fleirum. Við reyndum að koma staðreyndum á framfæri, en þær týndust í þvarginu og sívaxandi tilhneigingu fjölmiðla að álíta allt, sem frá stjórnvöldum kæmi, ýmist ósannindi eða spuna.

Sannleikurinn kemur þó alltaf fram um síðir. Hið rétta um slit peningamarkaðssjóðanna kom fram einu og hálfu ári síðar í svari fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, til Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um að kostnaður ríkissjóðs vegna uppgjörs sjóðanna var enginn.

Fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar og hluti svars Steingríms er svohljóðandi:

„Hvert var fjárframlag ríkisins vegna peningamarkaðssjóða, innstæðutrygginga annarra en Icesave-reikninganna, sparisjóða, annarra fjármálafyrirtækja en í 2. tölul., tryggingafélaga, lífeyrissjóða og mögulega annarra lánastofnana og fyrirtækja? Óskað er eftir sundurliðun með nöfnum hvers fyrirtækis og fjárframlagi ríkisins.
[Svar:] Engin fjárframlög hafa komið frá ríkinu til peningamarkaðssjóða, innstæðutrygginga annarra en Icesave-reikninga, annarra fjármálafyrirtækja en í 2. tölul., tryggingafélaga, lífeyrissjóða eða annarra lánastofnana og fyrirtækja. Hins vegar gera fjárlög 2010 ráð fyrir 20 milljarða kr. eiginfjárframlagi til sparisjóðakerfisins. Í því tilviki liggur þó ekki fyrir endanleg fjárhæð, enda er fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðanna nú á lokastigi.“

Skipun Jón Þórs mistök

Við skiptum verkum á milli flokka og ráðuneyta til þess að manna hinar nýju stjórnir bankanna tímabundið. Það kom að mestu í minn hlut að finna fólk í stjórnirnar af hálfu Samfylkingarinnar. Margar góðar ábendingar bárust um fólk með góða reynslu og ég reiddi mig á dómgreind samstarfsfólks míns í viðskiptaráðuneytinu við valið.

Í flýtinum var ákveðið að Jón Þór yrði til bráðabirgða formaður stjórnar nýja Glitnis. Töldum við það ágæta ráðstöfun þar til varanlegar stjórnir yrðu settar yfir bankana. Þetta var röng ákvörðun og óheppilegt að setja aðstoðarmann ráðherra í slíka stöðu. Það sáum við strax og gegndi Jón Þór stöðunni í sólarhring. Hann réði á þeim stutta tíma eina bankastjórann sem enn situr, Birnu Einarsdóttir. Jón sagði af sér embættinu og ég setti Þóru Margéti Hjaltested í formennsku í hans stað og stóð hún sig vel í því erfiða hlutverki ofan á skyldur sínar í ráðuneytinu sem voru ærnar.

Þegar komið er í slíkan fellibyl leitar maður eðlilega fyrst til þeirra sem maður hefur kynnst í lífinu og treystir best. Einn þeirra var Guðjón Ægir Sigurjónsson lögfræðingur á Selfossi. Hann var gamall vinur minn sem ég treysti í hvívetna. Þegar við vorum að manna nýja stjórn Glitnis hringdi ég í Guðjón seint um kvöld og bað hann að taka sæti í stjórninni. Hann sagði strax já enda vissi hann manna best að miklu skipti að þetta gengi greitt fyrir sig. Guðjón reyndist mér síðan einstaklega vel sem ráðgjafi og vinur næstu mánuði á eftir. Ég átti við hann mörg samtöl til þess að fá góð ráð og glöggva mig á aðstæðum, sem oft voru æði flóknar.

Sá hörmulegi atburður varð síðan í byrjun janúar 2009 að Guðjón Ægir lést í skelfilegu umferðarslysi rétt fyrir utan Selfoss, daginn eftir 38 ára afmæli sitt. Þetta var reiðarslag sem hafði satt að segja talsverð áhrif á þá ákvörðun mína að segja af mér embætti skömmu síðar. Eftir því sem vikunum frá hruni fjölgaði og álagið og ágangurinn jókst fann ég glöggt hvaða toll þetta var að taka.

En nákvæmlega þennan dag, þegar neyðarlögin voru samþykkt á Alþingi, var ekkert af þessu enn til í huga okkar. Neyðarástand var að bresta á og menn gátu ekki leyft sér að hugsa um neitt annað en hvernig mætti best verja þjóðina.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus