fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Ný mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs: 69% nýrra íbúðalána verðtryggð í fyrra

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 9. október 2018 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimili landsins hafa á undanförnum árum tekið verðtryggð íbúðalán í meiri mæli en óverðtryggð. Í fyrra voru 31% allra nýrra íbúðalána óverðtryggð og 69% verðtryggð. Á undanförnum fimm árum hafa óverðtryggð lán aldrei náð því að vera meira en helmingur nýrra íbúðalána innan mánaðar.

Þrátt fyrir þetta hefur útistandandi fjárhæð óverðtryggðra íbúðalána vaxið meira en verðtryggðra lána undanfarin fimm ár enda hafa verið meiri uppgreiðslur á verðtryggðum íbúðalánum en óverðtryggðum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Vextir óverðtryggðra lána hafa hækkað hjá sumum lánastofnunum

Um miðjan september hófu vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum að hækka hjá nokkrum lánastofnunum. Um er að ræða víðtækustu vaxtahækkanir óverðtryggðra lána, innan mánaðar, síðan árið 2015. Tilkynntar vaxtahækkanir voru á bilinu 0,1-0,4 prósentustig. Hæstu og lægstu vextir óverðtryggðra íbúðalána á markaðnum í heild hafa þó ekki breyst síðan í nóvember 2017.

Íbúðaviðskiptum hefur fjölgað það sem af er ári

Á fyrstu átta mánuðum ársins fjölgaði íbúðaviðskiptum á almennum markaði um 8% á höfuðborgarsvæðinu og um samtals 3% á landsvísu miðað við sama tíma í fyrra. Íbúðaverð á  höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 4,1% undanfarið ár samkvæmt vísitölu íbúðaverðs sem gefin er út af Þjóðskrá Íslands og um 3,2% ef miðað er við vísitölu paraðra íbúðaviðskipta sem er reiknuð af hagdeild Íbúðalánasjóðs. Íbúðaverð hækkar um þessar mundir meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu en uppsöfnuð hækkun frá árinu 2012 er þó enn sem komið er meiri á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni.

28.500-31.000 heimili á leigumarkaði

Ætla má að um miðbik ársins hafi verið á bilinu 28.500-31.000 heimili á leigumarkaði á landinu öllu samkvæmt nýju mati leigumarkaðsdeildar Íbúðalánasjóðs. Fjöldi heimila á leigumarkaði hér á landi samsvarar fjölda allra íbúða í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði samanlagt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt