fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Brimborg segir Helga Seljan brjóta siðareglur RÚV með lævísum lygum í Kveik: „Þessi fullyrðing er röng og var fréttamanni kunnugt um það.“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 5. október 2018 14:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forstjóri Brimborgar, Egill Jóhannsson, sakar Helga Seljan, fréttamann Kveiks, um að hafa vísvitandi logið til um meinta mismunun Brimborgar á starfsmanni, líkt og haldið hafi verið fram í fréttaskýringarþættinum Kveik í vikunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Brimborg.

Egill segir fullyrðingu Helga í þættinum hafa verið ranga og að Helga hafi verið kunnugt um það sjálfum:

„Í fyrrgreindum fréttaskýringaþætti var því haldið fram að starfsmaður á vegum starfsmannaleigu, sem vann hjá Brimborg í sex vikur árið 2016, hafi fengið greidd laun sem væru lægri en þau sem starfsmenn með sömu menntun og reynslu á sama vinnustað fengu greidd. Brimborg hafi þannig mismunað starfsmanninum miðað við íslenska starfsmenn á sama vinnustað. Þessi fullyrðing er röng og var fréttamanni kunnugt um það.“

Hafði ekki sömu menntun og reynslu

Egill greinir frá því ferli sem fylgir því að fá starfsmann frá starfsmannaleigu og segir Brimborg þurfa að sannreyna reynslu og menntun starfsmannsins. Hann segir að Helgi Seljan hafi vitað af þessu ferli og að starfsmanninn hafi skort þá viðurkenningu sem þyrfti til að teljast með sömu menntun og reynslu og aðrir starfsmenn Brimborgar og því ekki hlotið sömu laun og þeir:

„Þessa viðurkenningu skorti hjá umræddum starfsmanni, viðmælanda fréttamannsins, en launakjör hans voru samt 14,1% hærri en taxti Eflingar verkalýðsfélags fyrir ófaglærða með 5 ára starfsreynslu. Aðrir starfsmenn Brimborgar, sem hann vildi bera sig saman við, voru bæði með viðurkennda menntun og lengri starfsreynslu. Brimborg sendi fréttamanni Kveiks ítarlegar upplýsingar um ofangreint fyrir útsendingu þáttarins en engu að síður er fullyrt í þættinum að viðkomandi starfsmaður hafi haft menntun og reynslu sem bifvélavirki.“

Lævísi Kveiks brjóti gegn siðareglum

Þá finnur Egill að því hvernig gefið var í skyn að Brimborg hefði brotið á réttindum starfsmanna með myndmáli og klippingum:

„Þátturinn var um 44 mínútna langur og var umfjöllun um Brimborg í 60 sekúndur sett í samhengi við misnotkun og brot á réttindum erlendra starfsmanna, hælisleitenda, mansalsfórnarlamba og svarta atvinnustarfsemi. Með lævíslegum hætti með notkun á myndmáli og klippingum var Brimborg spyrt við þessi brot þó að það hafi ekki verið nefnt með orðum að Brimborg hafi brotið af sér. Í raun var myndefnið alls ekki í samræmi við umfjöllun þáttarins.

Brimborg telur að með þessum fréttaflutning hafi fréttamaðurinn brotið siðareglur RÚV, sem m.a. fjalla um mikilvægi þess að gætt sé sanngirni í framsetningu og efnistökum, sbr. einkum þriðju og fimmtu málsgreinum fyrstu greinar en þar segir:

„Starfsfólk sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni eða dagskrárgerð sannreynir að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum. Þetta á sérstaklega við þegar upplýsingar geta verið litaðar af persónulegum hagsmunum eða geta verið til þess fallnar að skaða aðra. Gildir þá einu hvort í hlut eiga einstaklingar, fyrirtæki, samtök, félög eða annað“. – „Starfsfólk stendur vörð um trúverðugleika stofnunarinnar. Staðreyndavillur og mistök, sem varða umfjöllun eða samskipti við almenning, eru undanbragðalaust leiðrétt eins fljótt og mögulegt er“.

Fagnar heimsókn Vinnumálastofnunar

Þá segir Egill að aðbúnaður starfsmanna Brimborgar sé framúrskarandi á allan hátt og hvetur Vinnumálastofnun til að kíkja í heimsókn:

„Brimborg hefur gert allt sem í sínu valdi hefur staðið til þess að tryggja hag erlendra starfsmanna og hvetur Vinnumálastofnun og aðrar opinberar stofnanir til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu með heimsóknum og skoðun gagna. Við hjá Brimborg munum fagna slíkum heimsóknum.“

 

Yfirlýsing Brimborgar í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt