fbpx
Eyjan

Fyrir fimmtíu árum, fyrir hundrað árum

Egill Helgason
Föstudaginn 28. september 2018 20:09

Ég sá á netinu að nú væru liðin 50 ár frá útgáfu Hvíta albúms Bítlanna.

Það eru semsagt 50 ár síðan ég, átta ára bítlasjúkur strákur, lasinn heima, fékk að taka leigubíl í Fálkann á Laugavegi til að kaupa plötuna og koma með hana heim.

Hún var eins og furðuheimur þessi plata, með allri þessari nýstárlegu tónlist, skínandi hvítu umslaginu, þessum flottu ljósmyndum sem ég hengdi upp á vegg, og svo plakati með textum.

Hvílíkur dýrgripur – hugsaði ég. Þetta var á þeim tíma þegar hönnunin skipti miklu máli í útgáfu tónlistar – plötur voru stórkostlegir hönnunargripir. Og þar voru Bítlarnir fremstir, rétt eins og í tónlistinni.

50 ár. Haustið 1968, þegar ég keypti Bítlaplötuna, voru liðin 50 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar og spænsku veikinni. Það er semsagt jafnlangur tími frá því í dag og til Hvíta albúmsins og frá því þá til þessara hörmungaatburða.

Svona líður tíminn. Maður hefur notið þess að vera uppi á tímaskeiði friðar, frelsis og velmegunar. Ef litið er á sögu mannkynsins er maður einn af heppna fólkinu. Fyrir 100 árum var fyrri heimsstyrjöldin að renna sitt skeið, þar voru ótal ungir menn reknir í dauðann í algjöru tilgangsleysi. Strákar sem voru litlu eldri en sonur minn er nú.

Og heimurinn var að leggjast í inflúensuna sem var kennd við Spán. Sagt er að  hún hafi grandað fleiri mannslífum en báðar heimsstyrjaldirnar samanlagt. Ég hafði einkennilegan áhuga á þessai farsótt þegar ég var strákur, kannski vegna þess að í kirkjugarðinum sem var rétt hjá heimili mínu – og var einn af leikvöllum okkar krakkanna – hvíldu svo margir sem dóu úr henni.

Skemmtilegra er að minnast Bítlaplötu sem kom út hálfri öld síðar og gladdi dreng sem lifði við hamingju og öryggi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 22 klukkutímum

Guðmundur Kristjánsson: „Þetta veiðigjald er mjög ósann­gjarnt“ 

Guðmundur Kristjánsson: „Þetta veiðigjald er mjög ósann­gjarnt“ 
Eyjan
Í gær

Fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á meðal húseigenda sem hafa tekið sér land í heimildarleysi og stækkað lóðir sínar

Fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á meðal húseigenda sem hafa tekið sér land í heimildarleysi og stækkað lóðir sínar