fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Leggur til að ákvörðunarréttur kvenna til þungunarrofs færist fram til 18. viku meðgöngu

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 27. september 2018 13:33

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Velferðarráðuneytið hefur birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra til nýrra laga um svokallað þungunarrof, áður þekkt sem fóstureyðing.

Markmið fyrirhugaðrar lagasetningar er að tryggja að „sjálfsforræði kvenna verði virt með öruggum aðgangi að heilbrigðisþjónustu fyrir þær konur sem óska eftir þungunarrofi.“

Í drögum frumvarpsins er lagt til að „konu verði veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 18. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja konunnar.“

Úr 16 vikum í 18

Samkvæmt núgildandi lögum verður þungunarrof að eiga sér stað fyrir lok 16. viku meðgöngu, nema fyrir hendi séu „ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu.“

Einnig er fóstureyðing leyfileg eftir 16 vikur, „séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.“

Í núgildandi lögum er þó tilgreint að fóstureyðing skuli framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans. Lagt er til að þetta ákvæði haldi sér í nýjum lögum.

Þá er þungunarrofi á 18. viku sett ýmis skilyrði:

„Eftir lok 18. viku þungunar er lagt til að einungis verði heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar. Lagt er til að krafa verði gerð um staðfestingu tveggja lækna fyrir því að fóstur teljist ekki lífvænlegt til frambúðar og að landlækni skuli tilkynnt um þau þungunarrof sem framkvæmd eru eftir lok 18. viku þungunar, ástæðu þess og staðfestingu þeirra lækna sem að ákvörðuninni komu,“

segir í drögunum.

Réttur til fullkomnustu heilbrigðisþjónustu

Þá er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um rétt kvenna á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita í tengslum við þungunarrof og að tryggja skuli aðgang að þungunarrofi í öllum heilbrigðisumdæmum landsins, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu.

Einnig er lagt til ákvæði um framkvæmd þungunarrofs þar sem fram kemur að þungunarrof með læknisaðgerð skuli framkvæmt á sjúkrahúsi undir handleiðslu læknis sem sé sérfræðingur á sviði kvenlækninga en einnig skuli heimilt að framkvæma þungunarrof með lyfjagjöf á starfsstöðvum lækna sem sæta eftirliti landlæknis.

Þá er lagt til að gerð verði krafa um fræðslu um áhættu samfara aðgerðinni sem og að konu skuli boðið upp á stuðningsviðtal vegna þungunarrofs bæði fyrir og eftir að það er framkvæmt.

Loks er lagt til að tilkynna beri synjanir um þungunarrof til Embættis landlæknis og synjun verði kæranleg til úrskurðanefndar um þungunarrof sem starfi innan Embættis landlæknis og skuli nefndin skila úrskurði innan viku frá því kæra berst nefndinni. Í nefndinni skuli eiga sæti þrír einstaklingar, landlæknir sem verði formaður nefndarinnar og lögfræðingur og sérfræðingur í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum sem skipuð verði án tilnefningar.

Þá er lagt til að Embætti landlæknis haldi skrá á rafrænu formi yfir öll þungunarrof sem framkvæmd eru. Lagt er til að viðurlagaákvæði laganna verði þess efnis að um brot gegn ákvæðum laganna fari samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og laga um heilbrigðisstarfsmenn, eftir því sem við eigi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt