fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Lofgjörðir í fréttatímum RÚV

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 25. september 2018 08:45

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Í fréttatímum Ríkissjónvarpsins á laugardags- og sunnudagskvöld voru fluttar langar og svolítið kostulegar frásagnir af embætti sérstaks saksóknara og svonefndu Al Thaní máli sem dæmt var í Hæstarétti í októbermánuði 2016. Segja má að þetta hafi verið í stíl lofgjörða um þetta embætti. Þess var hvergi getið að stofnun þessa embættis á sínum tíma og ýmis verk þess meðan það starfaði hefur hlotið hvassa og rökstudda gagnrýni margra lögfræðimenntaðra manna. Svo er einnig um dóm Hæstaréttar í Al Thaní málinu.

Íslendingar minnast sjálfsagt flestir hinnar miklu baráttukonu Evu Joly sem kom fram í sjónvarpi hér á landi fyrst eftir hrunið mikla og hvatti landann til dáða í refsimálum. Hún var ekki lögfræðingur og byggði málflutning sinn ekki á mati á því hvort refsilög hefðu verið brotin í aðdraganda hrunsins. Hún var miklu fremur einhvers konar áróðurskona sem virtist kannski aðallega vera andvíg hinu kapitalíska kerfi sem hér var að nokkru leyti við lýði. Virtist hún telja upplagt að nota hörmungar þjóðarinnar til að ráðast gegn því kerfi. Þessi lævísa kona virtist vefja þjóðinni um fingur sér, þannig að kjörnir fyrirsvarsmenn fengu engu um ráðið.

Flogið hefur fyrir að Eva Joly hafi meðal annars mætt á fund eða fundi með saksóknurum og lagt á ráðin um ráðabrugg þeirra gagnvart fjölmiðlum til að vinna almenning og dómstóla á sitt band, án þess að þekking á lagareglum þvældist þar fyrir. Á hún að hafa sagt þeim hvernig ætti að „vinna“ í fréttamiðlum. Ná skyldi persónulegu sambandi við einstaka fréttamenn og telja þeim trú um að þeir væru komnir í samband sem aðrir fjölmiðlar hefðu ekki. Svo væri hægt að fóðra þá á „upplýsingum“ þannig að þeir yrðu fyrstir með fréttina og fengju klapp á bakið. Um leið yrði skapaður grundvöllur fyrir framgangi krafna á hendur sökuðum mönnum fyrir dómstólum sem væru
veikburða og afar hallir undir almenningsálitið. Kannski hinn fyrrverandi en sérstaki saksóknari sé tilbúinn til að staðfesta réttmæti þessa orðróms?

Þegar ég hlustaði á hinar einhliða lofrullur fréttastofu RÚV tvo daga í röð um þetta embætti og verk þess, datt mér í hug að nú hlyti að standa fyrir dyrum meðferð dómsmála þar sem beita yrði aðferðum Joly fremur en lögfræðinnar til að ná fram sakfellingum. Ég veit svo sem ekki hvort það er rétt en fróðlegt verður að fylgjast með þessu næstu daga. Allavega er ljóst að þessir pistlar í RÚV eiga fátt skylt við hlutlausa fréttamennsku. Varla hafa þeir samt verið
„kostaðir“ af þeim sem lofið hlutu.

Ég hef, m.a. í bókum mínum, gert grein fyrir þeirri skoðun að aldrei eigi að stofna sérstök saksóknarembætti til að sinna afmörkuðum flokkum ætlaðra afbrota. Það er fyrst og fremst vegna þess að öll sakamál eiga að hljóta sambærilega meðferð. Það á ekki að stofna baráttuembætti til að ná fram niðurstöðum í einum flokki mála sem ekki standast samanburð við meðferð mála almennt. Allir sakaðir menn eiga rétt á sams konar meðferð mála sinna. Og
má ég frábiðja mér fagnaðarlæti saksóknara í fjölmiðlum yfir því að hafa náð fram áfellisdómum hjá veikburða dómstólum, sem aldrei hefðu átt að kveða þá upp.

Jón Steinar Gunnlaugsson er lögmaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins