fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Eyjan

Hin endalausu Brexit-vandræði

Egill Helgason
Sunnudaginn 23. september 2018 14:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er sérkennilegt að fylgjast með Brexit – og það úr ýmsum áttum. Jacob Rees-Mogg, helsti leiðtogi útgöngusinna, segir að þegnar Evrópusambandsins sem nú þegar eru búsettir í Bretlandi, 1,7 milljón talsins, muni ekki hafa neinn sérstakan rétt til að dvelja þar áfram.  En það hlýtur þá að gilda á hinn veginn – að allir þeir Bretar sem eru búsettir á meginlandi Evrópu, til dæmis fólk sem hefur vegna þæginda og loftslags sest að í Frakklandi og á Spáni, hafi engan rétt heldur.

Þetta er ekki glæsileg framtíðarsýn.

David Davis, sá sem hvarf nýskeð úr ráðuneyti Brexits vegna þess að ekkert gerðist á hans vakt, segir að Bretar muni ekki láta tuddast á sér. Þetta hljómar eins og lýðskrum, eins og ætlunin sé að breiða yfir mistök og óraunsæi Brexit-ferlinu með því að magna upp þjóðrembu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem er mikill Bretlandsvinur, hittir Michael Gove, einn helsta forystumann Íhaldsflokksins og segir að Brexit-vandræðin sýni að Íslendingar gætu ekki verið í ESB vegna þess að varla sé hægt að ganga þaðan út.

En þetta er frekar ónákvæmt. Bretar geta hæglega farið út. Það eru þeir sem hafa ákveðið að ganga úr ESB, ekki öfugt. En vandinn er sá að þegar  þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin 2016 var ekkert rætt um á hvaða forsendum það væri.  Það var kannski ekkert sérlega lýðræðislegt. Alls konar lygar og rangfærslur óðu uppi á tíma þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Eftir hana sólundaði breska stjórnin miklum tíma, May var mjög yfirlýsingaglöð eftir að hún tók við embætti forsætisráðherra,  þegar hefði verið nær að hyggja að því um hvað væri raunsætt að semja og hver væri raunverulegur vilji kjósenda. En hinn eilífi ófriður  innan Íhaldsflokksins kom í veg fyrir það – Brexit byrjar yfirleitt alltaf og endar þar.

Klofningur milli landsvæða og kynslóða hjálpar ekki. Fólk í borgum vill ekki ganga út, ekki ungt fólk, ekki Skotar og svo er eitt vandræðamálið að hætt er við að upp úr sjóði á Norður-Írlandi á nýjan leik. Í raun væri eðlilegasta afleiðing Brexit að Norður-Írland sameinaðist Írska lýðveldinu og yrði eitt ríki á eyjunni grænu. Fáar þjóðir hafa hagnast jafn mikið á verunni í ESB og Írar – og ríkidæmið þar hefur verið að smitast yfir til Norður-Írlands. Lokuð landamæri milli ríkjanna eru óhugsandi.

Bretar þeir eru eins og makinn sem yfirgefur snöggglega hjónaband sitt og fjölskyldu, en fer svo að gera alls kyns kröfur. Vill fá að mæta í matartímana og fá að nota svefnherbergið áfram – án þess að leggja helst neitt á móti. Hrópar að hann sé órétti beittur þegar ekki er gengið að þeim öllum. Það er svosem ekki nýtt að Bretar ofmeti stöðu sína meðal þjóða. Þeir vilja nú samninga sem trryggja hindrunarlaus viðskipti og aðgang að sameinaða markaðnum – án þess þó að lúta reglunum sem þar gilda.  Breska stjórnin virðist hafa haldið að hún gæti sundrað samstöðu ESB ríkjanna um fjórfrelsið, en það hefur ekki gengið. Sú taktík hefur reyndar fremur hleypt illu blóði í viðræðurnar og valdið því að ESB ríkin standa þéttar saman en ella. Þetta sást glöggt á leiðtogafundinum í Salzburg í vikunni þar sem tillögum Theresu May var einróma hafnað. Heima hefur reyndar Chequers plagginu verið hafnað líka – harða Brexit-liðið getur alls ekki fellt sig við það. Hugmyndirnar voru eiginlega dauðar áður en May fór til Austurríkis.

Nú eru Bretar að missa tímann frá sér. Stjórn Theresu May riðar til falls og það er jafnvel talað um að hún boði til kosninga snemma í vetur, þar myndi hún reyna að bjarga sínu pólitíska lífi undan körlum eins og Rees-Mogg, Gove og Boris Johnson.  Það lýsir því hvílík pólitísk kreppa þetta er orðin að einhverjum skuli detta í hug að halda, að því er virðist ótímabærar kosningar sem snúast einungis um þrönga pólitíska hagsmuni, aðeins fáum mánuðum áður en hið endanlega Brexit gengur í garð, 29. mars 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þykir miður að kaupin á TM hafi orðið umdeild

Þykir miður að kaupin á TM hafi orðið umdeild
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum
EyjanPennar
Fyrir 5 dögum

Kristrún: „Þjóðin gerir kröfu um árangur“

Kristrún: „Þjóðin gerir kröfu um árangur“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ásakanir um lýðskrum og óráðsíu gengu á víxl á fundi borgarstjórnar og spurt hvort enginn viti hversu margir milljarðar eru farnir

Ásakanir um lýðskrum og óráðsíu gengu á víxl á fundi borgarstjórnar og spurt hvort enginn viti hversu margir milljarðar eru farnir