fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Um upplifun og minni

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 20. september 2018 08:50

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Það gerðist fyrir mörgum áratugum að unglingalið tveggja knattspyrnufélaga öttu kappi á fótboltavellinum. Leikurinn réð úrslitum um sigur í mótinu sem um ræddi. Úrslitin urðu 5-0 og skoraði sami leikmaður annars liðsins öll mörkin. Markmaður andstæðinganna mátti þola þá niðurlægingu sem honum fannst áreiðanlega felast í þessu.

Áratugum síðar hittust þessir tveir fyrrverandi fótboltastrákar og tóku tal saman. Sá sem hafði skorað mörkin vék talinu að þessu atviki. Þá vék svo við að hinn mundi ekkert eftir því.

Hvað var hér að gerast? Ætli markmaðurinn fyrrverandi hafi verið að segja ósatt? Engin ástæða er til að telja það. Hann var einfaldlega búinn að fjarlægja úr huga sínum endurminninguna um þennan atburð, sem hann hafði auðvitað viljað gleyma.

Um daginn flutti ég fyrir dómi mál, þar sem fjallað var um játningar sem sakborningar höfðu gefið við rannsókn alvarlegs sakamáls fyrir mörgum áratugum. Í málinu lá fyrir að þessar játningar höfðu fengist með því að beita sakborningana svæsnu harðræði. Fljótlega eftir að þessi meðferð á fólkinu hófst á sínum tíma var svo komið fyrir því að vita hreinlega ekki lengur hvort þau hefðu átt þátt í þeim glæpum sem þau voru sökuð um. Snúið hafði verið upp á minni þeirra með þessum afleiðingum.

Ég sá einu sinni þátt í sjónvarpi, þar sem sýnd var tilraun til að prófa skammtíma minni fólks. Settur var upp skyndilegur óvæntur atburður, þar sem allmargt fólk var komið saman. Vitnin voru strax aðskilin og síðan yfirheyrð um atvikið. Þetta voru einhverjir tugir „vitna“ sem voru yfirheyrðir. Engar tvær lýsingar voru eins. Enginn var samt að skrökva neinu. Upplifunin hafði bara verið misjöfn hjá vitnunum.

Almennt má gera ráð fyrir að vitni muni atburð betur eftir því sem skemmri tími er liðinn frá honum. Þetta er vegna þess að í huga vitnisins heldur atburðurinn áfram að þróast og taka á sig nýjar myndir sem stundum verða verulega frábrugðnar því sem gerðist. Orsakir kunna meðal annars að felast í einhvers konar vildarafstöðu vitnisins, sem án nokkurs ásetnings af þess hálfu hefur breytt atburðinum.

Af öllu þessu er ljóst að ekki er ráðlegt að treysta frásögnum fólks af liðnum atburðum. Þetta kann að eiga við um nýliðna atburði en auðvitað miklu fremur um atburði sem eiga að hafa gerst fyrir jafnvel áratugum síðan.

Nú um stundir er víða um lönd farið fram með ásakanir um dónaskap og misgjörðir fólks sem eiga að hafa verið hafðar í frammi fyrir löngu síðan. Sumir ganga jafnvel svo langt að staðhæfa að ásökun um ámælisverða háttsemi sé sönn af þeirri ástæðu einni að hún er höfð í frammi.

Svona ásakanir eru einatt látnar duga til að víkja fólkinu úr störfum sem það gegnir eða til að telja það ekki verðskulda trúnaðarstörf sem til stendur að fela því. Er þá ekki talið skipta máli þó að viðkomandi einstaklingur eigi að baki langan og farsælan feril í störfum sínum.

Hér ættu menn að staldra við. Það gengur ekki í heimi mannanna að meðhöndla meintar en ósannaðar ávirðingar svona. Ásökun getur verið röng jafnvel þó að sakaráberi sé alls ekki að skrökva henni vísvitandi. „Úrvinnsla“ hans úr atviki, gömlu eða nýju, getur einfaldlega verið með þeim hætti að atburðurinn hafi umbreyst yfir í eitthvað sem aldrei gerðist.

Kannski ættum við að reyna að sýna hvert öðru þá háttvísi að hafa ekki uppi ásakanir á hendur öðru fólki sem aldrei verður unnt að færa sönnur á að séu réttar. Þannig yrði best tryggt að ósannar sakir valdi ekki fólki skaða.

Hvað finnst þér, lesandi góður?

 

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins