fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Guðmundur í Brimi minnir á tengsl Fréttablaðsins við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 19. september 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Samkeppniseftirlitið hafi gert fjórar „alvarlegar athugasemdir“ við viðskiptahætti Guðmundar Kristjánssonar, aðaleiganda Brims og HB Granda, í frummati sínu. Kom fram að ef frummatið væri á rökum reist, væri um að ræða alvarlegt brot á samkeppnislögum.

Guðmundur hefur svarað fyrir sig þar sem hann minnir á að stjórnarformaður Fréttablaðsins sé einnig varaformaður stjórnar Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum sem og lögmaður meirihlutaeigenda félagsins.

Athugasemdir Samkeppniseftirlitsins voru að Guðmundur, sem aðaleigandi Brims, væri einnig forstjóri HB Granda og að hann sem aðaleigandi Brims, sæti einnig í stjórn Vinnslustöðvarinnar, en hvort tveggja gæti verið brot á samkeppnislögum. Einnig að lutu tvær athugasemdir að því að kaup Brims á HB Granda í ár og kaup Brims á Ögurvík árið 2016, hafi ekki verið tilkynnt til samkeppniseftirlitsins.

Niðurstaða liggur ekki fyrir – Rangfærslur leiðréttar

Samkeppniseftirlitið sendi frá sér tilkynningu í dag, hvar tekið er fram að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir, frummatið geti breyst og að fram hafi komið að Guðmundur hafi verið genginn úr stjórn Vinnslustöðvarinnar þegar athugun Samkeppniseftirlitsins hófst:

„Líkt og tilkynnt var um til kauphallar og birt þar opinberlega í júlí sl., hefur Samkeppniseftirlitið framangreint mál til rannsóknar á grundvelli 17. og 10. gr. samkeppnislaga. Einkum er til skoðunar hvort breytingar hafi orðið á yfirráðum í HB Granda þegar Brim eignaðist verulegan hlut í félaginu í maí sl. Einnig eru til skoðunar tengsl fyrirtækja í gegnum eignarhluti og stjórnarsetu Guðmundar sem til staðar voru á þeim tíma eða áður.

Rétt er taka skýrt fram að endanleg niðurstaða í framangreindu máli liggur ekki fyrir. Það frummat sem kynnt var aðilum máls byggði á fyrirliggjandi upplýsingum á þeim tíma. Var frummatið sett fram til þess að gefa hlutaðeigandi aðilum tækifæri til þess bregðast við því og koma skýringum og sjónarmiðum á framfæri. Af eðli máls leiðir að umrætt frummat getur því breyst.

Aðilar málsins hafa nú komið á framfæri skýringum og sjónarmiðum vegna málsins, þ.á.m þess efnis að Guðmundur var genginn úr stjórn Vinnslustöðvarinnar þegar athugun Samkeppniseftirlitsins hófst. Er Samkeppniseftirlitið nú að fara yfir fram komnar skýringar og upplýsingar og afla frekari upplýsinga áður en ákvörðun verður tekin um hvort þörf sé íhlutunar í málinu.“

Guðmundur svarar fyrir sig

Guðmundur sendi Fréttablaðinu einnig tilkynningu hvar hann svarar fyrir athugasemdirnar fjórar. Hann segist enn vera sömu skoðunar og í byrjun júlí, að eðlilegt væri að eftirlitsstofnanir fylgust með viðskiptalífinu.

Guðmundi þótti einnig ástæða til að minna á að stjórnarformaður Fréttablaðsins, Einar Þór Sverrisson, væri lögfræðingur meirihlutaeigenda í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum og varaformaður stjórnar þess. Guðmundur var minnihlutaeigandi í Vinnslustöðinni í gegnum Brim (33%) þar til í gær, er hann seldi hlut sinn á 9,4 milljarða til FISK Seafood, sem er útgerðarhluti Kaupfélags Skagfirðinga.

Hefur hann átt í útistöðum við meirihlutaeigendur VSV um nokkurt skeið, en Brim höfðaði mál gegn Vinnslustöðinni, þar sem farið var fram á ómerkingu kjörs stjórnar og varastjórnar félagsins, en til hennar var Einar Þór kosinn varaformaður stjórnar.

Guðmundur hefur einnig gagnrýnt lélegan rekstur meirihlutaeigenda VSV, fyrir að uppfæra ekki tækjabúnað, heldur greiða sér arð í staðinn, með þeim afleiðingum að fyrirtækið hafi dregist aftur úr í samkeppni.

 

Árétting Guðmundar til Fréttablaðsins:

„Samkeppniseftirlitið hefur kaup Brims hf. á hlutabréfum í HB Granda í athugun og sendi félögunum af því tilefni erindi í júlí á þessu ári. Þar kemur fram að Samkeppniseftirlitið skoðar fjögur atriði.

Í fyrsta lagi hvort tilkynningarskyldur samruni hafi átt sér stað þegar Brim hf. eignaðist þann 4.maí 34% hlut í HB Granda. Það er enn í skoðun. Í öðru lagi hvort það standist 10.gr. samkeppnislaga að aðaleigandi Brims hf. sé forstjóri HB Granda. Það er enn í skoðun. Í þriðja lagi hvort að stjórnarseta aðaleigandi Brims hf. í stjórn Vinnslustöðvarinnar brjóti gegn 10.gr. samkeppnislaga. Það er rangt að Guðmundur Kristjánsson hafi í vor verið í stjórn Vinnslustöðvarinnar og þarfnast því ekki frekari skoðunar. Í fjórða lagi er athugað hvort að tilkynningaskyldur samruni hafi átt sér stað þegar Brim hf. keypti allt hlutafé í Ögurvík árið 2016. Samskipti áttu sér stað við Samkeppniseftirlitið á þeim tíma og var það sameiginleg niðurstaða þá að þessi viðskipti væru ekki tilkynningaskyld og er það atriði ekki lengur til skoðunar. En vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins má geta þessa að stjórnarformaður Fréttablaðsins er einnig lögmaður meirihlutaeigenda Vinnslustöðvarinnar  í Vestmannaeyjum hf. og varaformaður stjórnar VSV.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn