fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Skúli vísar skuldafrétt á bug: „Til skammar að Morgunblaðið sé að slá upp slíkum fyrirsögnum án áreiðanlegra heimilda“

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 15. september 2018 19:06

Skúli Mogensen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, segir það alrangt að félagið skuldi Isavia tvo milljarða króna í lendingargjöld, líkt og Morgunblaðið greindi frá í dag. Hann birti í dag pistil á Facebook hvar hann hneykslast yfir umfjöllun fjölmiðla um félagið sem og hegðun bráðabirgðarforstjóra Icelandair.

Æsifréttarstíll Morgunblaðsins

Skúli segir það til skammar að Morgunblaðið slái upp slíkum fyrirsögnum án áreiðanlegra heimilda:

„Ég get ekki orða bundist lengur að sjá hvernig sumir fjölmiðlar keppast um að tortryggja WOW air og það sem við höfum byggt upp undanfarin ár. Ég hreinlega trúi ekki að nokkur blaðamaður eða fjölmiðill sé svo skammsýnn að vilja vísvitandi skemma fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Nýjasta „fréttin“ er að við eigum að skulda Isavia yfir tvo milljarða. Þessu er slegið upp með stórri fyrirsögn í æsifréttastíl á forsíðu Morgunblaðsins í dag og er vitnað í nafnlausan heimildarmann. Við leggjum ekki í vana að tjá okkur um einstaka birgja eða þjónustusamninga en þetta er einfaldlega rangt. Við eigum mjög gott samstarf við Ísavía og höfum aldrei skuldað þeim yfir tvo milljarða króna og það er til skammar að Morgunblaðið sé að slá upp slíkum fyrirsögnum án áreiðanlegra heimilda.“

Icelandair á ríkisspenanum

Skúli lætur Icelandair líka heyra það í færslu sinni, fyrir að kvarta yfir mismunun:

„Svo í ofanálag kemur tímabundinn forstjóri Icelandair og fer að kvarta yfir mismunun og að við séum að selja flugmiða of lágu verði. (þá vitum við hver staðan væri ef WOW hefði ekki komið til sögunnar!) Við getum og munum halda áfram að selja flugmiða á frábærum verðum einfaldlega af því að við erum með mun lægri rekstrar kostnað en Icelandair. Afkoma WOW air á þriðja ársfjórðungi verður góð og útlit fyrir að seinni hluti ársins verði einnig góður.  Það hefur ekkert félag í Íslandssögunni fengið jafn mikla ríkisaðstoð og verið bjargað jafn oft af ríkinu eins og Icelandair. Jafnframt er ríkisbankinn Íslandsbanki stærsti lánveitandi félagsins.“

Vill vinnufrið

Skúli biður loks um vinnufrið til að byggja upp félagið, sem sagt er hafa náð 50 milljón evra markinu í útboði sínu:

„Ég hlakka til að klára útboðið okkar á þriðjudaginn og fá frið til að halda áfram að byggja upp WOW air með okkar frábæra teymi, öllum til hagsbóta. Takk“

 

Aldrei skuldað tvo milljarða

Í svari WOW við fyrirspurn Morgunblaðsins um skuldastöðu þess við Isavia segir að félagið hafi aldrei skuldað Isavia tvo milljarða. Því er þó ekki svarað hvort WOW skuldi einhver lendingargjöld yfir höfuð heldur, eða hvort skuldin sé gjaldfallin.

WOW sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem gefið var út að skuldabréfaútgáfa að virði 50 milljóna evra, yrði kláruð næsta þriðjudag.

WOW leitaði á náðir þriggja stærstu viðskiptabankanna með fjármögnun, en samkvæmt fólki í viðskiptalífinu sem Eyjan hefur talað við, er talið er ólíklegt að af því verði nema ríkisábyrgð komi til, sem er talin er enn ólíklegri atburðarrás.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt