fbpx
Eyjan

Sigmundur krefst afsökunarbeiðni vegna landsdómsmálsins

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 14. september 2018 09:40

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þess efnis að málshöfðun Alþingis gegn ráðherrum árið 2010 hafi verið óréttmæt og viðkomandi ráðherrar verðskuldi afsökunarbeiðni. Tillagan var einnig lögð fram á síðasta þingi og er nú flutt aftur óbreytt.

Í Landsdómsmálinu svokallaða samþykkti Alþingi þann 28. september 2010, að höfða mál gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrum utanríkisráðherra, Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrum viðskiptaráðherra og Árna G. Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra. Ekki náðist samstaða um að draga hin þrjú síðastnefndu fyrir Landsdóm, það féll á herðar Geirs H. Haarde, sem var þó engin refsing gerð, þó svo hann hafi verið sakfelldur fyrir „að hafa af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni eins og fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að honum hlaut að vera ljós sá háski, sem vofði yfir bankakerfinu og þar með heill ríkisins […] með þeim afleiðingum að ekki var um þau málefni fjallað á vettvangi ríkisstjórnarinnar.“

Geir áfrýjaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem komst að því að íslenska ríkið hefði ekki brotið gegn honum.

Flokkspólitísk ákvörðun

Í greinargerð þingsályktunartillögunar segir að niðurstaða Landsdóms hafi sýnt að ekki hafi verið tilefni til kæru og að ekki hafi verið gætt samræmis við beitingu laga um landsdóm þar eð lögunum hafi ekki verið beitt í öðrum tilvikum er varða stjórnmálalegar ákvarðanir og aðgerðir sem stefnt hafa hagsmunum ríkisins í hættu.

Þá beri atkvæðagreiðsla um málshöfðun þess merki að niðurstaða um það hverja skyldi ákæra hefði annaðhvort verið tilviljanakennd eða skipulögð eftir flokkspólitískum línum. Mikilvægt sé að árétta að dómsvaldi megi aldrei beita í pólitískum tilgangi.

Þá er lýðræðislegu stjórnarfari sagt standa ógn af því ef reynt sé að fá starfandi eða fyrrverandi stjórnmálamenn dæmda til fangelsisvistar vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis án þess að um hafi verið að ræða ásetning um brot. Ýmsar stjórnmálalegar stefnur og ákvarðanir, eða aðgerðaleysi, geta verið skaðlegar hagsmunum ríkisins án þess að ætlunin hafi verið að valda tjóni. Slíkt álitamál beri að leiða til lykta í kosningum en ekki fyrir dómstólum.

 

Flutningsmenn eru alls 15:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson, Miðflokki.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Óli Björn Kárason, Haraldur Benediktsson, Páll Magnússon og Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki.

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson úr Flokki fólksins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Samanburður við lýðveldishátíð og kristnitökuafmæli út í hött

Samanburður við lýðveldishátíð og kristnitökuafmæli út í hött
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Félagsbústaðir fá fjárveitingu – Utangarðsfólk fær smáhýsi

Félagsbústaðir fá fjárveitingu – Utangarðsfólk fær smáhýsi